Miðvikudagur 24.09.2014 - 15:02 - FB ummæli ()

Alltaf eitthvað á ská

Ég hef verið alltof latur við að sækja hinar ágætu RIFF hátíðir undanfarin ár.

Núna skal verða breyting á, enda eru á hátíðinni margar fínar myndir – en þar af tvær sem ég hef beðið lengi eftir að sjá.

Annars vegar er það sænska myndin eftir Roy Andersson sem heitir því skemmtilega nafni Dúfa sem sat á grein og hugleiddi tilveruna.

Síðustu tvær myndir Anderssons eru báðar tvær óbrotgjörn meistaraverk – Söngvar af annarri hæð og Þið lifendur.

Það er erfitt að lýsa þessum myndum – þær eru kannski skyldastar smásagnasöfnum, þar sem allar sögurnar tengjast á endanum – en ekki alltaf á augljósan hátt.

Þær virðast lýsa hversdagslegu fólki við afar hversdagslega iðju (svona oftast) en svo reynist alltaf eitthvað vera á ská.

Í þeim býr sprúðlandi húmor, en líka ógn undir niðri.

Lokasenan í Okkur lifendum var alveg mögnuð í allri sinni hægð og einfaldleika.

Ef þessi nýja mynd sver sig í ætt við hinar tvær fyrri (sem ég held að hún geri) þá skulu bíógestir ekki búast við einföldum karakterum sem fylgja einföldum söguþræði.

En vonandi er hún jafn eftirminnileg og þær tvær.

Ég hlakka alla vega til eins og krakki að bíða eftir jólunum.

Hin myndin sem ég bíð eftir er Mr.Turner, mynd eftir enska leikstjórann Mike Leigh. Bestu myndir hans eru gjarnan nöturlegar svipmyndir úr hversdagslífinu en hann á fleiri strengi í hörpu sinni – og þessi mynd fjallar um síðustu 25 æviár enska málarans Turners sem uppi var um aldamótin 1800.

Hann var stórmerkilegur brautryðjandi í málaralist – eiginlega fyrirrennari expressjónista.

Ég kolféll fyrir Turner þegar ég var strákur og sá í fyrsta sinn mynd af málverkinu The Fighting Temeraire.

Mér finnst hún ennþá frábær – í sinni hátíðlegu angurværð, en hún er þó langt í frá besta mynd Turners.

Það verður gaman að sjá Leigh fjalla um þetta séní – ekki síst af því sá ágæti leikari Timothy Spall leikur Turner.

Þetta eru sem sagt þær tvær myndir á RIFF sem ég bíð spenntastur eftir – en þær eru margar athyglisverðar.

Kvikmyndahátíðir eins og RIFF eru tækifæri okkar til að sporna gegn því að öll okkar menningarneysla komi bara úr einni átt.

Hér er The Fighting Temeraire. Myndin lýsir því þegar gamalt stríðsskip, sem hafði til dæmis gegnt miklu hlutverk í orrustunni við Trafalgar, þegar Bretar sigruðu Frakka og Spánverja, var dregið af nýtísku gufubát í síðustu siglingu; það átti nú að rífa skipið.

Screen shot 2014-09-24 at 3.00.41 PM

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!