Sunnudagur 10.04.2011 - 16:48 - FB ummæli ()

Þá er til einhvers unnið

Mikið væri nú frábært ef Icesave væri endanlega að fjúka út í veður og vind með vindhviðunum sem lemja nú utan hús í Reykjavík.

En svo gott er það nú ekki.

Við munum sitja uppi með málið enn um sinn.

Af því sem gerst hefur, af því eigum við að draga lærdóm, hvert fyrir sig. Bæði stjórnarherrar af öllu tagi og við almenningur líka.

Því nú eigum við öll hlut að þessu máli.

Ég veit ekki hvort það er of seint að biðja þjóðina enn einu sinni að snúa bökum saman; það hefur gengið svo dæmalaust illa til þessa.

En það er það eina sem við getum gert.

Sameinast um þá niðurstöðu sem kom upp úr kjörkössunum.

Og vona það besta.

Ég vona innilega að þessi niðurstaða reynist hafa verið sú rétta.

En hitt verðum við að íhuga, hvernig heiftin og sundrungin voru í þann veginn að taka öll völd í hugum alltof margra fyrir þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er ekki það sem lýðræðið gengur út á – að svívirða þá sem eru andstæðrar skoðunar.

Við þurfum að læra okkar lexíu hvað það varðar líka.

Því þjóðaratkvæðagreiðslum mun áreiðanlega fjölga á næstu árum og áratugum, þótt vart verði það framar um mál eins og Icesave.

Og fólk þarf að læra að takast á án þess að tala eins og það vilji helst bíta hvert annað á barkann.

Ef okkur tekst að sameina lýðræði og rósemi hugans, þá verður til einhvers unnið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!