Laugardagur 19.03.2011 - 11:02 - FB ummæli ()

Bætur fyrir glataða æsku ná ekki mánaðarlaunum skilanefndarmanns

Áratugum saman var einn svartasti bletturinn á íslensku samfélagi hvernig við höfðum farið með þau börn sem lentu af öllum mögulegum ástæðum á upptökuheimilum ríkisins.

Breiðuvík og fleiri stöðum.

Þar viðgekkst sannkallaður hryllingur, og við létum það viðgangast.

Þegar árið 1982 kom t.d. út bók þar sem viðbjóðnum í Breiðuvík var lýst í smáatriðum.

„Stattu þig strákur“ þar sem Sævar Ciecielski sagði sögu sína, en hann var einn þeirra sem þangað voru sendir.

En af því það var Sævar sem talaði – maður sem var úthrópaður morðingi af öllu íslenska kerfinu, og stimplaður sem slíkur af Hæstarétti – þá hlustaði enginn.

Skömm okkar allra verður lengi uppi.

Sjálfsagt verðum við nú að velkjast í biturri sjálfsskoðun árum saman yfir ýmsu sem uppá kom í „góðærinu“ og hruninu, en sannleikurinn er sá að það er léttvægt miðað við þá staðreynd að við fórum illa með börn.

Og hlustuðum svo ekki á veikburða tilraunir þeirra á fullorðinsárum til að segja sína sögu.

Bera hönd fyrir höfuð sér.

Biðja um líkn og réttlæti.

Fyrir nokkrum árum sprakk loksins Breiðuvíkursprengjan sem svo lengi hafði tifað í skuggunum í samfélagi okkar.

Við neyddumst til að horfast í augu við það sem við höfðum gert.

Og ég hélt að við hefðum skammast okkar.

Og viti menn, stjórnvöld virtust ætla að taka á sig rögg.

Búin var til ágæt skýrsla um Breiðuvík og önnur slík „heimili“.

Og boðaðar voru bætur sem börnin, sem þar máttu þjást, skyldu fá.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra virtist ætla að taka málið mjög alvarlega. Gott hjá henni!

Nefnd var skipuð til að útdeila bótum.

Hámarksbætur áttu að vera sex milljónir. Það virka ekki nein ósköp, en þeir sem þekkja til bótagreiðslna í samfélaginu töldu það þó bara viðunandi.

Gallinn var sá að nefndin bjó sér til eitthvert punktakerfi sem hún fór eftir þegar bætur til hvers og eins voru ákveðnar.

Og nú er nefndin búin að úthluta bótunum – og börnin í Breiðuvík hafa fengið enn eina blauta tusku framan í sig.

Enginn sem vitað er um hefur fengið hámarksbætur.

Flestir fá miklu miklu minna en þessar sex milljónir.

Þeir sem setið hafa í nefndum þeim sem um málið hafa fjallað fá hærri upphæðir en bæturnar sem flest vistheimilisbörnin fá.

Lögfræðingarnir maka sem sagt krókinn.

Aldrei þessu vant.

En þetta er ekkert gamanmál.

Þetta er satt að segja ömurleg svívirða, og ég ætla rétt að vona að Jóhanna Sigurðardóttir grípi snarlega í taumana.

Annars leggst heldur lítið fyrir hana.

Og þegar ég segi „snarlega“ þá meina ég strax. En hún láti málið hvorki framhjá sér fara né láti það velkjast í fleiri nefndum í fleiri misseri.

Hún verður hreinlega að gera eitthvað í málinu.

Að bætur fyrir glataða æsku séu lægri en laun lögfræðingsins sem reiknaði þær út, það gengur ekki.

Það gengur bara ekki.

Og að enginn fái hámarksbætur, það gengur ekki heldur.

Þessar sex milljónir.

Mánaðarlaun skilanefndarmanns.

Það eru nú öll ósköpin.

Og fyrir glataða æsku, og í mörgum tilfellum stórlega laskað líf.

Það gengur ekki.

Kreppa eða ekki kreppa, við förum ekki svona með börn.

Þó þau séu orðin fullvaxin og kunni kannski ekki öll að tala sínu máli.

Þetta gengur ekki.

Svo einfalt er það – ætla ég að vona.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!