Föstudagur 01.04.2011 - 11:52 - FB ummæli ()

Ögmundur!

Ég hef alltaf verið dyggur stuðningsmaður Ögmundar Jónassonar alþingismanns.

Ég er reyndar ekki nærri alltaf sammála öllum hans skoðunum, og mér finnst hreint ekki að hann eigi alltaf að fá sitt fram á öllum sviðum.

En ég hef ævinlega borið mikla virðingu fyrir honum sem hugsjónamanni, og mér hefur þótt sem sjónarmið hans eigi alltaf fullan rétt á að fá að heyrast.

Mér þótti Ögmundur til dæmis alltaf með nauðsynlegustu þingmönnum.

Og mér fannst það vissulega bráðskemmtileg tilhugsun þegar hann varð dómsmálaráðherra.

Það hafði þá verið til einhvers unnið í búsáhaldabyltingunni fyrst hún gat endað með að þessi óþekki og óstýriláti vinstrimaður var allt í einu settur yfir lögregluna og dómskerfið!

Og ég trúi því og treysti að Ögmundur muni verða sá nýi sópur sem getur feykt burt skúminu úr ýmsum kimum þar á bæ.

Þó hann beri nú reyndar titilinn „innanríkisráðherra“ sem mér finnst persónulega heldur skuggalegur.

En látum svo vera.

Ég treysti Ögmundi samt til góðra verka.

Hann hlýtur til dæmis að verða fyrsti dómsmálaráðherrann/innanríkisráðherrann sem treystir sér til að kveða á um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Því hefur enginn viljað hreyfa.

Ég veit reyndar til þess að Ragna Árnadóttir var byrjuð að hugsa um form slíkrar endurupptöku þessara sorglegu mála, en annaðhvort rak hún sig á of marga veggi eða hafði hreinlega ekki tíma til að ljúka málinu.

Hvort heldur var, þá stendur það nú upp á Ögmund að hefja þann feril sem getur létt þeirri gömlu martröð af þjóðinni.

Og hann hlýtur að storma í málið – bara von bráðar!

Ég held að það sé engan veginn eins flókið mál að taka þessi mál upp, eins og margir virðast halda.

„Vilji er allt sem þarf,“ er gamalt, lúið og misbrúkað orðalag frá Einari Ben, oftast notað þegar vilji er einmitt EKKI allt sem þarf, en í þetta sinn á það við.

Og þangað til Geirfinnsmál fara af stað, þá getur Ögmundur dundað sér við að taka til í Útlendingastofnun.

„Dundað sér“ er reyndar ekki rétt orðalag.

Hann þarf að flýta sér.

Lesið þessa frétt hér – og grátið.

Ung stúlka frá Nepal sem vill fá að búa á Íslandi.

Verði hún send heim til Nepal bíður hennar hjónaband með einhverjum karlfauski.

Og þá eru íslenskir embættismenn að rýna í það hvort bróðir hennar – sem er auðvitað undir þrýstingi um að fá hana heim – noti orðið „vinsamlegast“ eða ekki!

Jafnvel þó svo þessi stúlka ætti ekki á neinu illu von heima hjá sér – þá sæi ég ekkert athugavert við að hún fái dvalarleyfi.

Okkur ætti bara að vera sómi að því að hún skuli vilja heiðra okkur með nærveru sinni.

Já, ég meina það!!

En þessi „túlkunarfræði“ Útlendingastofnunar eru alla vega gjörsamlega út í hött.

Eins og ég ætla rétt að vona að Ögmundur Jónasson átti sig á.

Það hlýtur hann að gera um leið, ef hann er enn sá sami Ögmundur og við höfum þekkt og lært að virða gegnum tíðina.

Ég trúi því sem sé og treysti að Ögmundur verði búinn að redda málinu áður en klukkan glymur.

Og finni svo leið til að innleiða betri siði á Útlendingastofnun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!