Sunnudagur 12.01.2014 - 20:15 - FB ummæli ()

„Óbifanlegur stuðningur“

Hvað kom fyrir Bandaríkin? Og alveg sérstaklega, hvað kom fyrir Barack Obama?

Þegar ég var strákur fór aldrei milli mála að Bandaríkin studdu Ísrael með ráðum og dáð. En ekki samt alveg gagnrýnislaust. Jimmy Carter og meira að segja Richard Nixon leyfðu Ísraelum ekki að komast upp með alveg hvað sem er.

Núna virðist það vera trúaratriði númer eitt, tvö og þrjú í bandarískri pólitík að styðja Ísrael – alveg sama á hverju sem gengur þar í landi.

Ömurlegt framferði þeirra gegn Palestínumönnum vekur ekki lengur minnstu mótbárur Bandaríkjamanna.

Og Barack Obama (ósköp sem maður hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum með þann mann!), notar tækifærið þegar hann minnist Ariels Sharons til að geta um „óbifanlegan stuðning okkar við öryggi Ísraels“.

Sjá hér.

Í mínu ungdæmi var Ísrael eins og dálítið róstusamur táningur sem reyndi stundum á þolinmæði hins bandaríska föður síns.

Sú þolinmæði virtist vissulega býsna mikil.

En ef strákur gengi alltof langt í látunum, myndi pabbinn örugglega koma til sögunnar og hafa hemil á stráknum.

Núna er sambandið orðið eins og í leikriti Guðmundar Steinssonar, Lúkas, þar sem ungi maðurinn heldur gömlu hjónunum í heljargreipum ótta og meðvirki og kemst upp með hvaða ofstopa sem er, þau afsaka hann auðmjúk fram í rauðan dauðann.

Ísrael ræður algjörlega ferðinni í þessu sambandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!