Mánudagur 04.04.2011 - 10:22 - FB ummæli ()

Verðum að trappa okkur niður

Ég er alveg dolfallinn yfir útvarpsauglýsingu Egils Ólafssonar um börnin sem strita munu í hinum bresku námum ef við samþykkjum Icesave-samningana.

Auðvitað segir hann það ekki berum orðum – en gefur í skyn að örlög barnanna okkar í framtíðinni verði áþekk hörmulegu hlutskipti þeirra barna sem seld voru úr landi á 15. öld, ef við segjum „já“.

Ég er alveg dolfallinn vegna þess að ég hef þekkt Egil Ólafsson í 30 ár og mér hefur aldrei virst hann öfgamaður á neinu sviði.

Þvert á móti.

Hann hefur komið mér fyrir sjónir sem maður sem leggur sig fram um að íhuga báðar hliðar mála, sérlega æsingalaust.

Og ég veit að hann er fróður um sögu lands og þjóðar.

Þess vegna kemur mér svo á óvart að hann skuli tromma upp með áróður sem er svo fjarri öllum sanni.

Því auðvitað er þessi samlíking út í hött.

Langlíklegast er náttúrlega að við munum varla eða jafnvel alls ekki taka eftir greiðslubyrði Icesave-samninganna.

Og að jafna þessu við barnaþrældóm … nei takk!

Svona áróður gerir engum gagn held ég.

Ég veit reyndar ekki til að það hafi verið talað um að íslensk börn hafi stritað í námum á Bretlandseyjum á 15. öld.

Námugröftur var þá mjög takmarkaður miðað við það sem síðar varð, þegar iðnbyltingin hófst og kolavinnslan og málmvinnsla alls konar fór á fullt.

Ég hef Egil grunaðan um að hafa í texta auglýsingarinnar ruglað saman börnum, sem vissulega voru flutt til Englands á 15. öld, og svo íslenskum hestum sem fluttir voru til Bretlandseyja á 19. öld og strituðu svo sannarlega í breskum námagöngum.

Og áttu virkilega ömurlega ævi, blessuð dýrin.

Um það orti Jóhannes úr Kötlum hið magnaða kvæði sitt, Stjörnufákinn.

En þó – ég skal ekki hengja mig upp á hvergi sé í annálum frá 15. öld minnst á námur í tengslum við vinnu barna frá Íslandi. Því ætla ég ekki að fullyrða að þetta sé rangt hjá Agli.

En hitt er rétt að börn fóru héðan til Englands, töluvert fram á 16. öld reyndar.

Helgi Þorláksson sagnfræðingur hefur rannsakað þetta manna mest.

Heimildir eru reyndar fáorðar um þetta en af því sem vitað er, þá má ætla að einhver þó nokkur fjöldi barna hafi verið fluttur til Englands.

Enskir kaupmenn munu oft hafa borgað eitthvert lítilræði fyrir þau, en í sumum tilfellum voru börnin gefin.

Það er algjör óþarfi að álykta að þetta hafi stafað af sérlegri mannvonsku Íslendinga.

Í sumum tilfellum leit fólk áreiðanlega svo á að það væri þvert á móti að bjarga börnum sínum frá örbirgð.

Auk þess var mórallinn í samfélögum Vesturlanda þá sá að það væri börnum beinlínis hollt að alast upp meðal vandalausra.

Íslendingar drógu dám af því.

Í útlöndum voru Íslendingar raunar frægir fyrir að gefa útlendingum börn sín, en selja hunda sína.

Þess munu líka dæmi að börn og ungmenni hafi stokkið sjálfviljug úr landi, til að forðast fátækt og illt atlæti hérlendis.

Því hér var sannarlega ekkert sæluríki.

En vinnuaflsskortur var þá á Englandi og börnunum mun flestum hafa verið komið í læri hjá iðnaðarmönnum, eins og bökurum, smiðum og súturum. Nánast ekkert er vitað um örlög þeirra, en þó er vitað um einn strák sem varð ríkur kaupmaður í Bristol, svo þau hafa að minnsta kosti átt möguleika á að komast til almennilegs lífs.

Ég vona að menn sjái að þessi saga á ekkert sameiginlegt með greiðslubyrði okkar vegna Icesave-samninganna.

Að því sé haldið fram sýnir fyrst og fremst hvað við erum komin út á hálan ís í deilum okkar vegna þessa máls.

Og við verðum að fara að trappa okkur niður.

Icesave-málið er orðið eins og skrímsli Frankensteins.

Við höfum byggt það úr hruninu, og sjáum nú ekkert annað en það vafrandi fram og til baka um samfélagið – brjótandi og bramlandi og skjótandi okkur skelk í bringu árum saman.

Svo jafnvel öfgalausasta fólk hleypur út undan sér.

Þeim mun meiri ástæða til að losna við það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!