Föstudagur 13.05.2011 - 11:53 - FB ummæli ()

Inná með stjórnmálatengslin – út af með kynþáttinn!!

Við í A-nefndinni í stjórnlagaráðinu sendum í gær frá okkur uppkast að fyrstu greinunum í nýjum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Við erum ekki að finna upp hjólið – sumt er tekið nokkuð beint upp úr gömlu stjórnarskránni, en annað styðst flest við ákvæði í öðrum stjórnarskrám og/eða alþjóðasáttmálum.

Hérna má á vef stjórnlagaráðs finna þessar greinar, og jafnframt upphaf á umræðu um þær.

Það skal tekið mjög skýrt fram að við lítum alls ekki svo á að hér sé um endanlegan texta að ræða, heldur er þetta þvert á móti lagt fram svo fólk geti skoðað þetta, tjáð sig um það og stungið upp á breytingum.

Mjög fróðlegar umræður hafa þegar skapast um þessar greinar, og gagnlegar ábendingar komið fram. Fara má ýmsar leiðir til þess – taka þátt í umræðum á vef stjórnlagaráðsins, senda okkur tölvupóst (mitt netfang er illugi.jokulsson@stjornlagarad.is) o.fl.

Ef fólk verður vart við merkilegar umræður um mál sem að þessu lúta, t.d. á bloggsíðum eða jafnvel Facebook, þá væri gott að senda okkur ábendingar um slíkt.

Margt má sjálfsagt um okkur segja, en við erum í rauninni öll af vilja gerð að eiga í samræðu við þjóðina, taka við ábendingum og fara eftir þeim!

En þótt flest í þessum texta eigi sér fyrirmyndir, þá leggjum við nú samt sitt af hverju til málanna sjálf, og eftir að tillögur okkar voru lagðar fram á ráðsfundi í gær, þá hélt ég svolitla tölu þar sem ég vakti athygli á tvennu af því tagi.

Sú ræða fylgir hér á eftir. Orðalagið hefur verið snurfusað pínulítið á stöku stað, en merkingu þó hvergi hliðrað til.

Á einum stað er viðbót, nokkrar línur sem ég hljóp yfir í gær, af því ég var farinn að hafa áhyggjur af því að ræðan væri orðin alltof löng!

Þetta eru tvær málsgreinar rétt í lokin – frá „Gildi orðsins í þessari upptalningu …“ og til „…vegna stjórnmálatengsla og klíkuskapar.“

En svona var ræðan sem sagt að öðru leyti:

Ágætu félagar.

Mig langar að vekja sérstaka athygli á tveimur atriðum í þeirri grein sem geymir hina svokölluðu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þar sem er að finna upptalninguna á þeim atriðum sem sérstaklega er tekið fram að ekki megi verða tilefni mismununar.

Hún hljóðar í okkar tillögu svo:

„Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Svona persónulega má ég kannski láta þess getið að ég var mjög eindregið einn þeirra sem vildu sleppa allri slíkri upptalningu. Ég vildi láta nægja að segja: Allir eru jafnir fyrir lögum, punktur.

Ég vildi meira að segja helst geta sleppt því að taka fram að konur og karlar skyldu vera jöfn.

En um þetta fóru fram mjög ítarlegar umræður í A-nefndinni, og það sjónarmið varð ofan á – sem líka er fylgt í flestöllum stjórnarskrám heims, held ég, og í alþjóðasáttmálum – að því miður væri ennþá þörf á að tilgreina atriði af þessu tagi.

Lengra værum við einfaldlega ekki á veg komin.

Og mér er því ljúft og skylt að bakka með mitt persónulega álit, og styð niðurstöðu minnar nefndar af heilu hjarta.

Og þá langar mig sem sagt að vekja athygli á því annars vegar að við höfum tekið “kynþáttinn” út úr upptalningunni.

Því þar stóð áður að bannað væri að mismuna fólki á grundvelli „kynþáttar“.

Og þessi breyting finnst mér dálítið merkileg.

