Mánudagur 02.03.2015 - 15:26 - FB ummæli ()

Hún á ekki að vera lögreglustjóri

Fanney Birna Jónsdóttir er að stimpla sig inn sem skörulegur og afdráttarlaus leiðarahöfundur Fréttablaðsins.

Leiðararnir hennar eru oftar en ekki fínir – og þetta segi ég þó ég sé ekki nærri alltaf sammála þeim.

Í morgun birtist í blaðinu fínn leiðari úr hennar penna – og reyndar einn þeirra sem ég er algjörlega sammála.

Hún er að skrifa um Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu – hérna er leiðarinn á síðu Vísis.

Hann er alveg þess virði að lesa hann í heild; ég mæli með því.

En þetta eru lokaorðin:

„Sigríður var því – líklegast óafvitandi – þátttakandi í atburðarás sem leiddi til grófrar misbeitingar ríkisvaldsins á aðilum sem eru í einni veikustu stöðu sem fyrirfinnst hér á landi. Hún var vissulega sett í afar erfiða stöðu og þrátt fyrir að henni sé vorkunn vegna þess verður það að teljast sjálfstætt áhyggjuefni að hún telji sig ekki hafa breytt rangt á nokkurn hátt.

Einstrengingslegar hártoganir hennar um meint lögbrot breyta því ekki að henni var alltaf óheimilt að afhenda gögnin. Það eitt og sér ætti að vera nóg til að einn æðsti yfirmaður lögreglunnar myndi viðurkenna mistökin og biðjast afsökunar. Og á meðan lögreglustjórinn sýnir hvorki vott af iðrun né raunsæi gagnvart raunverulegri stöðu málsins hljóta að vakna upp spurningar um hvort honum sé treystandi fyrir því valdi sem í embættinu felst.“

Þetta er nefnilega hárrétt hjá Fanneyju Birnu.

Lögreglustjóri, sem fer annars vegar að hártoga hvort hún hafi nákvæmlega brotið einhvern bókstaf laganna, þótt það liggi í raun ljóst fyrir (og þar að auki algjörlega hundrað prósent ljóst að hún þverbraut gegn anda þeirra), og sem hins vegar segist ekki hafa vitað af einhverjum reglum héraðlútandi – sá lögreglustjóri er ekki starfi sínu vaxinn.

Viðtalið alræmda, þar sem Sigríður Björk kom fram í fullum skrúða embættis síns (sjáið það hér) og sá ástæðu til að draga í efa framburð konu í kynferðisbrotamáli, það hefði átt að færa okkur sanninn um það.

Annað alræmt viðtal, þar sem Sigríður Björk brást við algjörlega sjálfsögðum spurningum fréttamanns RÚV með voli og víli (það er hérna), það var frekari staðfesting þess.

Nú hafa bæði dómgreindarleysi Sigríðar Bjarkar andspænis beiðni Gísla Freys um persónuupplýsingar um hælisleitanda (sjá hérna) og ekki síður dómgreindarlaus og hrokafull (já, hrokafull!) viðbrögð hennar við áliti Persónuverndar um það (sjá hérna), orðið sem púnkturinn yfir i-ið.

Sigríður Björk er áreiðanlega hin mætasta manneskja og getur alveg efunarlaust komið víða að gagni í samfélaginu.

En hún hefur ekki dómgreind til að vera lögreglustjóri.

Svoleiðis er nú það.

Hvað svo sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!