Þriðjudagur 30.11.2010 - 19:57 - 2 ummæli

G-8 hópurinn- Hvers konar guðfræði?

Anna Sigríður Pálsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sigrún Óskarsdóttir, Sigurður Árni Þórðarson og Sólveig Anna Bóasdóttir sem kalla sig G-8 hópinn rita eftirfarandi grein á trú.is

,,Það er mögulegt að ástunda guðfræði á ýmsa vegu og á mismunandi vettvangi. Guðfræði er til dæmis hægt að stunda í klausturgarði lengst úti í sveit. Það er líka hægt að iðka guðfræði á torgi fyrir framan dómkirkju í miðjum erli borgarinnar.

Guðfræði sem virðist ættuð úr einangrun klaustursins má finna í íhugunarverðum fyrirlestri sem fluttur var við setningu kirkjuþings fyrir skömmu. Fjallaði erindið um stöðu og hlutverk þjóðkirkjunnar í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins. Ávarp við þetta tækifæri hlýtur að tjá afstöðu kirkjustjórnarinnar að einhverju marki. Það vekur því athygli og verðskuldar greiningu. Hér verður þess freistað að rýna það út frá því sjónarhorni sem torgið skapar. Við, sem þetta skrifum, teljum okkur hafa tekið okkur stöðu þar m.a. í blaðagreinum sem við höfum birt á undanförnum misserum.

Ræðumaður virðist telja að þjóðkirkjan geti með nokkru stolti skoðað framlag sitt í aðdraganda og eftirleik Hrunsins. Þeirri skoðun til stuðnings segir hann að biskup hafi gagnrýnt græðgina en fengið bágt fyrir. Samtímis lítur fyrirlesarinn svo á að ræður presta hafi almennt snúist um veraldlegt réttlæti sem að hans mati tilheyri ekki hlutverki kirkjunnar.

Þarna er komið að átakalínu guðfræðinnar sem snýst um hvort prestar eigi að boða félagslegt réttlæti eða ekki. Með boðun félagslegs réttlætis telur ræðumaður kirkjuna hafa lent í siðrofi vegna þess að hún blandi sér í veraldlegan málaflokk þar sem hún geti lítið að gert. Þúsundir heimila muni hvort sem er verða gjaldþrota og skúrkar áfram ganga lausir. Hann telur boðun Krists ekki vera mannmiðlæga og kirkjan megi af þeim sökum ekki ala á því viðhorfi að manneskjan sé miðpunktur alheimsins. Hugtakið siðrof notar ræðumaður í svo óljósri og margbreytilegri merkingu að það verður að merkingarlausu mælskubragði. Þeirri hugmynd er að lokum varpað fram í fyrirlestrinum að rétt væri að gefa út almennt fræðslurit um hliðstæður og tengsl rita Biblíunnar við íslenska menningu. Því er til að svara að þau rit eru fjölmörg og fyrirfinnast á hinum ýmsu sviðum. Þau komu hvorki í veg fyrir hið svokallaða siðrof né bankahrunið. Þau munu heldur ekki vega þungt við lausn þeirra vandamála sem stjórnvöld standa frammi fyrir við að koma samfélaginu aftur  á réttan kjöl.

Röksemdarfærsla ræðumannsins virðist byggjast á alvarlegu rofi frá umhverfinu. Ætla mætti að hún hafi orðið til í lokuðum klausturgarði. Rökleiðslan er eins og blaut tuska í andlit þess kristna fólks sem er uggandi um hag þeirra sem verst eru sett og skynja í ysnum á torginu rödd frelsara síns sem segir: Hungraður var ég, … þyrstur … gestur … nakinn … sjúkur … og í fangelsi – og þér komuð til mín (Mt 25.35-37). „Kristur er í nánd“ segir ræðumaður en hvað merkir það? Hvað á kirkjan að gera þangað til?

Guðfræði af þessu tagi er ekki ný af nálinni. Hún byggist á því að greint er á milli himins og jarðar, efnis og anda, veraldlegs og trúarlegs sviðs. Slík guðfræði telur trúna, kirkjuna og guðfræðina eiga að einskorða sig við hið andlega, yfirnáttúrulega eða handanlæga.

Guðfræði torgsins hefur sömuleiðis tekið á sig margvíslegar myndir í tímans rás. Á síðari áratugum hefur hún einkum sagt til sín í guðfræði svartra, frelsunarguðfræði Suður-Ameríku og femínískri guðfræði. Þessi guðfræði gengur út frá því að Jesús var sannur maður um leið og hann birti okkur sannan Guð og hún vill vera undirbúin fyrir það að mæta honum meðal þeirra sem höllum fæti standa hvenær sem er og hvar sem er.

Fyrir rúmri öld héldu margir fram torgsguðfræði sem síðar var réttilega gagnrýnd fyrir að vera of mannmiðlæg. Hún hafði oftrú á möguleikum manneskjunnar til fullkomnunar. Þetta var bjartsýn og bláeyg guðfræði. Hún lokaði augum fyrir villimennsku og syndugu ástandi mannsins sem afhjúpaði sig í tveimur styrjöldum, háðum í miðpunkti hins menntaða heims á þeim tíma — Evrópu.  Í kjölfarið gekk guðfræði Vesturlanda í gegnum kreppu og uppgjör er hún vann úr þessari reynslu. Það sem einkum hefur endurnýjað guðfræði af þessu tagi og gefið henni nýjan trúverðugleika er hvernig hún greinir félagslegan veruleika og tekur sér stöðu með fátækum og smáum, þeim sem hafa mátt þola ofbeldi, þöggun og blekkingar. Slík guðfræði var vegin og léttvæg fundin við upphaf kirkjuþings.

Fagnaðarerindið fjallar um Orðið sem var Guð, en varð hold og bjó með oss, það er um Krist sem sannan Guð og sannan mann. Þessar tvær víddir verða að vera til staðar í öllu því sem ætlað er að efla Krist á meðal okkar, hvort sem um er að ræða bænir eða baráttu fyrir félagslegu réttlæti í ranglátum heimi.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.11.2010 - 17:26 - 1 ummæli

Viljum við tvær raðir?

Anna Sigríður Pálsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sigrún Óskarsdóttir, Sigurður Árni Þórðarson og Sólveig Anna Bóasdóttir rita eftirfarandi grein í Fréttablaðið í morgun.

,,Skammdegið færist yfir og skuggi Hrunsins hvílir enn yfir þjóð okkar. Allt bendir til að svo muni verða enn um hríð. Eins og útlitið er nú mun hátíð ljóssins ekki hrekja hann burt. Það er vaxandi fátækt í ríku landi! Þetta er þverstæða en engu að síður raunveruleiki. Það eru tvær raðir að myndast.

Önnur heldur uppi ímynd velmegunar en hin er raunveruleiki skugga, óhreinu börnin hennar Evu.

Á haustdögum hafa færri fengið Frostrósarmiða en vildu. Langar biðraðir mynduðust. Fólk vílaði ekki fyrir sér að standa í röð til að verða sér úti um glæsilega söngveislu með úrvals söngvurum þjóðarinnar.

Við heyrum að upppantað sé á jólahlaðborðin. Sem betur fer gengur lífið á Íslandi sinn vanagang.

Það hefur ekkert breyst, eða hvað? Jú, það er annað fólk í öðrum röðum.

Biðraðir upp á marga tugi metra eru hvarvetna þar sem sjálfboðaliðar útdeila mat. Viku eftir viku teygir biðröðin sig lengra og lengra út í kuldann.

Undarlega stutt er síðan þessi þjóð norður við heimskautsbaug gortaði af því að vera komin fram úr Norðurlöndunum á mælikvarða velmegunar.

Hugmyndafræðingar litu til Bandaríkjanna til að finna nógu glæsilegan samanburð.

Draumsýnin sem vonir stóðu til að rættist í almennum glæsileik varð ekki að veruleika. Nærtækara væri að tala um martröð frekari misskiptingar þar sem bláfátækir eru nú meðal okkar en einnig ofsaríkir. Þannig erum við líklega eftir allt saman eins og stórþjóðin í vestri. En ekki einu sinni þar fáum við að vera fremst meðal jafningja. Bandaríkin eru komin lengra en við í því að mæta fátæktinni með súpueldhúsum og matarmiðum. Okkar fólk stendur enn úti í kuldanum.

Jafnvel þótt tekist hafi að verja kaupmátt þeirra sem verst standa umfram hinna duga lægstu laun og bætur engan veginn fyrir nauðþurftum. Allt annað en laun og bætur hækkar. Við höfum glutrað niður því sem við vorum hvað stoltust af sem þjóð, nokkuð jöfnum hlut fólksins í landinu.

Á undanförnum áratugum var hér tiltölulega lítil misskipting. Þá horfðum við í forundran á andstæðurnar í Bretlandi og Bandaríkjunum og skildum ekkert í margföldum launamun. Nú erum við engu skárri. Auk þess höfum við orðið okkur til skammar í alþjóðasamfélaginu.

Það líður að jólum. Það er alltaf sárt að standa í biðröð eftir mat. Það er jafnvel enn erfiðara um jólaleytið. Það er kalt og dimmt. Stingurinn í brjóstinu meiri en á öðrum tíma ársins yfir því að geta ekki séð um sig og börnin sín eins og vert væri. Það er átakanlegt að verða vitnin að röðunum. Mótsögnin við friðar- og kærleiksboðskap jólanna er hrópandi. Við eigum ekki og megum ekki loka augunum fyrir vaxandi misskiptingu. Hvernig viljum við mæta framtíðinni? Er betra að vera í tveim röðum en einni?“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.11.2010 - 22:21 - 9 ummæli

Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda!

Stjórnarskrá Litháen er með uppfærðum mannréttindaákvæðum enda nýleg, frá1992. Ég hef satt að segja ekki kynnst þjóð sem leggur eins mikla áherslu á þjóðerni sitt og uppruna en þeir eru gáfaðri en Íslendingar og gengu í ESB 2004.  Gríska stjórnarskráin er ekki bara í Guðs nafni heldur í nafni föður, sonar og heilags anda.  Síðan er í mörgum greinum lýst yfir hollustu við Grísku Orthodoxu kirkjuna, hástöfum. Vinir mínir í Vantrú hefðu nóg að gera þar og ættu kannski að flytja sig.  Vinur minn grískur  segir litla óeiningu um þetta.  Ríkið þar greiðir prestum Orthodoxa laun án nokkurs jarðasamkomulags. Hjörtur Magni gæti rifið sig þar.

Ég er annars orðinn á móti einstaklingsframboðskosningum. Eftir því sem fleiri vinir mínir biðla til mín sekkur í  mig sektarkenndin yfir því  að þurfa eiginlega að bregðast öllum nema einum.  það munar víst mest um fyrsta sætið og raunar nokkuð um næsti þrjú.  Afbragðafólkið sem ég þekki og er í framboði skiptir hins vegar tugum.  Þess utan eru margir sem ég veit að eru vel gefnir, vel lesnir og bindindissamir.  Á ég að kjósa Hjalta Hugason vegna þess að hann er betur að sér en aðrir um samband og sambúð ríkis og kirkju auk þess að vera með svipaðan mannréttindaskilning og ég  Eða Arnfríði Guðmundsdóttir eða Örn Bárð Jónsson af því að það sama má segja um þau.  Eða á ég að kjósa Sigurð G. Tómasson af því að hann er svo skemmtilegur og gáfaður.  Erling Sigurðarson af því að hann er afburðamaður, Þorstein Gylfason, Pétur Björgvin, Sigurð Grétar pípara af því hann býr í Þorlákshöfn, Árna Kjartansson arkitekt sem er ö’rum rökvísari  eða Valgarð Guðjónsson af því að hann rökræðir við mig á síðunni minni, Soffíu Sigurðardóttur sunnlending,  Gísla Tryggvason eyjumann, Eirík Bergmann eða Friðrik Þór Guðmundsson sem er flottur í svona umræðu.  Og ég gleymi mörgum. Þið sjáið að þetta er ekkert grín.

Ég kem heim á laugardaginn og ætla að kjósa. Kannski leysist þetta ef vélinni seinkar. Annars er ég með tillögu að lausn. Að kjósa þann sem sækir mig til Keflavíkur.  Ekki myndi samviskubitið minnka við það.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.11.2010 - 13:29 - 14 ummæli

Orðsending til frambjóðenda!

Í skýrslu sinni um Ísland frá 13. febrúar 2007 beinir ECRI, sem er sú nefnd á vegum Evrópuráðsins sem berst gegn kynþátta­fordómum og kynþáttamisrétti, því til íslenskra stjórnvalda að þau styrki, geri skýrari, þau ákvæði stjórnarskrár sem vernda eða eiga að vernda fólk gegn kynþáttafordómum og kynþáttamismunun. Yfirvöld hér sýnist mér voru á því að 65. greinin veitti nægilega vernd gegn slíku, en það var þá. 65. greinin hljóðar svo: Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Allir virðast sammála um það nú að 65. greinin þurfi að vera miklu ítarlegri og koma framar í stjórnarskrána, jafnvel fremst. Og ég bið ykkur ágætu verðandi stjórnlagaþingmenn að vera óhrædd við að nota orðin kynþátta­fordómar og kynþáttamismunun (sem felur í sér uppruna, litarhátt og trú), ekki hræðast þau eða telja þau óþörf. ECRI vitnar til „general Policy Recommendation No. 7″ sem ég bið ykkur að kynna ykkur á vef Evrópuráðsins (http://.coe.int)(aths. rétt vefslóð í athugasemd 3 hér að neðan) þar má einnig sjá og lesa þau tilmæli sem ég vitna til og finna má í 3ju skýrslunni um Ísland.

Ég lofa því að íhuga það vandlega að mæra hvern þann sem sýnir þessu máli skilning og áhuga.

Þarna er ábending frá einni virtustu sérfræðinga­nefnd Evrópuráðsins. Íslendingar hafa hingað til ekki beinlínis hlaupið til vegna athugasemda að utan. En kannski er kominn tími til enda ábendingin í fullu samræmi við þá hugsun sem nú er uppi.

(greinin birtist í Fréttablaðinu í dag)(varðandi vefslóð) sjá athugasemf nr. 3 hér að neðan

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.11.2010 - 16:08 - 26 ummæli

Ósmekkleg kveðja frá fríkirkjupresti

Undirritaður er á Kirkjuþingi í fyrsta skipti.  Þar sitja 17 leikmenn og 12 prestar. Auk þess þrír biskupar án kosningaréttar.  Mörg ágæt mál eru á dagskrá. Kirkjan er að leggja niður prestsembætti, selja eignir, spara á öllum sviðum.  Kirkjan þarf/ætlar að spara 260 milljónir á tveimur árum. Fyrir árið 2011 er þetta 7,5%. Var um 10% niðurskurður  árið 2010.  Síðan eru mörg mál er snerta innra starf eins og gengur, fræðslustefna og annað slíkt.  Ósmekkleg kveðja frá fríkirkjupresti í Fréttablaðinu í morgun að kirkjan sé að verja úrelta stofnana og embættishagsmuni. Svona sleggudómar bera vott ókunnugleika og dómhörku. Þetta er langt frá því að slíkur andi svífi hér yfir vötnum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.11.2010 - 17:09 - 6 ummæli

Framleiðsla ,,samhljómunar“

Chomsky myndi segja að Lára Hanna færi út fyrir ramma hins viðurkennda og ynni því á móti markmiðum fjölmiðla og samfélags að kynna eina afstöðu, eina heimsmynd sem hina einu réttu.  Hlutverk miðlanna er með öðrum orðum skv. Chomsky að framleiða ,,consensus“ eða samhljóða álit.   Þar er í þágu þessa ómeðvitaða markmiðs að þaggað er niður í Láru Hönnu.  Átyllan er heiðarleg.  Fyrir utan það að inntak pistlanna stuðlaði ekki að ,,samhljóðun“ þá birti hun ritverk sín á smugunni.  Það er að bíta höfuðið af skömminni. Smugan og VG eru líka á mörkum hins viðurkennda í íslensku samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.11.2010 - 11:20 - 7 ummæli

Tekið ofan fyrir Jóni Bjarnasyni!

Ég verð að nota tækifærið og taka ofan fyrir meistara Jóni Bjarnasyni.  Með því að takmarka með reglugerð transfitusýrur í matvælum slær hann við sjálfu Evrópusambandinu í framsýni og regluverki.  Kannski hann sé eftir allt saman efni í Kommisar.  Án gamans.  Hvað með þingið? Hafa innflytjendur vöru og framleiðendur innlendir það sterk tök á þingmönnum að þeir hafa ekki þorað ekki að fara í fótspor Dana (Íslendingar hafa verið óhræddir að elta Dani með íhaldssamri innflytjendalöggjöf) og banna þennan óþvera sem sest í æðarnar, gerir mann þreyttan og að lokum dauðan. Siv Friðleifsdóttir er búinn að flytja tillögu þrisvar um þetta án árangurs. Sem sagt ónýtir  þingmenn nema Siv, en frábær Jón Bjarnason (að þessu sinni).

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.11.2010 - 20:00 - 3 ummæli

Talvélar í sjónvarpssal

Kastljósið sniðugt. Fyrst Jón Gnarr hikandi og viðurkennnandi vanmátt og svo næst tvær talvélar sem hika aldrei, humma aldrei, vita alltaf hvað þeir ætla að segja, vita allt, verður aldrei svara fátt, typískir íslenskir stjórnmálamenn, orðaflaumurinn takmarkalaus.  Ekki skal lítið gert úr þeim miklu vandamálum sem þeir félagar Steingrímur Sigfússon og Árni Sigfússon bæjarstjóri eru að fást við.  Við verðum og eigum að sjá til þess að allir hafi vinnu og þeir félagar vinna örugglega markvisst og heiðarlega að því, en hvort að árangurinn verður í samræmi við orðaflaum Kastljóssþáttarins á eftir að koma í ljós eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins bentu á  í dag. Sem gamall sveitarstjórnarmaður í Ölfusi hef ég kynnst að lítið getur verið að marka svona samstarfssamninga.  Það var að vísu milli Reykjavíkur og Ölfuss og ekkert varð úr neinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.11.2010 - 20:10 - 37 ummæli

Jón Gnarr frábær!

Það var lærdómsríkt að horfa á Jón Gnarr í Kasljósinu.  Venjulegur maður sem er borgarstjóri og er ekkert að þykjast vera eitthvað annað en hann er.  Ekkert málskrúð, ekkert lýðskrum. Rökréttur, hugsandi, vill vel.  Það er mikill léttir að gamli Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki ráða Reykjavík með andliti nýja Sjálfstæðisflokkins.  Hvernig væri að losna alveg við olíufélögin og gömlu valdaklíkurnar úr stjórnmálum.  Hafa bara nýtt fólk án gamalla bakhjarla.

P.s.  Og þetta auðvitað við um aðra flokka að breyttu breytanda sérstaklega Framsóknarflokkinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.11.2010 - 09:48 - 3 ummæli

Um vináttuna!

Vinátta er ,,stofnun“ í okkar samfélagi sem hefur farið svolítið á flakk.  Hugtakinu hefur verið stolið af peningavélum eins og facebook og raunar með almennri orðnotkun eins og ,,vinalína“ Rrauða Krossins.  Þá eiga hjón eiga að vera ,,vinir“ samkvæmt tískunni og um leið er hjónahugtakið sett á flakk.  Svo hefur vináttuhugtakið fengið á sig spillingarstimpil af því að menn misnota vináttuna með því að hlaða undir vini sína sem eru auðvitað ekki vinir heldur kunningjar eða lagsbræður.

Það er skaði að við skulum ekki hafa haldið vináttuhugtakinu eins og það t.d. notað í Njálu sem sambandi tveggja einstaklinga (þó hugsanlega geti þeir verið fleiri).  Sambandi sem er sérstakt. Samband sem er ekki hjónaband (það eru þau tengsl og geta alveg jafnast á við vináttu en getur aldrei verið það sama), ekki samband föður og sonar eða móður og dóttur eða kunningja á facebook heldur samband yfirleitt tveggja sem á sér djúpar rætur og þá yfirleitt ekki í gegnum blóðtengsl (það eru þau tengsl sem geta alveg jafnast á við vináttu en öðruvísi þó) og er virkt og nært og nær í sínu besta formi út yfir gröf og dauða.

Ég set hér neðanundir úr formála eftir sjálfan mig úr gamalli ritgerð um vináttu.  Hugtakið ,,friendship“ er þar tekið til kostanna og samsvarar að mínu viti hugtakinu ,,vinátta“ á  íslensku.

,,For Aristotle friendship is essentially for life.  ,,…..with  the exception of wisdom, no better thing has been given to man by the immortal gods“ Laelius states in Cicero’s,,De Amiticia.“ As part of our Greek cultural heritage the friendship of Orestes and Pylades becomes part of our socialization.  They were playmates in childhood, sworn comrades in youth, ever held each other dearer than life.  Pylades showed that this was more than an oral pledge. When Orestes was doomed to death he declared he was Orestes.  The most famous pair of friends in Greek litterature is Achilles and Patriculus.  They were educated together in boyhood.  They ran together in the chase, and fought side by side in many battle.  When Patroculus was slain the grief of Achilles was boundless.  After his own death their ashes were mingled.  The story of the warrior Gunnar and the wise man Njál  shows the author´s thoughtful understanding of friendship.  For example in the words: ,,Your gifts are good, but of still more worth to me is your friendship.“  Gifted thinkers of all times have given this relatoinship a considerable thought. Sometimes is friendship fashionable, sometimes it is the victim of people’s prejudices towards gay people.  But for most people friendship is just one of these indespensible parts of life you do not notice until it turns sour.  It is with friendship as with water.  You drink it, and as long as the water is not dirty you enjoy drinking it without giving it much thought.“

Góðan daginn!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur