Fimmtudagur 24.03.2011 - 11:17 - FB ummæli ()

Er Jóhanna Sigurðardóttir níðingur í jafnréttismálum?

Það er ekkert gamanmál að brjóta jafnréttislög.

Nei, fyrir utan ýmis bein hegningarlagabrot, þá finnst mér satt að segja fá lögbrot vera alvarlegri.

Helmingur mannkynsins hefur sætt margvíslegum órétti öldum saman, og það er svo brýnt að ráða á því bót, að ekki ber að taka af neinni léttúð á jafnréttislögunum, eða brotum á þeim.

Því er það auðvitað í meira lagi vandræðalegt þegar nefnd hefur nú úrskurðað að forsætisráðherra hafi brotið þessi jafnréttislög með skipan í embætti skrifstofustjóra í ráðuneytinu.

Forsætisráðherra á auðvitað að ganga á undan öðrum með góðu fordæmi.

Tala nú ekki um þegar forsætisráðherra kemur úr röðum Samfylkingar, flokks sem ævinlega hefur gefið sig út fyrir að vera sérlega jafnréttissinnaður – og ein af stoðunum í flokknum í upphafi var náttúrlega sjálfur Kvennalistinn.

Og tala nú heldur ekki um þegar viðkomandi forsætisráðherra er kona, og það kona sem alltaf hefur (já!) verið óþreytandi að tala máli jafnréttis og kvenréttinda – altso Jóhanna Sigurðardóttir.

Já, það er óhætt að segja að þetta sé vægast sagt vandræðalegt.

En ég verð samt að segja að það rís upp í mér réttlætiskenndin þegar ég verð vitni að sumum þeim árásum sem Jóhanna má nú sæta vegna málsins.

Tal um „húmbúkk“ og „hroka“ og „aumingjaskap“ finnst mér ansi harkalegt – fyrir nú utan að það kemur í sumum tilfellum úr hörðustu átt.

Lítum á málið.

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins rifjar upp í leiðara í dag viðbrögð Jóhönnu fyrir sjö árum þegar Björn Bjarnason skipaði karlmann í stöðu hæstaréttardómara, en einn umsækjenda, Hjördís Hákonardóttir, taldi á sér brotið.

Kærunefnd jafnréttismála tók undir sjónarmið Hjördísar en Björn gaf lítið fyrir úrskurð nefndarinnar.

Hann lýsti því yfir að jafnréttislögin hefðu verið „börn síns tíma“.

Þau voru þá reyndar fjögurra ára gömul!

Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýndi viðbrögð Björns Bjarnasonar harkalega og sagði að í öðrum löndum hefði ráðherra sem bryti „svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka“.

Og Ólafur Stephensen ritstjóri gefur til kynna að þar sem þessi tvö mál séu „að langflestu leyti sambærileg“.

Hjördís Hákonardóttir hafi verið dæmd „ívið hæfari en sá sem skipaður var“ í embætti hæstaréttardómara, en ekki fengið embættið, rétt eins og núna hafi ekki fengið starf skrifstofustjóra tiltekin kona sem dæmd var „að minnsta kosti jafn hæf“ og sá sem ráðinn var.

En ég verð að segja: Þarna þykir mér Ólafur Stephensen fara mjög frjálslega með staðreyndir.

Það mál sem hann er að rifja upp snýst um það hneyksli haustið 2003 þegar Björn Bjarnason skipaði náfrænda hins mikla leiðtoga Davíðs Oddssonar í Hæstarétt, Ólaf Börk Þorvaldsson.

Ólafur Börkur var, ef ég man rétt, allt í senn, yngstur og óreyndastur og ómenntaðastur og í alla staði ólíklegastur til að fá þetta virðingarstarf, enda kom skipan hans öllum í opna skjöldu – nema þeim sem voru hættir að láta stjórnarhætti á ofanverðum valdatíma hins mikla leiðtoga koma sér á óvart.

Og það er engan veginn rétt að Hjördís Hákonardóttir hafi verið metin „ívið hæfari“ en Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Þótt í umsögn Hæstaréttar, sem þá var látinn meta umsækjendur um stöður, kæmi fram að allir umsækjendur, þar á meðal Ólafur Börkur, væru út af fyrir sig hæfir til að gegna starfinu, þá fór ekki milli mála hver stóð hvurjum framar í einstökum atriðum.

Þeir Eiríkur Tómasson og Ragnar Hall voru metnir „heppilegastir“ eins og komist var að orði, en Hjördís Hákonardóttir fékk líka skínandi umsögn.

Hún hafði í farteski sínu mun betri námsárangur en Ólafur Börkur, sem ekki var meðal efstu manna í lagadeild á sínum tíma.

Hún hafði sinnt fræðastörfum á sviði lögfræði umfram aðra umsækjendur.

Hún hafði mest framhaldsnám allra umsækjenda.

Hún hafði verið dómari í 20 ár, Ólafur Börkur í 13.

Þetta heitir ekki að annar umsækjandi sé „ívið hæfari“ en hinn, Ólafur Stephensen. Þetta heitir að annar umsækjandi sé „miklu hæfari“ en hinn.

Og þeim mun alvarlegra var brot Björns Bjarnasonar því broti sem Jóhanna dæmist nú fyrir – því í hennar tilfelli var konan, sem kærði stöðuveitinguna, í besta falli útskurðuð jafn hæf og karlmaðurinn sem ráðinn var.

Reyndar taldi nefnd sem fór yfir umsóknirnar að karlinn væri öllum umsækjendum hæfastur, en konan í fimmta sæti, en um þau fínni blæbrigði veit ég svo sem ekkert. En það er þó að minnsta kosti ljóst að konan stóð karlinum ekki augljóslega framar, eins og þegar Hjördís Hákonardóttir stóð Ólafi Berki svo greinilega mun framar árið 2003.

Að þessu leyti eru málin 2003 og 2011 ekki nógu sambærileg.

Ég ítreka að brot á jafnréttislögum eru í sjálfu sér ævinlega alvarleg. En brot Jóhönnu er þó óneitanlega annars eðlis en brot Björns.

Ekki síst vegna þess að Björn tók sína ákvörðun einn og sjálfur. Hæstiréttur veitti að vísu umsögn, eins og áðan kom fram, en að öðru leyti var þetta geðþóttaákvörðun Björns Bjarnasonar.

Jóhanna setti hins vegar ráðninguna í ákveðinn farveg, með því að skipa sérstakan ráðgjafa sem átti að meta umsækjendur á algjörlega faglegan hátt.

Og hún fór svo eftir því sem ráðgjafinn lagði til.

Kannski var eitthvað brogað við starf þessa ráðgjafa. Ég veit það ekki.

Ég veit að ég ber reyndar alls ekki takmarkalausa virðingu fyrir „ráðgjöfum“ í „stjórnunarfræðum“.

En ég hef ekki kynnt mér starf þessa ráðgjafa af neinu viti.

Kannski hefði Jóhanna átt að rannsaka starf ráðgjafans í þaula, áður en hún fór að uppástungu hans, eða hennar. Ég veit það ekki heldur.

Ég veit það hins vegar að hér var greinilega ekki um að ræða lögbrot „af vondum hug“ eins og það heitir nú til dags.

Og ég verð að segja, að þó ég þekki Jóhönnu Sigurðardóttur ekki, og þótt mér þyki henni hafa verið um margt mislagðar hendur í landstjórninni undanfarin misseri, þá finnst mér hún ekki eiga skilið að vera nú allt í einu úthrópuð sem sérstakur níðingur í jafnréttismálum.

Við þurfum að gæta þess að alltaf og ævinlega sé unnið dyggilega að jafnréttismálum.

Það er sjálfsagt, æskilegt og reyndar lífsnauðsynlegt að ráða fleiri konur í stjórnunarstöður í embættismannakerfinu. Það er alveg á hreinu.

Ég veit ekkert hvernig á að leysa þetta mál núna.

En mér finnst ástæða til að brýna fyrir mönnum sanngirni. Það eru ekkert mjög margir stjórnmálamenn á Íslandi sem eiga að baki flekklausari feril í jafnréttisbaráttu en Jóhanna Sigurðardóttir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!