Fimmtudagur 31.03.2011 - 21:36 - FB ummæli ()

„Smooth operator“

Í sambandi við stóra stóra risastóra ríkisborgaréttarmálið, þá er það rétt hjá Róberti Marshall að við þurfum að ræða málið tiltölulega æsingalaust og kurteislega.

Ég vona að ég hafi gert það fyrr í dag, þó ég hafi ekki getað stillt mig um að gera svolítið grín að öllu saman.

Og það verður að viðurkennast að David Lesperance í Kastljósinu í kvöld, hann var töluvert meira sannfærandi sölumaður þessarar hugmyndar heldur en Sturla Sighvatsson var í gærkvöldi.

Greinilega ansi smooth operator.

Team Iceland og allt!!!

En hann fékk furðu auðveldar spurningar, það verður að segjast.

Eða öllu heldur: Ekki réttu spurningarnar.

Þegar hann fór til dæmis með fallega sölupitsið sitt um að kanadísku og bandarísku auðkýfingarnir vildu setjast að á Íslandi meðal annars af því hér væri ekki hætta á að börnin þeirra yrðu kölluð í herinn, af hverju rak Brynja Þorgeirsdóttir það ekki oní hann aftur?

Í Kanada er auðvitað engin herskylda, og herskylda var í reynd lögð niður í Bandaríkjunum árið 1973 – þó hún sé að einhverju leyti við lýði enn formlega.

Segjum að Brynja hafi ekki vitað þetta. Það er alveg fyrirgefanlegt.

En hún átti þó að vita að þó það sé herskylda í einhverju landi, þá þurfa börn auðmanna aldrei hafa áhyggjur af því að vera kölluð nauðug í herinn.

ALDREI.

Svo einfalt er það, og þetta eiga allir að vita.

Þetta var kannski ekki aðalatriði í því sem Lesperance var að segja, en ef hann fór rangt með þetta smáatriði, var þá eitthvað meira að marka hitt sem hann sagði?

Og sömuleiðis:

Ef það er rétt að þessir auðkýfingar vilji koma hingað af því þeir urðu svona dæmalaust skotnir í Inspired by Iceland-herferðinni, af hverju koma þeir þá ekki bara og setjast hér að í rólegheitum?

Af hverju þurfa þeir ríkisborgararétt áður en þeir svo mikið sem reka hér niður eina löpp?

Og að auðkýfingarnir sanki að sér ríkisborgararétti hér og þar bara svona af heimspekilegum og hugmyndafræðilegum ástæðum – fyrirgefiði, en átti maður að taka það hátíðlega?

Nú á maður vissulega ekki að draga of mikinn lærdóm af sjónvarpinu.

En ef einhver á mörg vegabréf í sjónvarpinu, þá er hann undantekningarlítið leigumorðingi.

Auðvitað er þetta fólk á snærum Lesperance ekki leigumorðingjar.

En það hefði samt átt að spyrja hann ögn hraustlegar út í þessa vægast sagt einkennilegu fullyrðingu.

Það er rétt að taka fram í prinsipinu er auðvitað ekkert rangt við að útlenskur bissnissmaður fái íslenskan ríkisborgararétt.

Frekar en maður af hvaða stétt annarri sem vera skal.

Og ég ber virðingu fyrir því starfi Róberts Marshalls að hafa leitast við að veita þennan borgararétt óháð efnahag eða veraldlegri stöðu.

En það sem er skrýtið … það er eiginlega hvað þetta er allt skrýtið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!