Sunnudagur 13.3.2011 - 14:05 - FB ummæli ()

Krónan í kennitöluflakk?

Ekki sá ég Silfur Egils áðan. Yfirleitt horfi ég á það þegar það er endurtekið á kvöldin.

En mér skilst að Lilja Mósesdóttir hafi þar lagt til, til að leysa hin íslensku efnahagsvandamál, að skipta um nafn á krónunni!

Fjárfestar hefðu svo lélegt minni, að fyrr en varði myndu þeir ekki fatta að „íslenska evran“ væri bara gamla „góða“ íslenska krónan.

Þetta er eitthvað það furðulegasta sem ég hef heyrt.

Einmitt núna, þegar við ættum öll að sameinast um að reyna að sporna gegn kennitöluflakki – þá stingur hagfræðingurinn upp á að skipta um kennitölu á íslensku krónunni!

Jahérna hér, eins og amma Elísabet mundi sagt hafa.

Það væri nú aldeilis traustvekjandi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.3.2011 - 14:04 - FB ummæli ()

130 milljónir handa mávunum að skíta á!

Ég horfði eiginlega alveg orðlaus á þessa frétt í sjónvarpinu í gær.

Núna er verið að eyða 130 milljónir í skrautið á þakið á tónlistarhúsinu við höfnina.

Tónlistarhúsið sem var skírt því pempíulega nafni Harpa, en mér finnst ennþá að eigi að heita Hruni.

Því þótt þarna verði vonandi framin hin fegursta tónlist í framtíðinni, þá verður ekki framhjá því horft að húsið er og verður alltaf tákn fyrir góðærisgeggjunina – og hrunið.

Hruni er auk þess bara alveg ágætt nafn á íslenskt tónlistarhús, því í Hruna var jú haldinn mikill hljómleikur hér í gamla daga – og villtur stiginn dans.

Svona rétt eins og hér var stiginn sannkallaður hrunadans í „góðærinu“.

En nú er sem sagt verið að punta aðeins upp á þakið á Hörpu/Hruna.

Hluti þess þaks verður sýnilegur fyrir þá sem gera sér ferð upp á sjöundu hæð – ekki veit ég hvað þeir verða margir.

En stór hluti þaksins verður aldrei sýnilegur nokkrum einasta kjafti – nema fuglinum fljúgandi.

Og svo þeim sem þjóta yfir í flugvélum.

Ég ber djúpa virðingu fyrir þeim sem ferðast um í flugvélum.

En mér finnst þó alveg ástæðulaust að spandera 130 milljónum fyrir þá andartaksánægju sem þeir geta haft af sexstrendingunum á þaki Hruna meðan þeir skjótast inn til lendingar á Vatnsmýrarvelli.

Ef maður vogar sér að gagnrýna Hruna, þá rísa alltaf upp reiðir tónlistar- og menningarfrömuðir og saka mann um lágkúru og smásálarskap.

Hvort ég skilji ekki hvað það sé nauðsynlegt að eiga tónlistarhús?

Jú, ég skil það ósköp vel. Og ég var meira að segja hlynntur því að húsið yrði klárað, en ekki látið standa hálfkarað þarna við höfnina, sem tákn um innihaldslaust „góðærið“ eins og sumir vildu.

En mér finnst aftur á móti að þeir sem sjá um byggingu og rekstur þessa húss eigi að sýna gagnrýnisröddum virðingu, ekki yfirlæti og dónaskap – en á því hefur stundum borið.

Það erum við, óbreyttur almúgi þessa lands, sem þurfum að leggja milljarða og aftur milljarða í þetta punthús Björgólfs Guðmundssonar og við höfum fullan rétt á að hrista hausinn yfir peningunum sem í þetta fara.

Þegar verið er að skera niður út um mest allt samfélagið, og bitnar helst á þeim sem síst skyldi.

Einmitt þá er verið að henda 130 milljónum beinlínis upp í loft, í fallega þakskreytingu handa mávunum að skíta á.

Og það hvarflaði ekki einu sinni að þeim að hætta við þetta!

Alminlegir menn!!

Ég ítreka að ég er hlynntur því að húsið verði klárað og gert svo vel úr garði sem kostur og ástæða er til.

En getur nú einhver upplýst mig um það hvernig hægt er að réttlæta 130 milljónir í ÞETTA?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.3.2011 - 14:54 - FB ummæli ()

Hálf stjórnarskrá

Í dag er 10. mars. Og það rann skyndilega upp fyrir mér að ef kosningin til stjórnlagaþingsins hefði ekki verið úrskurðuð ógild af hæstaréttardómurunum sex, þá gæti vel verið að við værum nú að verða um það bil hálfnuð með að fá nýja stjórnarskrá.

Því stjórnlagaþingið átti jú að taka til starfa 15. febrúar síðastliðinn, og starfa í tvo mánuði. Fram í miðjan apríl.

Þó vissulega hafi verið möguleiki á að þingið starfaði í tvo mánuði til viðbótar. Og það er ekki óhugsandi að það hefði þurft að nota þann tíma.

En samt … starfinu væri hvað sem því líður þegar farið að miða býsna vel áleiðis, það þori ég að veðja. Þetta var vinnusamur hópur, sem kosinn hafði verið á þingið, það get ég vottað!

Og allir voru staðráðnir í að vinna bæði fljótt – og vel.

En hæstaréttardómararnir komu sem sagt í veg fyrir það, og nú vitum nú svo sem ekkert hvenær við fáum hina langþráðu nýju stjórnarskrá.

Kannski sumir séu voða fegnir að hin ægilega kosning skuli hafa verið úrskurðuð ógild?

En ég verð að viðurkenna að ég sé heilmikið eftir því starfi sem nú gæti verið búið að vinna – og hefði verið unnið, ef hæstaréttardómararnir hefðu ekki úrskurðað á þann veg sem þeir gerðu.

Tæplega hálf stjórnarskrá – það hefði verið gaman!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.2.2011 - 14:44 - FB ummæli ()

Halló heimur!

Velkomin á blog.eyjan.is. Þetta er fyrsta færslan.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!