Fimmtudagur 20.02.2014 - 15:30 - FB ummæli ()

Úkraína

Blóðbaðið í Úkraínu er skelfilegt, eiginlega þyngra en tárum tekur.

Ég hef þegar gagnrýnt „skýringar“ utanríkisráðherra Íslands á því sem þarna er að gerast.

Aðrir hafa aftur á móti leitað þeirra í aldagömlum þjóðernis- og tungumálalínum.

Ég leyfi mér að vara eindregið við þeim skýringum líka.

Vissulega er ákveðin togstreita milli svæða í Úkraínu.

En ástæðan fyrir blóðbaðinu nú hefur ekkert með þá togstreitu að gera.

Í bili að minnsta kosti er ekki hætta á neinni „borgarastyrjöld“ milli annars vegar úkraínskra og hins vegar rússneskra þegna.

Blóðbaðið nú hefur nefnilega ekkert að gera með andúð alþýðufólks hvert á öðru.

Það sem þarna hefur gerst er að fólkið er orðið þreytt á spillingu og mannréttindabrotum úkraínsku stjórnarinnar.

Og stjórnin bregst við með enn meiri mannréttindabrotum og síðan manndrápum.

Sjálfsagt eru í hópi mótmælendanna allskonar ófélegir fuglar eins og alltaf safnast saman þar sem verða læti. Og gera illt verra.

En það er ekki ástæðan fyrir upphafi þessa blóðbaðs.

Ástæðan fyrir því er þessi:

Ofbeldi ríkisstjórnar sem ekki vill fara frá kjötkötlum sínum.

Kannski tekst ríkisstjórninni að lokum að telja fólki trú um að skipting þess eftir aldagömlum þjóðernis- og tungumálalínum sé einhvers konar rót að þessum átökum.

Það tókst valdagírugum morðhundum Júgóslavíuríkjanna sorglega vel á sínum tíma.

En ég ítreka – það var ekki fólkið sjálft sem fór að ráðast hvert að öðru í Kænugarði.

Það var ríkisstjórnin sem réðist á fólkið.

Punktur.

Og við eigum ekki að reyna að „skilja“ framferði kúgunarstjórnar eins og valdaklíku Janukovych með því að blanda í það einhverri gamalli sögulegri togstreitu.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!