Þriðjudagur 05.04.2011 - 07:37 - FB ummæli ()

Bravó!

Fyrir örfáum dögum reis hneykslunar- og reiðialda í samfélaginu.

Vísa átti ungri stúlku frá Nepal úr landi.

Þótt hún vildi alls ekki fara og gæti átt margvíslega nauðung yfir höfði sér í heimalandinu.

Mitt framlag var að skrifa pistil hér á Eyjuna, þar sem ég hvatti Ögmund Jónasson innanríkisráðherra eindregið til að beita sér fyrir því að Priyanka Thapa fengi að vera hér um kyrrt.

Hann yrði að fá útlendingastofnun til að snúa við blaðinu, og í framhaldi af því endurskoða starfshætti þeirrar stofnunar.

Margir fleiri hvöttu hann til hins sama.

Ögmundur hefur brugðist einmitt þannig við.

Priyanka hefur fengið dvalarleyfi, og farið verður yfir starfsemi útlendingastofnunar.

Þar er löngu tímabært.

Útlendingastofnun hefur verið alltof lengi föst í forneskjulegu hugarfari – svo líkja mætti við bókstafstrú dyravarðar, sem telur að hlutverk sitt sé að „verja dyrnar“ en ekki opna þær upp á gátt fyrir velkomnum gestum.

Viðbrögð Ögmundar voru fumlaus og ákveðin, einmitt eins og maður hafði vonast til.

Hann fór ekkert að malda í móinn eða teygja lopann – heldur viðurkennir meira að segja í Fréttablaðinu í morgun óvenju afdráttarlaust að pottur sé augljóslega brotinn hjá útlendingastofnun.

Það er vitaskuld ekki af því þar vinni vont fólk, heldur þarf bara nýja hugsun hjá stofnuninni.

Og það er mjög gott að nú verði blaðinu snúið við – alltof mörg sorgleg vandræðamál hafa sprottið upp hjá stofnuninni á síðustu árum, sem sýna að starfshættir þar eru – þegar verst lætur – engan veginn í takt við það sem sanngjarnt er og eðlilegt og réttlátt.

Og ég vil leyfa mér að hrósa Ögmundi fyrir viðbrögðin. Bravó!

Og þá er það bara Geirfinnsmálið …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!