Fólk af minni kynslóð og þaðan af eldra lærði í skóla að kynþættir mannsins væru þrír – hvítir menn, svartir og gulir – og svo voru fáeinar undirdeildir, Indíánar, Eskimótar, Ástralíunegrar, sem svo hétu svo skemmtilega.

Svo var hægt að greina þetta ennþá nákvæmar, niðrí Germani, Gyðinga, Araba, og svo framvegis og svo framvegis.

Tilvist þessara meintu kynþátta var talin vísindaleg staðreynd, og menn fóru að byggja á þessu allskonar rakalaust rugl og þvælu um „ólíka eiginleika kynþáttanna“, og þegar verst lét, þá reistu menn á kynþáttahugmyndum ægilega fordóma og frömdu viðurstyggilega glæpi.

En sem betur fer hefur nú verið afsannað vísindalega að kynþættirnir séu yfirleitt til – þeir eru tilbúningur og þjóðsaga, og mismunur á útliti manna og menningu stafar ekki af ólíkum „kynþáttum“ þeirra.

Þjóðsagan um kynþættina er hins vegar svo lífsseig að orðið “kynþáttur” heldur enn velli í fjölmörgum stjórnarskrám og alþjóðasáttmálum, sem eru jafnvel að öðru leyti til fyrirmyndar, og það er mér því sérstakt gleðiefni að geta lagt mitt af mörkum til að þessu orði sé útrýmt úr íslensku stjórnarskránni.

Við eigum að vísa því út í ystu myrkur, enda lýsir það fyrirbæri sem aldrei hefur verið til.

Og það er rétt að taka fram að þótt þetta úrelta orð sé tekið út, þá getur það aldrei orðið til þess að réttlæta megi einhvers konar samblástur gegn útlendingum – við höfum nóg af öðrum ákvæðum til að sporna gegn slíku.

Hitt atriðið sem mig langar að vekja athygli á snýst eiginlega um þveröfugt mál.

Það er ekki ímyndað atriði sem hefur samt þvælst inní stjórnarskrána, heldur er það raunverulegt atriði, og mjög fyrirferðarmikið í okkar samfélagi, sem samt hefur aldrei verið minnst á í okkar stjórnarskrá – en það eru stjórnmálatengslin.

Við leggjum sem sé til að það verði sett í stjórnarskrá að bannað sé að mismuna mönnum á grundvelli stjórnmálatengsla.

Þetta er að sumu leyti mjög róttæk tillaga, því við höfum hvergi fundið nákvæmlega þetta orðalag í erlendum stjórnarskrám í þessu sambandi.

Stjórnmálatengsl eru hér þýðing á enska hugtakinu “political affiliation”, og þó það sé allvíða lagt bann við að mismuna fólki á grundvelli “stjórnmálaskoðana” (eða “political opnions”) þá er það auðvitað ekki nákvæmlega það sama.

Af hverju viljum við þá hafa þetta svona?

Jú – það er mjög einfalt. Þegar við litum yfir sögu Íslands síðustu áratugina og jafnvel lengur, og líka allt fram á þennan dag, þá blasti hvarvetna við okkur sami vandinn.

Spilling og klíkuskapur á grundvelli stjórnmálatengsla.

Það er auðvelt að sýna fram að fátt eða ekkert hefur valdið íslensku samfélagi meiri skaða en þau vinnubrögð sem stjórnmálamenn okkar hafa stundað í krafti sinna stjórnmálatengsla.

Lesið Rannsóknarskýrslu Alþingis, lesið bækur um íslenska sögu síðustu öldina, lesið blöðin frá því í morgun.

Alls staðar má sjá spor stjórnmálatengslanna, klíkuskaparins, spillingarinnar.

Þetta hafa allir stjórnmálaflokkar á Íslandi stundað, þeir sem komist hafa að kjötkötlunum, af því þetta hafa verið talin eðlileg vinnubrögð – það hefur verið talið eðlilegt herfang þeirra sem vinna kosningar að makka með embætti, sporslur og þess háttar fyrir sína pólitísku vini.

