Mánudagur 02.05.2011 - 06:33 - FB ummæli ()

Óvinurinn sem Vesturlönd óskuðu eftir

Það hefur náttúrlega ekki beinlínis verið eðlilegt að þótt tíu ár séu að verða liðin frá árásunum 11. september, þá skuli Usama bin Laden alltaf hafa gengið laus.

Að hið mikla herveldi Bandaríkin hafi getað gert innrásir í Afganistan og Írak með 11. september að átyllu, og velt þar um stjórnvöldum, svo ekki sé nú minnst á annað sem fylgdi í kjölfarið, en aldrei skuli hafa tekist að ná í skottið á Usama.

Aldeilis makalaust.

Og maður fór smátt og smátt að vera til í að trúa nánast hverju sem er.

Var til dæmis öruggt að þessi Usama bin Laden hefði yfirleitt einhvern tíma verið til?

Eða var hann bara tilbúningur einhvers sem hafði lesið yfir sig um Gula skuggann í Bob Moran-bókunum í æsku?!

Nú virðist hann vera dauður.

Illt er að segja til um hver arfleifð Usama verður í framtíðinni.

Verður hann einhvers konar hetja í Arabaheiminum, eða einhverjum afkimum hans?

Ég held alla vega að það sé 100 prósent öruggt að menn muni komast að því að sú gríðarlega hætta sem talin hefur verið stafa af Al Kaída samtökunum hefur verið stórkostlega ýkt.

Enda er svona rétt á mörkunum að hægt sé að tala um að Al Kaída hafi yfirleitt verið til – sem heildstæð samtök.

Og staða Usama sem síplottandi kóngulóar í vef hins illa … ég veit það ekki.

Hann stóð vissulega fyrir viðurstyggilegum óhæfuverkum – bæði hryðjuverkum á Vesturlöndum, og valdaskeiði hinna ótrúlegu grimmu Talíbana í Afganistan.

En að sumu leyti var hann óvinurinn sem Vesturlönd óskuðu eftir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!