Þriðjudagur 27.3.2012 - 16:33 - Lokað fyrir ummæli

Hvað kom fyrir Jón Magnússon og hvenær gerðist það?

Jón Magnússon fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins vandar mér ekki kveðjurnar á bloggi sínu eftir að ég gagnrýndi meðferð KSI á tveimur ungum drengjum:  Jón lögfræðingur með meiru hoppar beint á það að níða mig niður sem prest í stað þess að rökræði málið af skynsemi (menn geta séð pistla mína hér að ofan):

 ,,Baldur Kristjánsson prestur þjóðkirkjunnar virðist ekki átta sig á inntaki kristinnar trúar um umburðarlyndi og fyrirgefningu…..hann krefst þess að sá sem vísaði til litarháttar hins leikmannsins verði beittur þungum refsingum“ (Þetta er uppspuni í Jóni).

Hann reynir að gera lítið úr öðru helsta ævistarfi mínu:

,,Baldur telur sig vera sérfræðing….endur fyrir löngu kosin í nefnd…….sérfræði hans virðist þó af skornum skammti“

Og Jón sem hleypir ekki að kurteislegri athugasemd frá mér hleypir þessu hins vegar að:

 ,,……þessi vesalings prestur sér bara það ljóta í fari mannsins hvert sem hann lítur og þar þrífst ekki fyrirgefning eða mannúð.  Öfgamaður í pólitískri rétthugsun, hrokafull og hefnigjörn afstaða sem ætti að nægja til að setja hann frá embætti“

 Yfir þessi komment og fleiri leggur Jón blessun sína en hleypir ekki að eftirfarandi athugasemd frá mér:

 ,,þú ættir að lesa pistilinn minn Jón minn ágætur. Ég gagnrýni það að leikmenn séu settir í leikbann. það á að bregðast við með fræðslu. Ég hins vegar gagnrýni mismuninn á dómunum. Við gerum of lítið með andlegt ofbeldi þ.m.t. rasisma. Svo legg êg til að félögin beri meiri ábyrgð. Allar mínar leiðbeiningar eru í samræmi við leiðbeiningar Evrópuráðsins.

 Lestu svo líka pistlinn minn frá í morgun. Kær kveðja. Baldur”

 Jón mun sjálfsagt segja að hann hafi verið upptekinn á Útvarpi Sögu eða einhvers staðar. Það breytir því ekki að hann hefur látið óhroðann um mig standa daglangt. Ef þetta er ekki að fara í manninn þá veit ég ekki hvað.

 Er nema von að ég spyrji:  Hvað kom eiginlega fyrir Jón Magnússon þennan indæla unga fallega formann stúdentaráðs (með sögulega nafnið) fyrir 45 árum og hvenær gerðist það?

(Niðrandi athugasemdir um Jón Magnússon ekki leyfðar hér en kurteislegar athugasemdir má gera á facebooksíðu minni)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2012 - 09:34 - Lokað fyrir ummæli

Um rasisma og knattspyrnu að gefnu tilefni!

Knattspyrnusamband Íslands þarf að taka mjög skipulega á rasisma og koma sér upp verklagsreglum í málaflokknum.

Þar á m.a. að kveða á um að dómarar og þeir sem sitja í ráðum og nefndum fái  fræðslu um það hvernig þekkja eigi rasisma og hvernig bregðast eigi við honum.  Það sama á við um yfirstjórn og starfsmenn.

Félögin eiga með hjálp KSÍ að fræða þjálfara um rasisma og helst ekki að ráða þá til starfa nema að undangegnu námskeiði.

Vafasamt er að bregðast við með leikbönnum í yngri flokkum.  Fræðsla er á því stigi árangursríkust.

Sá sem gerir sig sekan um rasisma er yfirleitt ekki verri en félagarnir en endurspeglar menningu sína.  Hann er, má segja, einnig fórnarlamb hennar.

Mjög mikilvægt er að vinna vel í þessum málaflokki því að knattspyrnumenn eru fyrirmyndir.

Rasisma má líkja við veiru sem þarf að útrýma.  Rasískt hugarfar flokkar fólk eftir uppruna, litarrafti, þjóðerni og jafnvel menningu og trú og felur í sér fyrirlitningu á hóp eða hópum sem við tilheyrum ekki.

Rasismi kumrar í yfirborði samfélags.  Kemur stundum upp á yfirborðið og er þá gjarnan meðhöndlaður  sem einstakt  tilvik.

Það er ekki bara KSÍ sem þarf að koma sér upp verklagsreglum í þessu málaflokki.  Þess þurfa önnur sambærileg sambönd svo og skólar og allir þeir sem koma að mótun unglinga.

(Höf. er sérfræðingur í ECRI og áhugamaður um knattspyrnu )

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.3.2012 - 08:58 - Lokað fyrir ummæli

Kynþáttaníð. Gerum félögin ábyrg!

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ ætti e.t.v.  að segja af sér. Hún virðist líta miklu alvarlegri augum kýlingar og spörk en grímulaust kynþáttaníð á leikvelli.  Þeir KSÍ menn hafa áður legið undir ámæli fyrir linku og mál að linni.  Undirritaður sem hefur fengist við kynþáttaníð í Evrópu í hálfan annan áratug  m.a. á fótboltavöllum býður fram sérfræðiaðstoð sína.  Í fullri alvöru, því það skiptir miklu máli fyrir framtíð fótboltans á Íslandi og framtíð Íslands hvernig þetta er tæklað.   

Sennilega  átti hvorugur drengjanna að fá leikbann. Best var etv. að dæma þann sem viðhafði ummælin í kennslustundir og  þann sem fyrir níðinu varð í námskeið í reiðistjórnun. Félag orðhákssins átti síðan að dæma í tveggja milljón króna sekt.  Það er besta forvörnin að gera félögin ábyrg.  Síðast en ekki síst snertir málið uppalendur drengsins foreldra og skólasamfélag.

 (Hluti greinar er í viðtengingarhætti því aðeins er byggt á blaðafréttum. Athugasemdir má gera á facebókarsíðu minni.  Hef tekið út rasistaorðið þar sem ég þykist vita að orðhákurinn sé fórnarlamb samfélagsmeins og sé ekki slæmur per se).

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.3.2012 - 08:18 - Lokað fyrir ummæli

Fótum troðin mannréttindi!

Hér fyrir utan mannréttindadómstól Evrópu mótmæla Kúrdar eins og svo oft áður.  Í þetta sinn eingöngu konur- dætur, mæður, eiginkonur – Stundum tjalda við árbakkann manneskjur sem leita réttar síns, skítblankar og valdalausar manneskjur.  Ég sé fyrir mér íslenska yfirstétt þar við hlið þegar hún kemur hingað að sækja fótum troðin mannréttindi sín.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.3.2012 - 20:27 - Lokað fyrir ummæli

Útlendingafóbía Vigdísar Hauksdóttur!

Vigdísi Hauksdóttur er viss vorkunn þegar hún stekkur upp og hrópar útlendingaúlfur, útlendingaúlfur úr ræðustól Alþingis (!) þegar rúða er brotin í miðbæ Reykjvíku.  Ábyrgðin er að miklu leyti fjölmiðla.

Þetta virkar svona:  Þegar útlendingur brýtur af sér er það samtvinnað frêttinni að segja frá því.  Þó að innfæddir fremji  flest öll afbrotin er það aldrei samtvinnað fréttinni.  Af þessum frásagnarmáta  leiðir að fólk tengir saman glæpi og útlendinga. það ýtir svo aftur undir rasisma í formi útlendingafóbíu. þetta hendir eins og dæmið sýnir meira að segja alþingismenn sem ættu að vera óvenju upplýstar og hugsandi verur.
þetta er þekkt fyrirbrigði og samþjóðlegar stofnanir eins og ECRÍ sem berjast gegn rasisma hafa beint því oftsinnis til fjölmiðla að taka tillit til þessa en það verður að segjast eins og er að sumir íslenskir fréttastjórar eru of miklir besserwisserar til að taka tillit til þessa.
En ættu auðvitað að axla sína ábyrgð á því að hafa plantað útlendingafóbíu í huga Vigdísar Hauksdóttur og þúsunda annarra Íslendinga.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.3.2012 - 09:23 - Lokað fyrir ummæli

Rasismi er andstyggð!

Hæ, í dag 21. mars er alþjóðadagur gegn kynþáttafordómum. Kynþáttafordómar eru því miður ekki á undanhaldi í Evrópu og í dag eiga  öfgahægriflokkar fulltrúa á 19 þjóðþingum af 27 rïkjum innan Evrópusambandsins.  Sem betur fer er enginn slíkur innan þings á Íslandi en rasistaelment eru því miður til staðar á Íslandi. Rasismi og systir hans útlendingafóbía eru meðal þess aukunverðasta sem þrífst.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.3.2012 - 15:05 - Lokað fyrir ummæli

Hugmyndafræðingur kastar grímunni!

 

Örvar Arnarson gerir í grein í Þjóðmálum grín að ,,krúttunum“ sem í skjóli vinstri stjórnar halda að þeir geti innleitt himnaríki á jörðu. Það sé ekki hægt segir Örvar og tekur þar með undir viðhorf hefðbundinnar guðfræði.  Guðfæðin bendir hins vegar á að manneskjan hljóti að vinna að þessu marki þ.e. gera lífið hér eins gott og hægt er fyrir sem flesta. það eru ,,krúttin“ greinilega ad fást við eins og flestir sem aðhyllast jöfnuð og réttlæti. Það hljóta að teljast tíðindi þegar hægri sinnaður hugmyndafræðingur gerir grín að þessu  markmiði sem í orði kveðnu  a.m.k. er sameiginlegt verkefni stjórnmálanna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.3.2012 - 11:28 - Lokað fyrir ummæli

,,Kellingin“ að gera sig!

Svei mér þá ég hef sennilega haft rétt fyrir mér þegar ég fyrir ári síðan taldi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur væri ein sú besta frá stríðslokum. Jafnaði henni við Viðreisnarstjórnina á upphafsárum hennar, minnir mig.  Enn þjáumst við vegna þess hvað Íslandi var illa stjórnað á árunum fyrir hrun en nú er allt á uppleið eftir undraskamman tíma.  Samkvæmt Hagstofu Íslands þá jókst landsframleiðsla að raungildi um 3.1% á árinu 2011- hér er mun meiri hagvöxtur en í flestum ríkjum. Einkaneysla jókst um 4% og fjárfesting um 13.4%. Atvinnuleysi fer minnkandi.   Og við erum að greiða niður erlend lán langt á undan áætlun.

Þessum árangri höfum við náð þrátt fyrir það að ríkisstjórnin hefur búið við eina óbilgjörnustu og ósvífnustu stjórnarandstöðu sem Íslendingar hafa kynnst.  Hún er blandin kvenfyrirlitningu sem lýsir sér í því að háir sem lágir íhaldsmenn vísa í Jóhönnu Sigurðardóttur sem kellinguna.  Það eru margir sem mega ekki til þess hugsa að vinstri stjórn undir forystu konu leiði Ísland upp úr öldudalnum sem hægri mennirnir skelltu landinu í með stjórnarstefnu sinni og andvaraleysi sem var afleiðing af því að þeir höfðu alltaf tögl og haldir á öllu og höfðu ekki tamið sér að reka skipulegt  samfélag.

Og nú berjast þeir um á hæl og hnakka .

(Hægt er að kommentera á færsluna á facebook.  Athugasemdir frá illfyglum þó ekki þegnar)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.3.2012 - 10:49 - Lokað fyrir ummæli

Ómar á Bessastaði!

Ég sagði við Emil Björnsson fréttastjóra Sjónvarps er við sátum á bekk í Austurstræti árið 1986 og vinur okkar Ómar Ragnarsson hljóp hjá því ekki gengur hann. : Emil, það kæmi mér ekki á óvart þó hann Ómar ætti eftir að verða forseti.  Hann hefur allt í það.  Vinsæll af alþýðu manna, skemmtilegur, greinargóður, getur fíflast en einnig flutt erindi um sálma í íslensku sálmabókinni en það hafði Ómar einmitt gert skömmu áður í virðulegri kirkju. Eftir nokkra umhugsun tendraðist stórt andlitið á Emil upp, augun lýstu og úr djúpi barkans kom þessi setning setninganna: ,,Já, þú segir nokkuð.“

Þetta var löngu áður en Ómar gerðist forystumaður nýrrar hugsunar í umgengni okkar við landið og sýndi að hann lætur ekki dópa sig, hengja eða skera, þorir að bjóða því sem honum finnst rangt birginn þó það kosti hann fjármuni og illt umtal. Toppmaður Ómar.

Nú hefur Ísak Harðarson skáld tekið upp þráðinn og stekk ég því á vagninn.  En það þarf ekki afburðamenn eins og mig og Ísak til að sjá og finna að Ómar er maðurinn og þjóðin yrði í mörgum skilningi sátt við sjálfa sig bæri hún gæfu til að kalla Ómar, þennan óþreytandi mannvin og baráttumann á Bessastaði.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2012 - 10:31 - Lokað fyrir ummæli

Snúum sönnunarbyrði við í…..

Sé tekið mið af bloggi komast menn varla uppfyrir lendar lengur nema þegar þeir fjalla um hrunið sem felur í sér mjög lága kynferðislega undirtóna.  Gegnumgangandi þræta er hvort snúa eigi við sönnunarbyrði í kynferðisafbrotamálum.  Þægileg afstaða en flýgur í fasið á réttarríkinu.  Á einu sviði a.m.k. hefur sönnunarbyrði verið snúið við í sakamálum í einhverjum löndum Evrópu.  Það er í málum sem brjóta í bága við misréttisákvæði laga. Atvinnurekandi þarf í einstökum tilfellum að sanna að hann hafi ekki beitt umsækjanda misrétti við ráðningu í starf.   þessu hefur ECRI mælt með. Rökin eru þau að næstum því ómögulegt sé fyrir umsækjanda að sanna mál sitt því að atvinnrekandinn hafi allar upplýsingar, gögn og yfirsýn. Honum sé enda auðvelt að sýna fram á heiðarleika sinn ef sá er til staðar.  þarna er sönnunarbyrði snúið við.

Alþingi ætti að huga breytingu í þessa veru á meðan það er jafn vel skipað og nú.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur