Miðvikudagur 16.2.2011 - 11:51 - 1 ummæli

Guðfræðingar iðnir við kolann!

Hvernig getum við speglað þjóðfélagsmál í ljósi guðfræði og nýtt trúarhugsun í þágu samfélags?

 Við erum átta guðfræðingar sem bjóðum til samræðu tveimur og hálfu ári eftir hrun.

 Málþingið verður haldið á Sólon fimmtudaginn 17. febrúar kl. 17:30 og undir yfirskriftinni: Og hvað svo? Hvert stefna Íslendingar?

 Nokkur örerindi verða flutt og rædd:

 Þjóðardjúpið og sálgæsla – Anna Sigríður Pálsdóttir – Sigurður Árni Þórðarson

 Ranglæti í sókn. Sólveig Anna Bóasdóttir – Baldur Kristjánsson

 Hvers er þörf?  Hjalti Hugason – Arnfríður Guðmundsdóttir

 Hvernig komumst við áfram? Pétur Pétursson – Sigrún Óskarsdóttir

 Málþing verður á Sólon (2.hæð), kaffihúsinu í Bankastræti, fimmtudaginn 17. febrúar, kl. 17,30. Allir velkomnir.

 Fundarboðendur eru: Anna Sigríður Pálsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sigrún Óskarsdóttir, Sigurður Árni Þórðarson og Sólveig Anna Bóasdóttir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.2.2011 - 14:04 - 4 ummæli

Staðgönguflýtir- Eru þingmenn að fara fram úr sér?

Það sem umræðir hér er spurningin um staðgöngumæðrun. Tilefnið er tillaga til Þingsályktunar á þingskjali 376 um staðgöngumæðrun 310 mál 139. Löggjafarþings. Málið gengur út á það að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem undirbúi frumvarp til lkaga sem heimili staðgöngumæðrun og verði frumvarpið lagt fram ekki síðar en 31. mars 2011.  Hugtakið  staðgöngumæðrun felur í sér skv. greinargerð að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og að staðgöngumóðirin hafi fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu til væntanlegrar ættleiðingar og uppeldis hjá þeim foreldrum sem tækju við barninu.

Í þessu ferli þarf að vitaskuld að huga að mörgu og skilgreina fjöldamargt, hugsa margt upp á nýtt.  Fyrst og fremst þarf að huga að hlutskipti eða stöðu barnsins, þá að hlutskipti staðgöngumóður, verðandi foreldra, föður og móður..  það þarf að huga að áhrifum fyrirbærisins á fjölskyldur, vinahópa, samfélög, veröldina í heild sinni.

Ég tók að mér að fjalla um þetta siðferðilega álitaefni út frá mannréttindasjónarhorni.  Og það er fyrst til að taka að það að eignast barn verður seint talið til mannréttinda í hefðbundum skilningi. Það er stundum talað um fjórar stoðir mannréttinda þ.e. réttinn til að tjá sig, þá trúfrelsi – þ.e. réttinn til að trúa með þeim hætti og því atferli sem maður kýs. Í þriðja lagi er talað um frelsi frá skorti og í fjórða lagi frelsi undan ótta en sú stoð kemur þegar við höfum náð hinum þremur.  Rétturinn til að eignast barn væri þá undir frelsi frá skorti er svo er ekki heldur er átt við réttinn til þess lífsviðurværis sem gerir einstaklingnum kleyft að vaxa og dafna og þroskast og lifa innihaldsríku lífi.

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna er byggður á ofangreindum fjórum stoðum og þar með einnig Mannréttindasáttmáli Evrópu og þar er að mínum dómi ekkert sem rennir stoðum undir það að það teljist til eiginlegra mannréttinda að eignast barn. Og það hefur svo sem enginn haldið því fram.  En hvað með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna..  Má finna eitthvað þar sem verður okkur að gagni?

Í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og öðrum Barnasáttmálum sem ég hef skoðað hvergi neitt að finna sem hjálpar til í þessum efnum nema þá að tiltekið er að er hvers konar verslun, sala eða kaup á börnum sé bönnuð.  Í barnasáttmála sameinuðu þjóðanna er sala á börnum(og verslun með…) bönnuð og sala á börnum skilgreind í viðauka: ,,hvers kyns aðgerð eða viðskipti þar sem einstaklingur eða hópur fólks framselur öðrum barn gegn þóknun eða hvers kyns öðru endurgjaldi.”

Í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna  er eðlilega first og fremst gríðarleg áhersla á hagsmuni barnsins – að það megi alast upp í öryggi og kærleika.

Sér til gagns mætti lesa fjöldamarga sáttmála t.d. sáttmála um útrýmingu alls kynþáttamisréttis (elimination of all forms og discrimination) og úrtýmingu misréttis gagnvart konum (elimination of all forms of discrimination against women).  Allir þessir sáttmála eiga það sameiginlegt að draga fram grundvallaratriði eins og t.d. skýlausan, óafturkræfan, óumsemjanlegan yfirráðarétt einstaklings yfir eigin líkama.  Þrælahald er t.d. alveg bannað og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið á því að samningsbundið þrælahald er bannað. Einnig þrælahald í velgjörðarskyni.  Frá 1987 er dómur þar sem því er lýst ólöglegu að eintaklingur semji sig í þrælahald þ.e. semji frá sér yfirráð yfir eigin lífi.

Við snögga yfirferð get ég ekki séð að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skorið úr um það hvort að full staðgöngumæðrun standist mannréttindasáttmála Evrópu.  Það er auðvitað mikilvægt því að mannréttindasáttmálinn hefur lagagildi hér á landi. 

Eins og sést af þessu þá er að mörgu að hyggja og ekki dugir að setja lög sem dæmd yrðu ólögleg hvort sem væri vegna meginefnisins sjálfs eða því að þau yrðu dæmd ólögleg vegna misréttis (sem gerst hefur með frjóvgunarlög sem þóttu það þröng að þau töldust mismuna (Austurríki)).  Þegar kemur að beitingu lagaréttar þá vakna fordæmi. Hvers vegna telst þetta velgjörð en ekki hitt? Hvers vegna var tiltekin indversk  kona talin vinkona en ekki hin? Hvers vegna mátti greiða lögfræðingi A 12 milljónir fyrir vinnutap þegar hún gekk með barn fyrir vinkonu sína o.s.sfrv. Þessar spurningar eru ekki út í hött. Gúggli maður staðgöngumæðrun á netinu sér maður að fyrir bandarískum dómstólum eru fjölmörg mál af þessu tagi.  Árið 2009 hefur staðganga verið leyfð í sex ríkjum Bandaríkjanna þ.á. m. Massachussets  og fjölmörg mál eru eins og fyrr segir fyrir dómstólum og dómar falla út og suður (enda dómarar bara menn eins og við þekkjum) og nú eru fyrir dómstólum nokkur mál sem fela í sér kröfu um að ríkið greiði staðgönguna og þá á þeirri forsendu að peningakraftur megi ekki ráða aðgengi fólks að lausnum á heilbrigðissviði (og þessi krafa er jafnvel sett fram í Bandaríkjunum).

Það er svo fjöldamargt að athuga í þessu efni. Og það er svo langur vegur frá því að mannréttindasamfélagið eða löggjafarasamfélagið hafi krufið þetta mál til mergjar.  Og æ fleirri eru á því að í þessum efnum verði þjóðir að hafa samflot til þess að komast hjá harmleikjum og lagaflækjum.  Einnig þurfi alþjóðlegt samstarf um varnir gegn misnotkun.  Stðagöngumæðrun er þegar orðin ,,multi milljon dollarar bisniss” á Indlandi og hætt er við að tilviljunarkennd, samráðslítil, vel meinandi löggjöf einstakra ríka geti orðið vatn á myllu slíkrar starfssemi, veslunar með börn og konulíkama.

Ég set hagsmuni barnsins í fyrsta sæti.  Vissulega er gaman að lifa en vill einhver eiga það á hættu að verða þrætuepli meðgöngumóður og kynmóður. Þegar hafa komið fram dæmi á vestulöndum að meðgöngumóðir hafi neitað að láta barn af hendi. Það er hætta sem ekki er hægt að girða fyrir með samningum.  Kemur afurð staðgöngu ekki til með að þjást af tilfinningaóreiðu umfarm aðra og er ekki á bætandi.  Þetta hefur lítið verið rannsakað.  Ber barn skaða af því að verða tekið frá meðgöngumóðir á fyrstu klukkutímum? Hvað með móðurmjólk?  Vísindin færa okkur betur og betur sanninn um það að móðurmjólk sé afgerandi holl og hafi áhrif á heilsu síðar á ævinni.

Næst eru það réttindi stðagöngumóður. Er það ekki erfitt fyrir staðgöngumóðurm að ljúka fæðingarferlinu strax við fæðingu barnsins.  Eru það ekki grundvallarmannréttindi að fá að halda barninu sem maður hefur gengið með í fanginu, gefa því að drekka, næra það og vernda, annast það hvað sem líður öllum samningum.  Er hægt að semja um þetta sbr. það sem að ofan er sagt um þrælahald.  Stenst það yfirhöfuð mannréttindahugsun okkar að semja um afnot af líkama sínum. Breytast ekki tilfinningar og vilji þungaðar manneskju frá degi til dags.  Verður ekki staðgöngumóðirin að hafa rétt til að sjá sig um hönd?  Grær móðir ekki inn í ferlið burtu frá öllu sem hægt er að kenna við viðskiptasamninga.  Getum við ekki talað um það sem frumrétt manneskju að halda því sem hún gengur með?  Er það ekki í raun utan viðskiptasviðs?

Í þriðja lagi er réttur þeirrar manneskju sem lagði til kynfrumurnar?  En þingsályktunartillagan sem hér er til skoðunar og allt ferlið miðast við hana, vilja hennar vonir og væntingar.  Hvar stendur hún ef ferlið bregst?  Ef staðgöngumóðir neitar að láta það af hendi?  Getur hún líka yppt öxlum og snúið sér að öðru fari svo að réttur staðgöngumóður til breytinga verði aukinn og hún láti ekki barnið af hendi.? (Hver á að kveðða upp Salómonsdóm ef allt fer í hnút?)

Og hvað með rétt systkina, afa og ömmu, langömmu og langafa að hafa hlutina í sæmilegri reglu í fjölskyldunni?  Hver á að vera viðsaddur í sónarnum?  Hver á að skoða fyrstu tölvumyndina, geta í kynið?  Vita ekki kynið?   Taka ákvörðun um líf fóstursins ef  það er fatlað?

Full staðgöngumæðrun breytir afstöðu allra á taflborði mannlífsins.  Það er komin upp nýr leikur sem hefur áhrif á taflið.  Afstaða mannannna á taflborðinu hefur hnikast aðeins. Líkt og það flögrar stundum að mér hvernig ég myndi bregðast við ef náinn ættingi þyrfti nýra hlýtur það að flögra að konum hvort þær myndu ganga með fyrir kæra systur og einn daginn gæti sú spurning komið upp.  Þó að hér færi ekkert úr böndum þá er alvörumál á ferð sem hnikar til væntingum og vonum, breytir tengslum. Nú eins og svo oft áður býður tæknin upp á nýja möguleika.  Eigum við? Eftir nokkur ár verða komnar sérstakar útungunarvélar:  Eigum við….hvers vegna ekki?

Í heimi vaxandi misskiptingar þar sem ópúttnir notfæra sér miskunnarlaust neyð og bjargarleysi ungra kvenna er mikil hætta á misnotkun og hún er alþekkt í heiminum þegar.  Og mér sýnist svona fljótt á litið að reyndir mafiósar geta skautað létt fram hjá vel meinandi lögum í þessa veru sem yrðu í samræmi við þessa þingsályktun. Og hvað með missskiptinguna hér innanlands. Okkur hefur tekist að auka hana gríðarlega á síðustu tveimur áratugum.  Ég er ekki að segja að hér vaxi upp samfélag þar sem fátækir gangi með fyrir hina ríku en í samfélagi misskiptingar er meiri hætta á misnotkun á góðum áformum en í samfélagi þar sem meiri jöfnuður ríkir m.ö.o. félagslegt óréttlæti  er eitt af einkennum samfélags þar sem misskipting er mikil.

Það má orða þetta þannig að staðgöngumæðrun í heiminum hafi þegar dýpkað þær sprungur sem fyrir eru í mannlegu samfélagi.

Kannski kann einhverjum að þykja ég full neikvæður í þessu innleggi mínu.  Ef svo er þá er það kannski vegna þess að mér finnst upplegg flutningsmanna þingsályktunartillögunnar æði bjatsýnislegt. Og staðhæfingar um að þetta mál sé fullrætt eru út í hött. Það má vera að flest augljós rök hafi verið reifuð en umræðan er rétt að byrja. Það er vissulega fallegt ef hægt er að gera öllum að eignast barn en ef  í einhverjum málum er nauðsynlegt að taka tillit til allra hluteigandi þá er það í lok lífs og ekki síður við upphaf þess.

Niðurstaða mín er þessi: 

Það getur ekki talist til mannréttina að eignast barn, ekki nema óbeint þar sem barneign getur stuðlað að hamingju og gefið fólki hlutverk.  Í þessu dæmi þarf að huga vel að réttindum barns og réttindum staðgöngumóður og réttindum kynmóður og föður. Í þessu dæmi ruglast hlutverk allra sem við sögu koma og getur haft áhrif á fjölskyldur þó aldrei komi til staðgöngu.  Staðgöngumæðrun breytir þeim væntingum sem gerum hvort til annars snertir því mannréttindi allra.

Þetta er að mínum dómi eitt af þeim málum sem á að vinna í samvinnu ríkja líkt og mannréttindasáttmálar eru unnir þegar af þeirri ástæðu að verði staðganga leyfð í einhverjum tilfellum þá má betur varast misnotkun.

Og ástæðulaust er að hrapa að niðurstöðu í einhverjum flýti.

Baldur Kristjánsson Th. M. Cand theol. BA Soc.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.2.2011 - 21:55 - Slökkt á athugasemdum við Er malid fullraett?

Er malid fullraett?

Er stadgongumaedrun fullraedd eda oraedd? Thetta mal hefur i ollu falli margar hlidar og sennilega rett ad anda med nefinu thegar ad thvi kemur!
Í ljósi umræðu síðustu vikna um hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun á Íslandi gengst Þjóðmálanefnd kirkjunnar fyrir stuttu málþingi um álitamál tengd staðgöngumæðrun þar sem fjallað verður um málefnið á nótum siðfræði, mannréttinda og samtals.  Málþingið verður haldið í Safnaðarheimili  Neskirkju milli klukkan 12.00 og 13.00 mánudaginn 14.febrúar. 

Fundarstjóri verður Inga Rún Ólafsdóttir sviðsstjóri og fulltrúi í Þjóðmálanefnd.  

Frummælendur verða  sr. Baldur Kristjánsson formaður Þjóðmálanefndar sem mun fjalla um staðgöngumæðrun í  ljósi mannréttinda, dr. Sólveig Anna Bóasdóttir dósent við HÍ en hún nálgast efnið út frá mannhelgi og  manngildi  en Irma Sjöfn Óskarsdóttir  verkefnisstjóri á Biskupsstofu ræðir umfjöllun nágrannakirknanna  um staðgöngumæðrun.

Að loknum framsögum verða almennar umræður.

Aðgangseyrir er enginn en hægt verður að kaupa súpu á Kaffitorgi Neskirkju gegn vægu gjaldi. 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.2.2011 - 14:19 - 16 ummæli

Búrkur og annar sérútbúnaður!

Eitt megineinkenni vestrærænnar menningar er að hver einstaklingur fái að fara sínu fram án þess að það raski um of ró annarra. þannig megi hver og einn klæðast að vild innan striks sem markast af blygðunarsemi þeirra sem komnir eru af léttasta skeiði og aðhafast flest það sem ekki brýtur á frelsi annarra.  Oftar en ekki þurfa mál að fara í tiltekna ferla svo að tryggt sé að svo verði ekki.

Sumir segja að búrka sé dæmi um yfirráðavald og ætti því ekki að líðast.  Ekki er að mínum dómi  til önnur lausn á þessu en opið og frjálst samfélag frjálsra einstaklinga þar sem hver og einn ræður sínum hlutum. Samfélag boða og banna yfirráðastéttar er tæpast svarið við nefndum kvennakúgunarþræði.

Aðrir vilja sjá framaní alla.  Að hver beri fram sitt andlitsauðkenni.  Falleg hugmynd sem ég fell stundum fyrir en samt hugnast mér ekki að fara að setja margbreytileika mannlífsins skorður.  Að hver megi bera það fram sem hann vill með þeim hætti sem hann vill svo lengi sem það setur ekki lífi annarra skorður er sú leið sem mér hugnast best og er því sammála niðurstöðu okkar ágæta innanríkisráðherra.

Evrópuráðið, bæði þingið sjálft og í mynd ECRI er andvígt bönnum hvort sem er á búrkum eða öðrum sérútbúnaði.  Sjálfum finnst mér að það sama eigi að gilda innan veggja skóla og í öðru opinberu rými.  Ef fólk vill vita hverjir þar eru á ferli er hægt að skylda fólk til þess að bera nafnspjöld(e.t.v. með mynd).

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.1.2011 - 13:42 - Slökkt á athugasemdum við Málþing um staðgöngumæðrun 14. febrúar

Málþing um staðgöngumæðrun 14. febrúar

Þjóðmálanenfnd Þjóðkirkjunnar heldur málþing um staðgöngumæðrun á toginu í Neskirkju 14. febrúar kl. 12:00.  Tilefnið er þingsályktunartillaga sem gerir ráð fyrir að staðgöngumæðrun verði leyfð hér á Íslandi. Fjöldamörg álitaefni eru þarna á ferð og munu dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, og guðfræðingarnir og siðfræðingarnir Irma Sjöfn Óskarsdóttirog Baldur Kristjánsson tjá sig um málið í knöppum fyrirlestrum en síðan verða almennar umræður og fyrirspurnir og pælingar.  Hægt verður að kaupa sér súpu og þannig greiðist upp afnotagjaldið af salnum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.1.2011 - 17:27 - 7 ummæli

Þriðja VALDIÐ!

Hæstiréttur er þriðja VALDIÐ.  Það skiptir HÖFUÐmáli hverjir sitja þar. Íslenskir vinstri menn sjá til þess að hér situr yfirleitt hægri sinnuð stjórn.  Þess vegna sitja í dómnum íhaldssamir lagahyggjumenn.  Hafa íslenskir vinstri menn, sem eru sumir í Framsókn,  hugleitt það að taka  sig saman og stjórna landinu í u.þ.b. tuttugu ár og jafna svolítið leikinn?  þeir hafa til þess meirihluta og hafa lengi haft.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.1.2011 - 15:18 - 6 ummæli

Óþægilegar minningar rifjast upp!

Ég kipptist 50 ár aftur í tímann þegar ég renndi yfir óopinberan leiðara Agnesar Bragadóttur í Sunnudagsblaði Moggans þar sem hún fjallar um ,,hálfvitahátt“ Jóns Gnarr og Dags eins og hún orðar það og skrifið allt í þessum anda. Verið að fjalla um pólitíska óvini(að fréttablað skuli eiga sér pólitíska óvini er nú skrítið út af fyrir sig)  greinilega með sama hætti og á árunum eftir 1960 og það gerir Mogginn á hverjum degi í leiðurum og í Staksteinum en ég fletti því gjarnan á bókasafninu enda verð ég að fylgjast með því hverjir eru dánir og hverjir þá enn hérna megin.

Þegar ég var lítill hamaðist Mogginn svona á föður mínum, reyndi að gera lítið úr honum á allan hátt.  Kannski hefur hann eins og Gnarr og Dagur ekki tekið þetta nærri sér en ungur piltur sem sótti nám í Melaskóla og Hagaskóla las þetta sér til sárinda og mátti ofan í kaupið þola glósur frá krökkum sem voru svo óheppin að alast upp í húsum þar sem tekið var mark á Mogganum.   Lengi var mér illa við blaðið en síðan lagaðist þetta og ég og Morgunblaðið urðum vinir.  Ég skrifaði oft í blaðið og alltaf var það keypt á heimili mitt þar til fyrir skömmu. En nú rifjast gamlar leiðar minningar upp þegar ég sé kjaftháttinn en ég sé ekki annað úrræði í því en að bíða og vona að sem fyrst verið skipt þar um áhöfn nema sú sem nú er sjái að sér  og fari að haga sér eins og hún vinni á blaði en ekki pólitísku æsingariti.

Og punkturinn er þessi. Stjórnmálamenn eiga börn.  Þegar af þeirri ástæðu eiga blöð að haga sér siðlega.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.1.2011 - 18:36 - 3 ummæli

Megum ekki forpokast meir en orðið er

Við þurfum að uppfæra íslenska mannréttindalöggjöf og gefa mannréttindum meira stjórnskipunarlegt vægi. Við ættum að gefa alþjóðlegum sáttmálum sem við undirritum lagalegt gildi.  Innleiða viðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar mismunun. Innleiða löngu tímabærarar tilskipanir í vinnurétti frá ESB.  Ganga í Evrópusambandið ekki síst vegna mannréttinda.  Við megum ekki einangrast og forpokast meira en orðið er. Við verðum að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að það standist kröfur mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna.  Við eigum að tryggja  eignarétt þjóðarinnar á orkuauðlindinni og ekki leigja nýtingarréttinn til meira en tíu ára. Við eigum mikið verk fyrir höndum að aðlaga okkar að því besta sem gerist i veröldinni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.1.2011 - 14:55 - 1 ummæli

Af túlkamálum fyrir dómstólum!

Mér varð aðeins á í messunni í gær þegar ég talaði um rétt útlendinga í dómskerfinu þegar kæmi að túlkamálum.  Dæmið sem vakti viðbrögð mín var af vettvangi sýslumanna en þeir eru hluti af framkvæmdavaldinu nú orðið eins og við eigum að vita.  Formaður Dómarafélags Íslands, Ólafur Ólafsson,  áminnti mig um þetta af sinni elskusemi og benti á að vel væri fyrir þessu séð í  lögum um meðferð einkamála  (10. gr. laga nr. 91/1991)og lögum um meðferð sakamála 12. gr. laga nr 88 frá 2008.) Í þessum greinum er skýrt kveðið á um túlkaþjónustu og fullyrti Ólafur að dómarar fylgdu þeim eftir af stakri samviskusemi.  Rétt skal vera rétt og stendur gagnrýnisbeinið því einkum að framkvæmdavaldinu, sýslumönnum, sem láta það greinilega viðgangast í einhverjum tilvikum að útlenskar konur viti ekki hvað þær eru að skrifa uppá og túlkar þeirra séu eiginmennirnir sem þær eru að skilja við. Í gagnrýni ECRI er einmitt tekið fram að hún beinist ekki að dómstólum eða heilsugæslu, en að flestum öðrum sviðum.

Eftir stendur óbreytt að íslenska löggjöf sem lýtur að máefnum þeirra sem hingað koma eða flytja er ekki með því besta sem þekkist þó að vissulega sé þar margt gott.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.1.2011 - 11:43 - Slökkt á athugasemdum við Verkefni: Aðlögun að því besta…

Verkefni: Aðlögun að því besta…

 Nú reka menn upp ramakvein yfir því að réttur útlendinga í dómskerfinu sé fyrir borð borinn hvað varðar túlkaþjónustu.  þetta hefur legið fyrir alla tíð. Réttur til túlkaþjíónustu er mjög takmarkaður hér á landi.  Eftirlitsnefnd Evrópuráðsins ECRI hefur bent á þetta í öllum skýrslum sínum, síðast 2007 með eftirfarandi ráðleggingu:
,,ECRI recommends that the Icelandic authorities ensure that persons withoutsufficient command of the Icelandic language have access to good quality interpretation in all circumstances where the exercise of their rights is at stake.“
Íslensk lög og íslenskar reglur er varða rétt innflytjenda og einnig  hælisleitenda og flóttamanna eru ekki alslæmar en ekki meðal þess besta sem þekkist í Evrópu og sjálfsagðar úrbætur vantar á mörgum sviðum.  þarna er verðugt verkefni fyrir velferðarstjórn.  það er svo sannarlega þörf á aðlögun að því sem best gerist á þessu sviði sem öðrum.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur