Föstudagur 25.03.2011 - 18:57 - FB ummæli ()

Burt með 17. júní!

Áður en endanlega var ákveðið að Alþingi ætlaði að skipa stjórnlagaráð, þá sá maður stundum hugleiðingar um hvað það yrði gaman ef hægt yrði með einhverjum hætti að afhenda þjóðinni nýja stjórnarskrá þann 17. júní.

Ég sá þetta bæði hjá stuðningsmönnum hinna 25 en líka hjá þeim sem vildu að alþingismenn drifu bara sjálfir í að smíða nýtt stjórnarskrárplagg.

Báðir hópar greinilega skotnir í að reyna að klára fyrir 17. júní.

Og maður nikkaði annars hugar og hugsaði: „Já, það væri nú gaman.“

En síðan fóru að renna á mig nokkrar grímur. Hefði virkilega einhver gaman af því?

Í fyrsta lagi held ég að það sé nú varla hægt. Jafnvel þótt stjórnlagaráð muni vafalítið vinna vel, þá er sennilega fullsnemmt að vera búið um miðjan júní. Ætli þetta taki ekki nokkrar vikur í viðbót.

En í öðru lagi, þá fór ég allt í einu að hugsa – af hverju 17. júní? Hefur sá dagur virkilega eitthvað það gildi fyrir okkur lengur, að það liggi í augum uppi fyrir alla Íslendinga hvað sé smart við að afhenda þjóðinni nýja stjórnarskrá þann 17. júní?

Ég er nefnilega hræddur um ekki.

Síðustu árin hefur 17. júní verið dagurinn þegar fólk hópast í bæinn til að kaupa frekar kaldar og hráslagalegar pylsur úr sölutjöldum í Austurstræti og Lækjargötu.

Dagurinn þegar lítil börn heimta og fá gasblöðrur í líki skrípakvikinda úr japönskum teiknimyndasögum.

Dagurinn þegar middle-of-the-road popphljómsveitir spila á Arnarhóli síðdegis.

Dagurinn þegar slatti af unglingsgreyjum kútveltist á ímyndunarfyllerí í miðbænum fram eftir kvöldi.

Það er ekkert – ég endurtek: ekkert – sem segir fólki hvaða dagur þetta er.

Eða hvað var merkilegt við hann.

Jú, þarna er athöfn þarna um morguninn, forsetinn og fjallkonan, en svo tekur hið algjöra tilgangsleysi völdin.

Af hverju erum við að hafa sérstakan frídag fyrir pulsur og pokémon?

Menningarnótt hefur tilgang. Við vitum til hvers hún er. Við erum að lofsyngja menninguna.

Það gengur kannski svona og svona, en við vitum það samt, og sú vissa gerir menningarnótt bara frekar viðkunnanlegt fyrirbæri.

Þrátt fyrir unglingafylleríið eftir flugeldasýninguna.

En til hvers er 17. júní?

Mér hefur lengi þótt þennan dag skorta tilgang, en nú á síðustu árum er tilgangsleysið orðið ærandi.

Sjálfsagt finnst einhverjum gaman niðrí bæ, einkum ungum krökkum, en TIL HVERS er þessi dagur?

Hvað segir hann okkur?

Af hverju er 17. júní ekki „dagur íslenskrar sögu“? Við höfum dag íslenskrar tungu, dag íslenskrar náttúru, og sitthvað fleira.

En aldrei skoðum við sögu okkar.

Því ekki að leggja 17. júní undir Íslandssöguna?

Skipuleggja skemmtiatriði og uppákomur með tilliti til þess. Það kemur margt til greina. Litlar sýningar hér og þar, leikarar sem dúkka upp í mannfjöldanum og setja á svið atriði úr Íslandssögunni.

Og svo framvegis. Hugmyndaríkt fólk hlýtur að geta látið sér detta margt sögulegt í hug.

Ég meina ekki einhvern þjóðernisbelging. Alls ekki.

En það er hægt að segja satt og vera skemmtilegur um leið.

Því þetta mætti allt vera mjög frjálslega gert. Ég er ekki að biðja um kennslustundir.

Heldur bara að það sé einhver tilgangur með þessum degi.

Einhver hugsun bak við það sem boðið er upp á.

Líka skemmtiatriðin.

Það hlýtur að vera hægt að búa til skemmtilegan dag fyrir fjölskyldur, dag fullan af fjöri, en segir þeim um leið eitthvað.

Eitthvað um það hvað er merkilegt við 17. júní og hvers vegna við höldum upp á þennan dag.

Og úr hvers konar sögu við erum sprottin.

Sonur minn ungur hefur litla hugmynd um það.

Jújú, hann kann sína Íslandssögu á við hvern annan 11 ára krakka annan, en hann fær aldrei tækifæri til að LIFA þá sögu.

Því ekki að veita honum tækifæri til þess á þjóðhátíðardaginn?

Burt með 17. júní eins og hann hefur verið praktíseraður!

Burt með þennan hátíðisdag pokémonanna!

Og inná með dag íslenskrar sögu!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!