Laugardagur 26.03.2011 - 19:04 - FB ummæli ()

Stjórnlagaráðsjakki óskast!

Eins og vonandi kemur skýrt fram í grein sem ég skrifaði í helgarblað DV í gær, þá ætla ég að taka sæti í því stjórnlagaráði sem nú hefur verið samþykkt að halda eftir að Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosninguna.

Vissulega hefði ég helst kosið að kosið yrði upp á nýtt, en ég sé samt ekkert rangt við þá leið sem nú hefur verið farin.

Og það kom ekki til mála að hafna því að sitja í ráðinu.

Ég meina, af hverju í ósköpunum hefði ég átt að gera það?

Ég bauð mig fram til að taka þátt í því brýna verkefni að setja landinu nýja stjórnarskrá, og þjóðin reyndist treysta mér til þess verks.

Jú, jú, ég veit að kjörsókn var ekkert rosaleg. En þjóðin hafði valið, og þetta var hennar niðurstaða.

Ég tók henni þakklátur og bljúgur en líka spenntur í bragði.

Og þótt formleg umgjörð stjórnlagaþingsins hafi breyst og heiti nú stjórnlagaráð, þá erum við, sem þar munum sitja, við erum þar af því þjóðin treysti okkur til þess – og ekki út af neinu öðru.

Þingflokkarnir á Alþingi hefðu til dæmis seint valið mig til að setjast í stjórnarskrárnefnd.

Ég er þarna af því kosningin í haust fór eins og hún fór, og ég sæki umboð mitt til þjóðarinnar.

Púnditar hjá Agli eða í Kastljósi eða hvar sem er, þeir geta talað sig bleika um „veikt umboð“ stjórnlagaráðsins, en ég gef ekki hót fyrir það.

Við sem þar munum sitja gerum það í umboði þjóðarinnar, og ekki orð um það meir.

Og mér þætti allt að því klikkað ef ég færi að hafna tækifæri til taka þátt í því, sem ég bauð mig fram til að gera, og þjóðin treysti mér fyrir.

Ég ítreka: Af hverju ætti ég að gera það?

Af því Hæstiréttur leit svo á að formsatriðum hefði ekki verið fullnægt?

En ég og við sem vorum í framboði og vorum kosin, við gerðum ekkert rangt. Ekkert okkar svindlaði.

Og þjóðin gerði ekkert rangt.

Ekki svindlaði hún.

Svo hvað er vandamálið?

Það mætti kannski segja: Formsatriði verða að vera rétt. Rannsóknarskýrsla Alþingis sýndi greinilega fram á að það skorti sárlega formfestu í íslenska stjórnsýslu.

Og er þá ekki skrýtið að hefja verkefni, sem er ætlað að bæta íslenskt samfélag og stjórnsýslu, með því að skauta framhjá formsatriðum þeim sem Hæstiréttur hengdi hatt sinn á?

Ég held ekki.

Í fyrsta lagi má deila hart og lengi um það hvort verið sé að „sniðganga Hæstarétt“ eins og sumir segja, nánast með óttablik í augum, eins og rétturinn hafi nú verið óskeikull hingað til.

En í öðru lagi, þá hefur, jú, vissulega skort formfestu í íslenska stjórnsýslu gegnum tíðina.

En það hefur aldrei skort formfestu í íslenska lögfræði.

Þar hefur satt að segja ríkt formalisminn einn.

Og þetta er tvennt ólíkt.

Og ákvörðun Hæstaréttar er formalísk lögfræði, ekki formföst stjórnsýsla.

Ákvörðun Hæstaréttar sver sig í ætt við þá lögfræði sem hér hefur verið stunduð um aldir, og gerði að verkum að allra smásmugulegustu lagakrókapússararnir eins og Mála-Ólafur og Mála-Elliði þóttu bara helvíti pappírar í samfélaginu.

Menn sem með vogarstöngum formalismans voru sérfræðingar í velta steinum í hverja götu þar sem réttlætið var á ferð.

Það er í anda þeirra kumpána sem þeir réðust gegn stjórnlagaþinginu, Mála-Skafti og Mála-Jón. Steinar skyldu lagðir á vegferð stjórnlagabreytinga af því menn voru einfaldlega hugmyndafræðilega andsnúnir því að fólk úti í bæ fengi að koma nálægt svona mikilvægu verkefni.

Sem snerti völd þeirra sjálfra.

Svo einfalt er það, og þetta vitum við öll.

Jú, víst vitum við það öll!

Og þetta eigum við EKKI að láta yfir okkur ganga.

Ég vona að allir þeir sem kosnir voru til stjórnlagaþingsins taki þátt í hinu nýja ráði.

Ég lít reyndar svo á að þeim beri nánast skylda til þess að hjálpa til. Þeir voru jú kosnir til þess.

Sjálfur ætla ég að ganga til þess leiks ósár með öllu.

Ég hef engar áhyggjur af því þótt formalistarnir gnísti tönnum úti í hornum.

Ég er bæði stoltur og ánægður af því að fá að vera með. Ég meina, hversu oft á ævinni er sennilegt að maður fái raunverulegt tækifæri til að reka alvöru stoðir undir betra samfélag?!

Ég vona og trúi að fólk verði með okkur, og ég veit að við munum gera okkar besta.

Saman.

Og í góðri og náinni samvinnu við þjóðina sem kaus okkur, og þjóðina sem við eigum undir að sækja, og þjóðina sem við munum vinna fyrir.

Því við erum ekki að vinna fyrir Alþingi, þó afrakstur starfs okkar verði svo auðvitað ræddur þar.

Við verðum að vinna fyrir þjóðina, sem á annað og betra skilið en að lagakrókapússarar setji steina í götu hennar.

Ef við skilum góðu verki, þá vinnum við sigur, og „umboðið“ mun þá litlu skipta.

Þetta verður kannski erfitt, en þó er ég ekkert svo viss um það.

Því ég held að þetta verði svo skemmtilegt líka.

Ég sé í fljótu bragði aðeins einn meinbug á þessu öllu saman.

Ég á líklega engan jakka til að vera í á fundum ráðsins.

En strax á mánudaginn, þá fer ég út í búð og ræð bót á því.

Eftir það blasa engin vandamál við.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!