Sunnudagur 15.05.2011 - 10:59 - FB ummæli ()

Við unnum Evróvísíon – af því við erum Aserar!

Eins og kunnugt er, þá vann Aserbædjan Evróvísíon keppnina að þessu sinni, sem er sjálfsagt bara ágætt, því enga þjóð langar líklega meira til að vinna þessa keppni – ef við Íslendingar erum undanskildir.

Skemmtilegra hefði vissulega verið ef Aserar hefðu teflt fram einhverju úr sínum eigin auðuga tónlistararfi, en ekki þessu steingelda sænska poppi, en það verður að hafa það.

Mig langar hins vegar að gleðja svolítið þá, sem kunna að vera súrir í bragði yfir því hve við Íslendingar vorum langt að baki sigurvegurunum Aserum – og Svíum, sem áttu ekki aðeins sigurlagið, heldur urðu líka sjálfir í 3. sæti í keppninni.

Sannleikurinn er nefnilega sá að við Íslendingar erum frá Aserbædjan – og erum þaðan komnir með viðkomu í Svíþjóð.

Þannig að við getum vel litið svo á að við höfum unnið að minnsta kosti tvöfaldan sigur í gær.

Í Heimskringlu Snorra Sturlusonar segir á þessa leið:

„Fyrir austan Tanakvísl í Asíu var kallað Ásaland eða Ásaheimur en höfuðborgin, er í var landinu, kölluðu þeir Ásgarð. En í borginni var höfðingi sá er Óðinn var kallaður. Þar var blótstaður mikill.“

Nánari lýsing á staðháttum þar sem Ásar eða Æsir voru upprunnir sýnir að Snorri virðist telja að um sé að ræða svæði við Svartahaf. Sá góði maður Thor Heyerdahl hefur hins vegar varpað fram þeirri kenningu að átt sé við Aserbædjan við Kaspíhafið.

Það má vel fyrirgefa Snorra að hafa ruglast á Svartahafinu og Kaspíhafinu.

Hirði ég ekki um að rekja kenningu Heyerdahls í öllum smáatriðum að þessu sinni.

Staðnaðir forpokaðir fræðimenn vildu lítið með þessa kenningu hans gera, en við hlustum ekki á það!

Þetta er nefnilega fín kenning!

Hún gengur í mjög stórum dráttum út á að þjóðflokkurinn Æsir hafi flust frá Aserbædjan fyrir margt löngu.

Æsir (hinir gömlu guðir okkar) og Aser í nafni landsins sé augljóslega sama orðið.

Æsir fluttust norður á bóginn og enduðu í Svíþjóð.

Þetta er í sjálfu sér enginn tilbúningur í Heyerdahl. Þetta er allt samviskusamlega rakið í Ynglingasögu í upphafi Heimskringlu – að breyttu breytanda.

Sjá hér.

Á leiðinni urðu sögur um forna höfðingja, Óðin og félaga, að þjóðsögum um yfirnáttúrulegar hetjur og að lokum að goðsögum, þar sem Óðinn var orðinn æðsti guð þjóðarinnar, og öll hans fjölskylda að undirguðum.

Frá Svíþjóð dreifðust „Æsir“ eða Aserar svo um Norðurlönd og hluti þeirra fluttist á endanum til Íslands.

Liggur þetta þá ekki allt ljóst fyrir?

VIÐ unnum Evróvísíon að þessu sinni, bæði í hinni gömlu mynd okkar sem Aserar og einnig sem Svíar.

Og ætli sé ekki grynnra á Aseranum í okkur en margir halda?

Og ætli við getum ekki gert tilkall til einhvers af allri olíunni í Bakú, fyrst ekkert virðist vera að finna á Drekasvæðinu?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!