Það var sagt hér á fundi fyrir viku: Við eigum ekki að skrifa stjórnarskrá í reiði.

Það er alveg rétt. Enda er ég ekkert reiður út af þessu.

Ekki lengur.

En ég neita að taka þátt í því að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland þar sem ekki má bregðast við þeim helstu göllum, sem þjakað hafa samfélag okkar svo lengi.

Það gladdi mig því mjög í gær þegar formaður okkar, Salvör Nordal, tók til máls á fundi þar sem önnur nefnd var að ræða önnur mál – þetta var lokaður fundur en ég vona að mér leyfist að vitna til orða hennar, enda var um að ræða almenna athugasemd og mjög viturlega, en Salvör sagði efnislega eitthvað mjög á þessa leið:

“Einbeitum okkur að því að finna hvað hefur verið að, hvar hefur stjórnarskráin okkar verið broguð, hverju hefur hún ekki tekið á, og lögum það.”

Það er einmitt þetta sem við í A-nefndinni erum að gera með því að banna mismunun vegna stjórnmálatengsla.

Þarna er vitaskuld átt við bæði jákvæða og neikvæða mismunun ef svo má segja – það er sem sagt bannað að hygla þeim sem hafa tengsl við ráðandi stjórnmálaöfl, en það er líka bannað að láta menn gjalda þess ef þeir hafa slík tengsl EKKI.

Það kynni að hvarfla að sumum að hér væri nóg að tala um “stjórnmálaskoðanir” eins og gert er í ýmsum öðrum stjórnarskrám, en ekki brydda upp á nýmælinu “stjórnmálatengslum”.

Það sé óþarfi að koma með eitthvað nýtt, það sé varasamt, eigum við ekki bara að hafa þetta eins og það hefur alltaf verið?

En orðin “stjórnmálaskoðanir” og “stjórnmálatengsl” þýða náttúrlega ekki það sama. Menn geta fengið margvíslega og mjög óeðlilega fyrirgreiðslu hjá pólitískum ráðamönnum út á allskonar klíkuskap, án þess að það þurfi endilega að snerta beinar pólitískar skoðanir manna – og því viljum við hafa orðið svona.

Og við lítum svo á að við, sem hér erum komin, verðum að hafa hugrekki til að taka á því sem að er, og laga það – eins og formaður vor sagði.

Við viljum að þetta orð standi þarna í stjórnarskránni stjórnmálamönnum framtíðarinnar til áminningar um að við viljum ekki meira af klíkuskap og spillingu, og að við höfum hugrekki til að fara nýjar slóðir til að hreinsa til í samfélaginu.

Gildi orðsins í þessari upptalningu felst ekki fyrst og fremst í því að með því sé spornað við lagasetningu sem geri mismun vegna stjórnmálatengsla heimila.

Heldur er orðinu fremur ætlað að vera hvatning, yfirlýsing og áminning um að setja lög og reglur og þróa hefðir og heilbrigð vinnubrögð sem sporni gegn slíkri mismunun vegna stjórnmálatengsla og klíkuskapar.

Og við viljum að þegar menn fara næst að endurskoða stjórnarskrána, eftir 30, 40 eða 50 ár, þá rekist menn á þetta orð stjórnmálatengsl og segi sem svo:

“Æjá, það var nú víst því miður rík ástæða fyrir því að það þurfti að taka þetta fram á sínum tíma. Það hafði verið illilega pottur brotinn á þessu sviði. En stjórnlagaráðið 2011, og þjóðin að baki þess, þau höfðu í sameiningu hugrekki til að greina vandann, og til þess að benda á leiðir til að leysa hann.“

Þau höfðu hugrekki.

Þetta held ég sé lykilsetningin í sambandi við stjórnmálatengslin.

Við verðum að hafa hugrekki til að ráðast gegn þeim og uppræta þau.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!