Fimmtudagur 19.1.2012 - 11:34 - 21 ummæli

Baráttan um biskupsstólinn!

Sigríður Guðmarsdóttir og Kristján Valur Ingólfsson hafa nú gefið kost á sér í biskupskjöri. Hvortveggja ákaflega hæfar manneskjur og vel menntaðar sem myndu valda embættinu vel.  Sigríður ætti að höfða til þeirra sem vilja (róttækar) breytingar á kirkju (og samfélagi) að mörgu leyti sömu hópa og vilja nýtt Ísland. Kristján Valur ætti að höfða fremur til þeirra sem vilja yfirvegaðar breytingar, góða kjölfestu og reynslu. Sigríður höfðar, eðli máls samkvæmt, einnig til þeirra sem telja áríðandi að fá konu í stól biskups í öllu falli feminista.  Kristján fremur til þeirra sem vilja líta til hæfileika fremur en kynferðis.  Þarna eru þó ekki skörp skil því að bæði eru jafnréttissinnuð.

Ágætar manneskjur eru með hendina á húninum.  Má þar nefna Sigurð Árna Þórðarson sem stendur alveg á pari við ofannefndar manneskjur í hæfileikum og Jónu Hrönn Bolladóttur sem er prýðilega hæf og  lætur til sín taka hvar sem hún fer og eins og Sigríður ætti að höfða til kvenna og þeirra sem vilja glænýja hugsun.

Það hefur orðið gjörbreyting á biskupskjöri.  Áður voru þetta rúmlega 200 manns aðallega prestar. Nú eru þetta yfir 500 manns að uppistöðu til sóknarnefndarformenn. Sóknarnefndarmenn eru með allt öðru vísi bakgrunn en prestar.  Þetta eru praktískir birnir og birnur sem hafa fyrst og fremst áhyggjur af fjárhag sókna sinna.  Á meðan afstaða presta mótast af margflóknum kenninga, kunningja -, aldurs (m.a. því hvort að menn hafa verið saman í deild)-  og ættartengslum þá er hið nýja ráðandi afl líklegt til að stjórnast meira af almenningsáliti og flokkapólitík.  Þegar hygg ég að það ferli sé hafið að sóknarnefndarformenn fundi með hver öðrum og þeir sterkustu þeirra á meðal beiti áhrifum sínum eins og í öllu mannlegu félagi.  Þarna mun ekki eiga sér stað samráð á sóknargrunni milli prests og sóknarnefndarformanns þar sem presturinn leggur dóm á kenningarlega þáttinn heldur munu leikmenn leita hvorn annann uppi og í raun og veru ráða niðurstöðu. Í þessu umhverfi er vissulega er gott að vera kvenframbjóðandi þar sem sterk krafan er sú að kona verði biskup en það verður líka gott að vera yfirvegaður reynslubolti.  Líklegt er að frambjóðendur hagi sér meira og minna eins og pólitíkusar á næstu vikum, reyni að höfða til sem flestra og verði því varkárir og yfirvegaðir en jafnframt róttækir og spennandi.  Og nú reynir á hver hefur besta biskupsnefið.

Og það getur skipt máli fyrir íslenskt samfélag hver verður biskup. Þetta er í öllu falli áhrifastaða.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.1.2012 - 14:56 - 10 ummæli

Sviflétt staðgöngurök alþingismanna!

Alþingismenn margir hverjir skauta heldur létt fram hjá siðferðilegum rökum í umræðum um staðgöngumæðrun.  Þeir beita svifléttum rökum eins og þeim að ,,þær“ hafi haft gaman að því að eiga börn og konur hafi alltaf gengið með börn fyrir aðrar konur, að staðgöngumóðir sé góðverkakona, að betra sé að vera staðgöngubarn en ,,ekki barn“.  Í umræðunni er skautað létt fram hjá því að allir álitsgjafar sem leitað var til og ekki eiga hagsmuna að gæta lögðust gegn löggjöf um staðgöngumæðrun sem þeir töldu leið til misnotkunar á fátækum og valdalausum konum eins og raunin er á heimsvísu.  Norðurlandaþjóðirnar hafa af þeim sökum hafnað staðgöngumæðrun sem réttlætanlegu fyrirbrigði.

