Fimmtudagur 05.06.2014 - 18:27 - FB ummæli ()

Niðurlæging

Frambjóðendur Framsóknarflokksins í Reykjavík gefa útlendingaandúð undir fótinn í kosningabaráttunni.

Þetta vekur mikla hneykslun – meðal annars innan Framsóknarflokksins.

Ráðherrarnir þegja hins vegar þunnu hljóði – nema reyndar Gunnar Bragi utanríkisráðherra sem þó hverfur fljótlega aftur.

Eygló Harðardóttir, sem við bundum sum miklar vonir við, hún gufar upp.

Rasistar landsins fagna hins vegar ógurlega og flýta sér til liðs við Framsóknarflokkinn.

Og svo kemur Sigmundur Davíð á Bylgjuna.

Ekki til að svara fyrir orð frambjóðendanna í Reykjavík, og af hverju þeir voru að fiska í þessum ófagra sjó, heldur til að svara þeim miklu árásum sem Framsóknarflokkurinn hafi orðið fyrir!

Það vottar ekki fyrir því að hann reyni að skilja hvað var verið að gagnrýna.

Öll gagnrýnin er bara lágkúruleg og fáránleg árás, segir hann.

Ég hvet sem flesta til að hlusta á þetta hörmungarviðtal.

Ég held ég hafi aldrei vitað stjórnmálamann jafn víðs fjarri raunveruleikanum.

Sigmundur Davíð heldur því fram að öll gagnrýni – alveg öll – sé til komin vegna þess að menn hafi ekki getað sætt sig við niðurstöðu kosninganna síðustu, og að hann sé orðinn forsætisráðherra.

Held hann ætti að ræða það við Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, og við stjórn samtaka ungra framsóknarmanna (þótt þeir hafi reyndar látið kveða sig alltof fljótt í kútinn).

Og við ýmsa presta, heimspekinga, stjórnmálafræðinga og aðra sem hafa gagnrýnt framferði Framsóknarflokksins mjög.

Hvað sjálfan mig snertir … mestalla mína ævi hafa þeir ráðið ríkjum í stjórnarráðinu sem ég kaus ekki.

Og er oft ekkert mjög ánægður með.

En ég er þrautþjálfaður í að bíta í það súra epli, enda er það lýðræðisins gangur.

En ég skal vissulega viðurkenna að ég á mjög erfitt með að fallast á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé nú helsti pótintáti landsins.

Ef þið hlustið á þetta viðtal, þá heyriði hvers vegna.

Mér finnst niðurlægjandi fyrir okkur öll að hann sitji í stjórnarráðinu, ég get ekki neitað því.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!