Laugardagur 28.05.2011 - 16:44 - FB ummæli ()

Er Davíð Oddsson Færeyjar?

Með vafranum Chrome fylgir sjálfvirkt þýðingarforrit sem ég veit ekki hvað heitir, en það getur þýtt á sekúndubroti allar íslenskar vefsíður yfir á ensku.

Yfirleitt er þýðingin bara furðu góð, miðað við hversu skamman tíma þetta tekur, og að minnsta kosti miðað við ýmis eldri þýðingarforrit sem finna mátti á netinu.

Blæbrigðin fara fyrir lítið, og stundum er þýðingin reyndar ærið vafasöm, en oftastnær þá er þráðurinn í þýðingunni svona nokkurn veginn réttur.

Maður sér að minnsta kosti um hvað er verið að skrifa.

Ég geri það stundum mér til skemmtunar að smella á þýðinguna til að sjá hvernig íslenskur nettexti – ýmist minn eigin eða annarra – lítur út í þessari sjálfvirku ensku þýðingu.

Af rælni lét ég Chrome til dæmis áðan þýða þennan pistil sem ég skrifaði fyrr í dag um afsökunarbeiðni Össurar Skarphéðinssonar til Falun Gong.

Og þar gat þá að lýsa þessa setningu:

„I think I have rarely embarrassed as much for being Icelandic and the Faroe Islands and spoke about Falun Gong received the men who were nothing but a terrible human rights abuses.“

Ha? Mig rak í rogastans. Þetta var augljóslega setningin þar sem ég sagðist sjaldan hafa skammast mín jafn mikið fyrir að vera Íslendingur og þegar tekið var á móti Falun Gong með mannréttindabrotum og offorsi árið 2002.

En hvað voru Færeyjar að gera þarna?

Ég minntist þess ekki að hafa getið neitt um Færeyjar í þessu sambandi.

Ég gáði því á upprunalega íslenska textann minn.

Þar var setningin svona:

„Ég held ég hafi sjaldan skammast mín jafn mikið fyrir að vera Íslendingur og þegar Davíð Oddsson mælti fyrir um móttökur Falun Gong manna, sem voru ekkert annað en skelfileg mannréttindabrot.“

Jahérna. Vélin hafði greinilega þýtt nafn Davíðs Oddssonar sem „the Faroe Islands“.

Margt hefur Davíð vafalítið verið kallaður um ævina. En hann hefur líklega aldrei verið nefndur Færeyjar áður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!