Í Danmörku er siðfræðiráð og siðferðileg álitamál eru ekki afgreidd frá ríkisþinginu án blessunar þess.  Það er skynsamlegt fyrirkomulag þar sem þingmenn eru mörgum hverjum margt betur gefið en að fjalla og hugsa um siðferðileg álitamál enda fyrst og fremst kosnir til að sinna veraldlegum hlutum svo sem að sinna peningalegri aflkomu fólks.  Þegar kemur að alvarlegum siðferðilegum álitaefnum dugar ekki bara að kassera áliti siðfræðinga og taka upp viðkvæðið ,,mér finnst.“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.1.2012 - 18:03 - 6 ummæli

Ævilangt óuppgerður Geir!

 

Var að lesa Ögmund. Sammála honum í því að vafasamt hafi verið að draga Geir einan fyrir Landsdóm. Ósammála því að Alþingi eigi að draga ákæruna til baka. Úr því sem komið er er bara ein leið fær: Að Landsdómur, sem er úrvalshópur lögspekinga, leggi  dóm á það hvort um ásetningafbrot eða andvaraleysi var að ræða.  Skeri úr um  sekt eða sýknu.  Dragi Alþingi ákæruna til baka verður vafinn veganesti okkar. Hrunið verður ómeðhöndlað mein í þjóðarlíkamanum og Geir. H. Haarde lifandi draugur í samfêlagi sínu.  Ævilangt óuppgerður Geir.

Þeir einu sem hagnast verða þeir sem lögðu vandræðin sem leiddu til hrunsins upp fyrir Geir og komu í þokkabót  í veg fyrir það að hann reyndi að greiða úr þeim hvað þá meir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.1.2012 - 11:46 - 5 ummæli

Formaður Framsóknar og gegnsæið!

Það skrifast sennilega  á bernsku formanns Framsóknarflokksins þegar hann heldur því fram (á þingfundi) að leyndarhyggja og ógegnsæi hafi aldrei verið eins mikil og í tíð núverandi ríkisstjórnar.  Sá sem heldur slíku fram hefur ekki lifað lengi eða ekki fylgst mikið með.  Greinilega nývaknaður og skal honum virt það til vorkunnar.  Leyndarhyggja, ógagnsæi og þöggun hefur verið eitt megineinkenni íslenskra stjórnmála og náði hámarki á sældartíma Framsóknarflokksins 1995 til 2007.  Þá voru menn meira að segja að afhenda vinum sínum eignir almennings með mjög ógagnsæjum hætti. Leyndarhyggja og þöggun voru kannski megineinkenni þeirra stjórnarhátta sem þá ríktu og smituðu út frá sér um allt þjóðfélagið.

Dæmigerður Íslendingur í trúnaðarstöðu lítur á hana sem feng sinn og deilir helst engu til almennings.  Nýleg dæmi um salt og kadmíum sýna þetta ljóslega.  Munurinn á deginum í dag og gærdeginum er sá að fólk líður þetta ekki lengur.  Ísland er að opnast.  Núverandi stjórnvöld eru kannski ekki alveg með á nótunum en í þessum efnum sem öðrum eru þau miklu betri en þau stjórnvöld sem við höfðum á síðasta áratug og þeim næstsíðasta.  Og áfram skal haldið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.1.2012 - 08:23 - 8 ummæli

Vesæl ríkisstjórn?

Ég var einu sinni samferða Vilhjálmi Egilssyni í flugvél og þetta virtist hógvær og geðugur maður og það er hann örugglega prívat og persónulega.  Þessi sami maður er í fjölmiðlum fastagestur sem fulltrúi atvinurekanda og satt að segja ofbýður mér talsmátinn þegar hann velur lýsingarorð þeirri ríkisstjórn sem hann er að semja við og hefur dregið okkur upp út drulludýkinu sem samherjar hans og hugsjónabræður sökktu okkur í.  Vesæla ríkisstjórnin er nýjasta heitið yfir þessa ríkisstjórn sem ber höfuð og herðar yfir þá stjórnir sem hann hefur ætíð kosið, valið, dýrkað og dáð.  Það er  athugunar virði hvort ekki ætti að setja ,,bíp“ á svona talsmáta líkt og gert er þegar ,,fuck“ er notað á virðulegum sjónvarpsstöðvum. Raunar gefur samloka hans Gylfi Arnbjörnsson hjá ASÍ honum lítið eftir, jafndramatískur á stundum og mættu báðir muna hvað þeir voru kurteisir hér fyrrum. Báðir mættu þessir menn minnast þess í mælsku sinni að þeir taka þátt í því að móta orðaheim og lífsskilning barna sem fullorðinna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.1.2012 - 14:02 - 21 ummæli

Jón Ísleifsson

Það er eitthvað  að í kirkju sem lætur annað eins viðgangast og það sem átti sér stað norður í Árnesi og við urðum vitni að í heimildarmyndinni Jón og séra Jón í sjónvarpinu í gær.  Jón Ísleifsson, höfðuðersóna myndarinnar er ljúfur drengur með góða og mikla eðliskosti.  Hann er hins vegar augljóslega haldinn einhverju afbrigði af því sem leikmenn telja  þunglyndi getur ekki séð almennilega um sig, komið sér til verka og hefur ekki í sér öll þau vopn sem duga til að halda sínu í flóknu valda og hagsmunatafli heimsins. Það er hins vegar bita munur en ekki fjár á honum og fjöldamörgum öðrum.  Jón er hins vegar ólíkt mörgum ágætur guðfræðingur sem skautaði ágætlega gegnum Guðfræðideildina og nokkur heimspekingur og þjónar fallega sem prestur.

Yfirmenn kirkjunnar hafa annað hvort ekki haft vald eða vilja til þess að koma í veg fyrir að svona sorgarsaga þróist. Í fyrsta lagi er það tóm vitleysa að leyfa viðkvæmum manni eins og Jóni að fara  norður í svartnætti vetra og hríðabylja einangrunar og fásinnis.  Í öðru lagi þá átti að grípa inní miklu fyrr. Þó að saka megi biskupa og prófasta um sinnuleysi þá er einkum  hér sennilega við kirkjuskipanina að eiga.  Sjálfstæði presta gagnvart yfirvaldi geistlegu og borgaralegu er nauðsynlegt en bæta þarf úrræði til að grípa inní.

Ekki skal lagður dómur á það hvort að nágrannar Jóns hefðu mátt styðja hann betur og vart verður því trúað að þeir hafi stuðlað að brottför hans í eiginhagsmunaskyni.  Málið er fyrst og fremst áfellisdómur fyrir kirkjuskipanina.

Séra Jón, úr því að hann hlaut vígslu, hefði átt að vera í Reykjavík innan um aðra presta.  Hann hefði helst plummað sig í kirkju þar sem heimilishagir hans og einkennilegir hættir hefðu ekki komið neinum við. Fólk hefði séð hann greiddan og strokinn eftir fyrirmælum kirkjuvarða og sampresta, í hátíðarbúningnum lesandi fallega úr biblíunni, flytjandi skondnar og skemmtilegar ræður.  Ég hef séð hann skíra.  Hann gerir það mjög fallega.

Og gaman var að sjá Harald Blöndal lögfræðing í myndinni.  Sá látni heiðursmaður hefur örugglega reynst Jóni vel og náð fyrir hans hönd góðum starfslokasamningi.  Ég vona það.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.1.2012 - 18:04 - 16 ummæli

Zero tolerance

Knattspyrnuspekingar fimbulfamba um að ýmislegt sé nú sagt í boltanum og að viss orð séu nú bara vinsamleg í Urugvaí. Nú síðast Eggert kexsali í messunni. Samkvæmt skýrslu enska knattspyrnusambandsins, sem m.a. Kallaði til urugaiska fræðimenn leikur enginn vafi á neikvæðri merkingu orða Zuares. Og mörkin liggja við núllið. Bretinn veit hvað hann er að gera.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.1.2012 - 14:02 - 2 ummæli

Ólafur undir sama þak og Jimmy Carter og Bill Clinton!

Ólafur Ragnar ætlar ekki bara að hætta. Hann ætlar að ganga inn undir sama þak og Jimmy Carter, Al Gore, Bill Clinton, Vigdís Finnbogadóttir og fleiri stórmenni. Verða frægur og öflugur fyrrverandi sem lætur sig varða stærstu hagsmunamál mannkyns. Það fólk sem ég nefndi er allt orðið stærra en embættið sem það gegndi og Ólafur mun nú fyrst eignast heiminn sem fyrrverandi forseti hins merka eyríkis, hugmyndafræðingur um norðurslóðir, veraldarhlýnun og nýja heimsskipan. Tíma hans er hvergi nærri lokið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.12.2011 - 21:00 - 7 ummæli

Erfði gjaldþrota bú og spillt.

Ólst upp við að Viðreisnarstjórnin væri hörmuleg stjórn. Trúði Tímanum og þjóðviljanum, þórarni Þórarinssyni og Magnúsi Kjartanssyni. Allt var ómögulegt sem þessi íhaldsstjórn aðhafðist hvort sem það voru landráðasamningar við Breta, svik við verkalýðshreyfinguna, sífelld tilræðin við landsbyggðina, fólksflótti og hvaðeina. Seinna áttaði ég mig á að Viðreisnarstjórnin var ein besta ríkisstjórn lýðveldistímans, framfarastjórn.
Ég hygg að núverandi stjórn fái síðar meir ekki verri eftirmæli. Hún erfði gjaldþrota og gjörspillt bú og er langt kominn með að snúa taflinu við þrátt fyrir fúkyrðaflaum úr öllum áttum einkum frá hrunverjum, verndurum sérhagsmuna og öfgafullum andstæðingum ESB. Þrátt fyrir það að stjórnin sé að ná einstæðum árangri nær fúkyrðaflaumurinn nýjum hæðum. Ef ég væri ekki Íslendingur myndi ég halda að Íslendingar væru illyrtir kjánar en það erum við upp til hópa ekki.
Ég sé auðvitað eftir Árna Páli úr ríkisstjórninni en mér líst að mörgu vel á að setja jarðýtuna Steingrím J. Sigfússon yfir atvinnuvegaráðuneytin og Oddnýju Harðardóttur í fjármálaráðuneytið
Og það er gott að losna við Jón Bjarnason. Ég dreg þá ályktun af málflutningi hans að hann vilji þessa ríkisstjórn feiga.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.12.2011 - 10:54 - 1 ummæli

Jóladagsprédikunin 2011

Þá er jóladagur runninn upp skýr og fagur. Jólastjarna á himni og hirðingjarnir búnir að finna Jesúbarnið og votta því virðingu sína. Við erum enn á þeim slóðum við vöggu Jesúbarnsins, gleði og spurn í augum. Reyndar tókum við upp gjafirnar okkar í gær þegar við glöddum hvert annað en allt í hinni miklu umgjörð sem er gjöf Guðs til manna í mynd lítils barns.  Við fögnum nýju lífi, nýju barni, sérstöku barni sem hvert barn er vísbending um að lífið haldi áfram, endurnýist, vari og þess vegna uppfylling arfbundinna vona okkar. Já, barn er oss fætt, sonur eða dóttir er oss gefin. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla.  Já hvert barn er arftaki.

Það er náttúrulega enginn Guð til í þeim skilningi sem við leggjum í til- veru eða tilvist- það að vera til. Eini Guðinn er Guð trúarinnar og hann er ekki til nema sem Guð trúarinnar, eða sá Guð sem trúað er á. Og hann lifir ekki í okkar veraldlega heimi heldur í heimi sem við getum þess vegna kallað hugarheim. Það þýðir ekki að hann sé ekki til en hann er ekki af þessum heimi.  Kristnir menn túlka frásögnina um Jesú sem skilaboð frá Guði trúarinnar um að hann standi með mönnunum, fyrirgefi syndir þeirra og þeir komi til hans úr þessum heimi að lífi loknu eða heimsögunni lokinni.  Yfir í ríki hans, guðsríkið, sem er ekki af þessum heimi (og því ekki „til“ í gagnsæilegri merkingu þess orðs).

En Guð er samt ekki fjarlægur. Hann er prsónulegur Guð. kemur til hvers og eins en aðeins til þeirra sem vilja það.  Til þeirra sem taka á móti honum. Hleypa honum inn ï hjarta sitt. Og hann hefur áhif á líf margra og tekur alveg yfir líf sumra með misjöfnum árangri reyndar.
Á jólum, hátíð kristninnar, erum við minnt á allt þetta.. Við staðsetjum frásögnina af inngripi hans í tíma, leikum frásöguna með margvíslegum hætti.  Jólasiðir verða til. Við höldum sömu venjum ævina út og jólin tengja okkur því gegnum kynslóðum eins og biskupinn fjallað svo viturlega um í gærkvöldi, tengjumst Íslandi aldanna.  Og jólin eiga rætur í heiðni og hafa dengt á sig ýmiskonar þjóðverum.

Fyrir jólin eru alls konar tröll og illþýði büin að vera áferð : Gríla, Leppalúði, jólasveinar, jólaköttur…..og bera keim af því að jólin eru upprunnin í heiðni en gegna einnig því hlutverki að halda börnum þægum með því að hræða þau sem er ekki fallegt og vera kontrastur við hið góða sem skellur á klukkan sex.  Gríla var alvöruvarasöm.  Hún var á ferð til að taka óþekk börn sem æpa og hrína, hirðir þau og hefur þau til bíslags fyrir sig og bónda sinn.  Henni kippti þar í kynið við önnur tröll að þykja mikið til koma að hafa nýtt mannaket á jólunum. Var talið vissara að vera ekki úti á jólanóttina til að verða ekki êtinn sem er hlutskipti sem enginn óskar sér.

