Mánudagur 2.7.2012 - 08:52 - 3 ummæli

Talandi forseti evran og slæmir vegir!

Meginrökin fyrir upptöku evru eru þau að íslenska hagkerfið sé of lítið til þess að standa undir eigin gjaldmiðli.  Myntin sé dæmd til að sveiflast og þeir sem ,,taka sér stöðu“ gegn krónunni græði óheyrilega á okkur hinum.  Bretar eiga ekki við sama vandmál að etja með pundið en Danir og Svíar hafa fundið fyrir smæð gjaldmiðla sinna en halda sér þó við þá enda hagkerfi þeirra risastórt í samanburði við það íslenska.

Ég sé ekki að breiddargráðurökin sem forseti Íslands notar vegi þungt.  Íslendingar gætu alllt eins og Finnar hagnast á því að taka upp evru og við Ólafur báðir vitum að aldrei hefur verið hægt að skipuleggja fjárhagslega framtíð sína með krónunni og hún hefur í áranna rás gert suma fátæka og aðra ríka.

Annars kann ég vel við talandi forseta.  Sem betur fer hefur margt breyst síðan Halldór Blöndal skammaði Ólaf með offorsi fyrir það að sá síðarnefndi vogaði sér að fárast yfir slæmum vegum á Vestfjörðum. 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.7.2012 - 10:18 - 3 ummæli

Sigur Ólafs gæti styrkt stjórn Jafnaðarmanna!

Ég hef nokkrum sinnum bent á að  Ólafur Ragnar yrði óviðráðanlegur þegar helstu keppinautar hans væru sestir í helgan.  Ólafur orðinn einn eftir með krökkunum. Þetta kom á daginn og mun sannast enn betur á næstu árum.  Hann ber einfaldlega höfuð og herðar yfir aðra þá sem skipta sér af þjóðmálum.  Ég hef einnig bent á að sigur Ólafs yrði kærkominn fyrir vinstri menn og hef styrkst í þeirri skoðun.  Nú er fólk óbeint búið að lýsa yfir andhrifningu á ríkisstjórninni og ESB og getur snúið sér að því að endurkjósa ríkisstjórn Jafnaðarmanna sem augljóslega er orðin ein besta ríkisstjórn lýðveldistímans. Nú mun ,,hræddu“ fólki finnasr það óhætt. það er búið að kjósa sér öryggisventil á Bessastaði.  Kosning Þóru hefði haft hægri áhrif á næstu þingkosningar á sama hátt og sigur Ólafs mun hafa vinstri áhrif að ári.  Þetta eru þekkt áhrif.

Framtíðin er því björt fyrir Jafnaðarmenn en hægri menn hafa unnið sinn sigur og verða vænlega utan stjórnar næstu árin.

Annars óska ég Ólafi til hamingju með sigurinn sem var glæsilegur hvernig sem á var litið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.6.2012 - 09:35 - 1 ummæli

Reykjadalur – dásemd í alfaraleið-

Fór í fyrsta sinn í Reykjadal í Ölfusi upp af Hveragerði í fyrradag.  Skokkaði léttklæddur alveg inn í botn þar sem fólk var að baða sig í heitum læknum. Hvílík dýrðarinnar dásemd þetta er.  Þessi dalur á Hengissvæðinu sem spennir sig frá Hveragerðisbotnum og upp í miðja Hellisheiði jafnast á við það fegursta og sérkennilegasta  og heitasta í íslenskri náttúru hvar sem borið er niður.  En Reykjadalur er skýrt dæmi um dásemd sem gæti drabbast niður vegna átroðnings og hann er þegar farinn að láta á sjá. Áður var þessi dýrð í vitund fárra.  Sem betur fer vita nú fleirri af honum en áður þar á meðal ferðaþjónustufyrirtæki en þarna er komið skýrt dæmi um það að við verðum að vinna betur á ferðamannanáttúruverndarsviðinu.  Með einhverjum hætti þarf að hafa hemil á þeim fjölda sem um Reykjadal fara.  Það þarf að styrkja viðkvæma lækjarbakkana þar sem fólk baðar sig og lagfæra göngustíga án þess að spilla um of tilfinningunni um að þetta sé lítt snortið svæði. Ég reikna með að ferðamálayfirvöld og Sveitarfélagið Ölfus hafi legið yfir úrbótatillögum.  Annað væri trassaskapur.

Að mínum dómi ætti að byrja á því að gefa fólki kost á að kaupa aðgangskort sem fæli í sér tryggingu fyrir ferðamanninnn ásamt viðurkenningu á því að hafa farið á þetta svæði og styrkt með kaupunum viðhald svæðisins og eftirlit með því.  Að mínum dómi myndu allmargir etv. flestir ferðamenn kaupa sér svona kort sem fæli í sér samstarf við heimamenn og ferðamálayfirvöld.  Þeir sem hlypu dalinn oft myndu aðvitað bara kaupa kort af og til. Hvað sem gert verður þarf að huga að þessum málum fyrr en seinna áður en óbætanlegur skaði verður á náttúrufegurð dalsins.

Höfundur er leiðsögumaður.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.6.2012 - 08:57 - 6 ummæli

Vinstrivaðlaheiðargöng!

Þegar grannt er skoðað sést að þetta eru vinstrivaðlaheiðargöng. Helstu forystumenn hægri manna eru á móti. Þetta er rökrétt. Vinstri menn eru viljugri en hægri menn að endurdreifa fjármagni í samfélaginu. Taka frá þeim sem eiga peninga sem fara þá annað en í munað þeirra. Í skattfrjálsu samfélagi frjálshyggjunnar yrðu engin göng grafin nema fyrir einkafjármagn.  Út frá eigingjörnum forsendum ættu landsbyggðarmenn því að elska vinstri flokka.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.6.2012 - 21:34 - 1 ummæli

Góður bolti frá brennandi ríkjum!

Magnað að fylgjast með Evrópukeppninni í fótbolta.  Merkilegt annars hvað þau geta þessi lið sem flest hver koma frá löndum sem hafa gefið sjálfstæði sitt upp á bátinn og glatað auðlindum sínum svo vitnað sé til þroskaðrar íslenskrar Evrópuumræðu.  Ég dáist að Frökkum en þó sérstaklega Þjóðverjum en leikmenn þessara liða koma úr þrælakistum nútímans samkvæmt  æðsta spekingnum.  Enga brunalykt hef ég fundið en það er bara af því að ég horfi á leikina í sjónvarpi en eins og kunnugt er brennur Evrópa stafnanna á milli  að sögn lífsreyndra landa minna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.6.2012 - 11:49 - 11 ummæli

Að ala á ótta við Evrópu!

Í öllum aðildarríkjum ESB hafa sérhagsmunir hopað fyrir almannahagsmunum enda er almenningur í nær öllum ef ekki öllum ríkjum ánægður með þátttöku lands síns.   Óhætt er að segja að mest öll sú löggjöf sem hefur styrkt almannahagsmuni í Evrópu hefur átt rætur sínar í fjölþjóðlegu starfi.  Þetta gildir líka um Ísland þar sem allar umbætur í vinnurétti og neytendarétti hafa komið í gegnum Evrópusamstarf Íslendinga.  Miklar umbætur í mannréttindum og menntamálum höfum við sótt til Evrópuráðsins. Nú síðast eru sérhagsmunir brotnir á bak aftur og íslensk farsímafyrirtæki skylduð til að lækka farsímagjöld um helming þegar talað er milli landa.  Allt ber að sama brunni.  Íslendingum hefur alltaf vegnað best í sem mestu samstarfi og samvinnu við nágranna sína.  Er þetta ekki óumdeilt?  Hvers vegna ala sumir á ótta við Evrópusamstarf með þvílíkum ofsa að engu lagi er líkt?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.6.2012 - 10:54 - Lokað fyrir ummæli

Af vettvangi ECRI: Nýnasistar í Úkraínu !

Undirritaður var tvisvar í Úkraínu á árunum 2010 og 2011 fyrir Evrópuráðið (ECRI) og við tókum m.a. saman eftirfarandi uplýsingar og varða Evrópumótið sem á að fara að halda þar og í Póllandi. :

 ,,In the field of sports, and particular football, the authorities have observed that neo-Nazis and other skinhead groups are increasingly present in Ukraine. They deploy Nazi symbols and banners and make Nazi shouts and gestures during football matches, often directed at players or supporters with dark skin. In a review carried out over 18 months, the Football Federation counted 66 such incidents. There is growing awareness of the need to deal with this issue, due tothe Euro 2012 football tournament to be held in Poland and Ukraine and the present fears of visible minorities in Ukraine for their physical safety.”

 Við fengum upplýsingar um bæklingargerð sem einkum væri beint að ungu fólki og handbók fyrir dómarar og aðra slíka en svona í grunninn fannst mér þeir ekki taka þetta nógu alvarlega. Stjórnvöld gerðu lítið úr því að nýnasistahópar hefðu skotið rótum og sögðu þetta vera innflutning frá Rússlandi. Sem er líka rétt. En það er algengara en hitt að stjórnvöld setji kíkinn fyrir blinda augað. En því miður er rasískt ofbeldi töluvert.  Árið 2010 voru t.d. tveir nígerískir ungir menn sem voru við nám í Kíev drepnir fyrir framan heimavist sína og ásakanir miklar í gangi um að sjúkrabílar og lögregla hefðu komið seint og illa og saksóknarar voru tregir til að ákæra á þeim grundvelli að þarna hefði verið um rasistamorð að ræða.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.6.2012 - 14:32 - Lokað fyrir ummæli

Tröllið í hellismunnanum!

