Maður heyrir við hverjar einustu alþingiskosningar að þær séu gríðarlega mikilvægar fyrir land og þjóð.
Oft hefur nú samt reynst skipta litlu hvernig fer í alþingiskosningum.
En þjóðaratkvæðagreiðslan nú skiptir mjög miklu máli, því er ekki að neita.
Því hvet ég alla til að drífa sig á kjörstað.
Ef mjög mjótt verður á munum, þá munu menn sjá eftir því að hafa ekki skundað á kjörstað.
Sjálfur fór ég áðan og kaus í Ráðhúsinu í Reykjavík.
Ég setti kross við „já“ af ég held að það hafi í för með sér mun öruggari framtíð.
Ég er orðinn svo þreyttur á því að samfélagið rambi misserum saman á barmi hengiflugs, og þjóðin rífist þar og skammist fram í rauðan dauðann, í stað þess að koma sér af brúninni.
Ég ber virðingu fyrir flestum nei-mönnum og veit að þeir vilja þjóð sinni vel.
Og ég skil prinsip þeirra.
En ég held að nú sé mikilvægara að koma samfélaginu í gang aftur, en halda í prinsipin.
Sér í lagi vegna þess að það er ekkert alveg öruggt að þau standist skoðun.
Eða réttarhöld.
Já, ég held það sé affarasælla að hverfa af brúninni og fara að vinna.

Illugi Jökulsson
