Laugardagur 26.03.2011 - 15:10 - FB ummæli ()

Hræódýrar pólitískar keilur

Ég sé að fólk er enn að skemmta sér við að bera saman þann úrskurð að Jóhanna Sigurðardóttir hafi brotið í bága við jafnréttislög með skipan í embætti skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu annars vegar – og svo hins vegar þegar Björn Bjarnason skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson í embætti hæstaréttardómara.

Auðvitað hlaut góður skopmyndateiknari, eins og Halldór Baldursson, að grípa þessa gæs með bráðsniðugri mynd sinni í Fréttablaðinu – þar sem Jóhanna Sigurðardóttir lítur í spegil og sér Björn Bjarnason – en að öðru leyti hef ég lítinn húmor fyrir þessari samlíkingu.

Og kippi mér furðu mikið upp við hana, því mér finnst hún svo billeg.

Og ég var að vona að við ætluðum að selja okkur ögn dýrar í framtíðinni en hingað til.

Hvernig er það spilling eða atlaga að jafnrétti í landinu að skipa sérstakan ráðgjafa til að fara yfir og meta hæfni umsækjenda um tiltekna stöðu, og fara svo nákvæmlega eftir ráðum þessa ráðgjafa?

Ég kem því ekki alveg heim og saman.

Margt og mikið má gagnrýna Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkinguna fyrir, en þegar menn vilja bera saman annars vegar tilraun Jóhönnu til góðrar stjórnsýslu (þó vel hafi getað verið eitthvað verið athugavert við ráðgjöfina), og svo hins vegar t.d. einbeittan vilja Björns Bjarnasonar til að ráða lítt hæfan náfrænda leiðtoga síns í mikilvægasta starfið í dómskerfinu, þá eru menn að slá ódýrar pólitískar keilur.

Já, alveg hræódýrar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!