Ég hef ekki ánetjast neinum forsetaframbjóðenda.  Hoppaði ekki á Þóruvagninn og geri það tæpast úr þessu.  Gæti frekar hugsað mér Herdísi sem forseta vegan þekkingar hennar á mannréttindum, stjórnmálafræði, heimspeki og lögfræði. Góð menntun fer þar saman við, að því er virðist ágæta dómgreind og að því er séð verður þokkafullt útlit og ágæta framkomu.  Ég er líka svolítið skotinn í framboði  Ara Trausta.  Þar er minn Kristján Eldjárn, hæglátur, yfirvegaður og vel að sér um margt ekki síst íslenska menningu og íslenska jarðskorpu.  Ásamt sitjandi forseta finnst mér þau tvö koma helst til greina með fullri virðingu fyrir Þóru, Hannesi og Andreu.

Afleiðingin af  endurkjöri  Ólafs yrði auðvitað sú að að einhverju leyti myndi kosningapendúllinn leita miðjunnar með því að sveiflast til vinstri í næstu þingkosningum( frá því sem kannanir gefa til kynna).  Að sama skapi finnst mér margir Samfylkingarvinir mínir brattir að styðja Þóru jafn ákaft og þeir gera  því að kjör hennar myndi verka samsvarandi á kjósendur með öfugum formerkjum.

En því miður er slagurinn búinn.  Bloggarar og álitsgjafar hugsa ekki eins og fólkið í slorinu sem er búið að ákveða að Ólafur sé bestur.  Hann sé tröllið í hópnum og tilvera okkar sé öruggust með hann í hellismunnanum.  Hann verji okkur fyrir hvers kyns óvættum og setjist á óstýriláta hellisbúa. Við hin sem efumst getum samt huggað okkur við það að Bessastaðir eru enn eins og á tímum Jóns Hreggviðssonar svolítil dýflissa og sá sem er þar er um margt bundinn á höndum og fótum þó að Ólafur hafi verið furðu seigur að losa um reimarnar eftir að keppinautum hans hafði verið komið fyrir í sendiráðum eða í Fljótshlíðum eða á blaðsneplum og enginn hefur neitt í hann lengur.

En gaman væri nú ef ,,allri óvissu“ væri eytt innan skamms  og við gætum haft nýjar kosningar milli Herdísar, Þóru og Ara Trausta því að hvert þeirra um sig gæti orðið fyrirmyndarfangi á Bessastöðum.  Það er kominn tími á að gefa föllnum frambjóðendum framhaldslíf en kasta þeim ekki út á fertugt dýpi gleymskunnar eins og siður hefur verið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.5.2012 - 09:55 - Lokað fyrir ummæli

Að draga börn á flótta fyrir dómstóla!

Við Teitur Atlason skrifuðum þessa grein í Fréttablaðið og ég birti hana hér af því að ekki er vanþörf á að agitera fyrir því að okkar góðu eiginleikar endurspeglist í viðmóti okkar gagnvart flóttamönnum í veröldinni og öðrum sem eiga undir högg að sækja.

Kristín Völundardóttir forstjóri Útlendingastofnunar hvetur til umræðu um hælisleitendur í Fréttablaðinu nýverið. Telur hún umræður litlar og umbygging um málaflokkinn samkvæmt því lélegan.  Hún spyr hvað við gerum ef holskeflu hælisleitenda ber á land hér líkt og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum.

Á síðustu áratugum hafa afskaplega fáir leitað hér hælis og mjög fáir þeirra hafa fengið hæli hér sem flóttamenn. Svo rammt hefur kveðið að því síðarnefnda að haft hefur verið í flimtingum.  Má segja að Íslendingar hafi hlíft sér við því að taka sinn skerf af þeim miljónum flóttamanna sem hafa flosnað upp frá heimilum sínum í leit að betra lífi eða á flótta undan morðóðum yfirvöldum heimalands síns. Við höfum óspart nýtt okkur heimild sem orðið hefur til í samstarfi Evrópuþjóða og sent flóttamenn til baka til þess lands sem þeir hafa komið fyrst til í Evrópu.  Flestir flóttamanna koma frá Asíu og Afríku og við höfum nýtt okkur það úr öllu hófi reyndar að frá þessum heimsálfum er lítið um bein flug hingað.

Við höfum samt bjargað mannorði okkar svolítið með því að taka við skipulögðum hópum flóttamanna sem íslensk yfirvöld velja sjálf með aðstoð Rauða Krossins.   Fátt nema gott er um það framtak að segja og okkur til sóma.  Þó má gagnrýna það að velja sér flóttamenn.

Við  myndum svara ótta Kristínar Völundardóttur um offramboð á flóttamönnum þannig að lega landsins gerir það að verkum á á slíku er lítil hætta og ástæðulaust að ala á einhverjum slíkum ótta.  Við eigum hins vegar að vanda okkur miklu betur við möttöku flóttamanna. Sýna þeim fulla virðingu og tillitssemi.  Búa vel um þá, veita þeim lögfræðiþjónustu, flýta afgreiðslutíma og afgreiða mál þeirra eins jákvætt og rétt er að bestu manna yfirsýn. Þar eigum við að taka málin úr því andrúmslofti sem lætur  sig hafa það að draga börn fyrir dómstóla og dæma þau til fangelsisvistar.  

Nú er það rétt hjá Kristínu að umræða er lítil og stjórnmálaflokkar hafa lítt sinni þessum málaflokki.  Ekki vantar hráefnið í stefnu.   Fyrir utan mannréttindasáttmála þá hafa eftirlitsstofnanir á borð við ECRI verið örlátar á ráðleggingar til Íslendinga um hvernig taka skuli af fullri reisn og virðingu á móti flóttamönnum án þess nota bene að látið sé af fullum yfirráðum yfir landamærum.   Ráðamenn ættu að fara eftir þessum ráðleggingum, hækka sig þannig í sessi meðal þjóðanna og í eigin áliti.

Til að byrja með gætum við hætt að draga börn fyrir dómstóla en láta félagsmnálayfirvöld alfarið um þeirra mál.  Í annan stað eiga hvorki embættimenn eða blaðamenn að tala um þessi börn eða unglinga eins og hross þegar kemur að umræðu um greina aldur skilríkjalauss fólks.  Í þriðja lagi ættum við að velja flóttmönnum vistlegri stað, reyna að sjá til þess að þeim bjóðist vinna, börnum þeirra skóli og meðferð mála flýtt og afgreidd með eins mikilli jákvæðni og hægt að bestu manna yfirsýn.

Höfum það að leiðarljósi að enginn velur sér hlutskipti flóttamanns. Sorglegar aðstæður búa að baki hverjum eianast flóttamanni sem leitar hælis.  Fólk hefur flúið heimaland sitt af ótta um líf sitt, flosnað upp frá fjölskyldu og vinum.  Þeir eiga það sameiginlegt að vera að leita að betra lífi. Þeir eru auðvitað mis lagnir í því og fara misgáfulegar leiðir og á því ber okkur að hafa skilning. Og Íslendingar hafa yfirhöfuð á því skilning.  Við viljum gjarnan rétta öðrum hjálparhönd.  Það þarf að endurspeglast í lögum, verklagi og viðmóti þeirra sem sjá um þessi mál fyrir okkur.

 

Baldur er sérfræðingur í ECRI tilnefndur af íslenskum stjórnvöldum.  Teitur er íslenskukennari í Gautaborg.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.5.2012 - 14:20 - Lokað fyrir ummæli

Skyggnst út fyrir skerið- fordómar gegn Roma fólki!

Vanvirtasti hópurinn meðal minnihluta í Evrópu er Róma fólkið.  Róma er stærsti minnihlutinn innan Evrópu og er á bilinu 10-12 miljón manns.  Sjálfir áætla þeir þó að þeir séu miklu fleiri.

Í nýjum rannsóknum sem kynntar eru á heimasíðu mannréttindaarms Evrópusambandsins (FRA Fundamental Rights Agency) og gerðar voru í ellefu Evrópusambandslöndum kemur í ljós að þriðjungur Roma er án atvinnu, fimmtungur er ekki með heilbrigðistryggingu og níu af hverjum tíu búa við lífskjör sem eru fyrir neðan fátæktarlínu eins og hún er ákvörðuð í hverju landi fyrir sig.

Það má segja að vandinn komi Íslendingum ekki beint við.  Síðast þegar hingað komu Rúmenskir Roma (Sígaunar) var þeim beint úr landi eins og hverjum öðrum skepnum.   Þeir voru þó bara að spila á hljóðfæri í miðborg Reykjavíkur.

Roma fólkið hefur ekki samlagast ríkjaskiptingu Evrópu.  Þetta er fólk landsins, fjölskyldunnar, ástarinnar, tónlistarinnar.  Auðvitað hafa margir Roma runnið inní mannhafið.  Aðrir ekki og þeir búa gjarnan við fátækt og vanvirðingu.  Evrópuráðið og Evrópusambandið hafa undanfarin ár leitað leiða til þess að drga úr þessum fordómum.  Montenegró hefur t.d. að ákveðnum tilmælum Evrópuráðsins lagt af búðir sem hýstu Roma og voru satt að segja ömurlegar.  Af sjálfu leiðir að börn sem alast upp við slík skilyrði eiga sér varla viðreisnarvon.

Og ekki dregur það úr fordómunum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur