Föstudagur 22.04.2011 - 21:03 - FB ummæli ()

Hvað maður er glámskyggn …

Ég var í Prag um páskana 1988.

Það var stórmerkilegt og vitaskuld gaman að koma þangað, en maður hafði samt á tilfinningunni að fólkinu liði illa.

Eins og það lifði undir fargi.

Kona ein, sem við íslenskir ferðalangar töluðum við, sagði okkur að hún bæri engar vonir í brjósti um framtíðina.

Jú – austur í Sovétríkjunum hafði Mikhaíl Gorbasjov létt aðeins á kúguninni, en það mundi áreiðanlega ekki ná til Tékkóslóvakíu.

Hér mun aldrei neitt breytast, sagði konan.

Aðeins rúmu ári síðar var allt breytt.

Gjörsamlega og endanlega breytt.

Um páskana í fyrra var ég í Sýrlandi.

Þar hafði maður ekki á tilfinningunni að fólkinu liði illa.

Það var auðvitað margt skrýtið.

Endalausar myndir af forsetanum út um allt.

En nei, ég skynjaði ekki að fólkinu liði illa.

Ég skynjaði ekki að það hvíldi á því farg.

Ekki eins og í Prag forðum.

Auðvitað var ég samt bara túristi.

En núna, réttu ári seinna – þá virðist allt vera að breytast í Sýrlandi.

Það er verið að drepa fólk í hrönnum.

Forsetinn, sem brosti svo fagurlega ofan af plakötum á fjölbýlishúsum, torgum og jafnvel fjallshlíðum, hann sigar hernum og lögreglunni á fólk sem vill um frjálst höfuð strjúka.

Já, það er furðulegt hvað hlutirnir geta breyst hratt – og hvað maður er glámskyggn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!