Jólasiðirnir vitna líka um lífskjör. Vitna um nægjusemi og fátækt eins og þessi kveðlingur hér. 
Það á að gefa börnum brauð/að bíta í á jólunum/kertaljós og klæðin rauð/svo komist þau úr bólunum
Hjálmar frændi í Dómkirkju gæti reynt ad kveða þessa vísu upp þannig að hún endurspeglaði  nútímann.

Og Manneskjan er svo sem ekkert skárri en tröllin. Heimtar nýtt kjöt á jólunum.  En eins og tröllin vilja eta menn vill maðurinn eta sauðfé.
Gömul venja var að slátra kind rétt fyrir jólin til þess að hafa nýtt ket á hátíðinni, kind þessi var kölluð jólaærin.  Annars fór fólk til messu á jólanóttina- þá var ein manneskja skilin eftir heima til þess að gæta heimilisins því að huldufólk sóttist eftir því að komast inn og halda veislur og dansa og fór illa fyrir mörgum manninum sem var að gæta bús og húss. Samkvæmt frásögum urðu menn að fela sig þegar huldufólkið kom. Annars fundust þeir dauðir eða ráfuðu stórskrítnir um það sem þeir áttu eftir ólifað.

Messuferðin var hlaðin siðum og venjum. Allt var með helgisvip orð og látæði. 
Oft vildi jólamessa dragast fram á nýjárið.  I heimild héðan úr Ölfusinu segir að þegar út fyrir túnfót var komið stoppuðu menn og fóru með bæn. Karlar tóku niður pottlok. Þá í kirkju var komið hneigðu menn sig fyrir prestinum.  Í frosthörkum var gott færi, ísalagðar mýrarnar óþurrkaðar engir skurðir.  Verra í umhleypingum, blautt, forugt, þurfti að fara með fjallshlíðum eða með fjöru.

En jólin sjálf svo við snúum okkur að þeim eru eins og við þekkjum matarhátíð og gjafahátíð en í gegnum það og umfram það
eru þau fyrst og síðast tími náungakærleika.  Einsemd er einhvern veginn andstæða jólanna.  Þess vegna er þróun menningar okkar umhugsunaverð. Maðurinn við hliðina á þérsamkjaftar ekki.  En hann er ekki að tala við þig heldur í símann sinn.  Fólk líður um hver í sínum hugarheimi- hlustandi á sinn eigin ipod.  Börn hanga í tölvum og sjónvarpi.  Einstaklingarnir ráfa um í eigin hugarheimi.  Þráðurinn milli manns og manns trosnar. Tæknin færir okkur þannig skoðað fjær hvort öðru. Það er ekki víst að nokkuð hefði orðið úr Jesú ef hann hefð einangast í tölvu. Hann hefði kannski eignast hundrað þúsund fésbókarvini og selt guðsmynd sína á netinu en samfélagsgaurinn sem gekk umeðal fólksins í hópi lærisveina sinna hefði aldrei vaknað enda hefðu lærisveinarnir ekkert tekið eftir honum allir með nýjasta smellinn í Palestínu í ipodinum sínum þar sem þeir gerðu að netum sínum við Geneseretvatnið. Allt væri öðruvísi ef tæknin hefði frelsad okkur á undan frelsaranum. Nei  þó að Jesú hugsaði sjálfstætt og væri ekki hópsál var hann  samfêlagsmaður. Þess vegna er kristnin samfélag. Samfélag manna, ekki í sjálfu sér einstklingsbundin upplifun. Enda er það samfélagið, samneytið við aðra sem stækkar okkur. Hugsum um þetta þegar við sitjum á móti hvort öðru í stofunni um jólin. Hvað væri lífið án annarra.
Við erum öll ljósvíkingar segir Mugison, messías dagsins, svo snoturlega.  Ljósvíkingar bera ljós en ekki sverð.  Það er akkúrat sem þetta tiltekna barn í jólasögunni gerði þegar það óx úr grasi.
Þetta eru held ég viðeigandi hugleiðingar um jól og náungakærleka á degi jesúbarnsins, degi nýja ósjálfbjarga barnsins sem óx upp og varð maður og ákveðin grunntýpa í mannheimi.  Og lífið heldur áfram.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur