Laugardagur 28.05.2011 - 09:51 - FB ummæli ()

Mikil og stór arnarfjöður

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fær stóra og mikla arnarfjöður í hattinn fyrir að hafa brugðist snöggt og afdráttarlaust við beiðni um að hann bæðist, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, afsökunar á því að hvernig íslenskt stjórnvöld komu fram við Falun Gong fólk árið 2002, þegar Kínaforseti kom í heimsókn.

Sjá hér.

Ég held ég hafi sjaldan skammast mín jafn mikið fyrir að vera Íslendingur og þegar Davíð Oddsson mælti fyrir um móttökur Falun Gong manna, sem voru ekkert annað en skelfileg mannréttindabrot.

Og það gerðu fleiri – sjá hér.

Og þetta snerist ekki bara um skömm, heldur líka um vinnubrögð. Það var með mestu ólíkindum að það skyldi hafa hvarflað að íslensku þjóðinni að trúa fyrrnefndum ráðamanni fyrir nokkru starfi eftir þá svívirðilegu og skammarlegu valdníðslu sem hann sýndi af sér í þessu máli.

Það var svo erfitt að horfa upp á þetta á sínum tíma að mér datt í hug að birta opinberlega prívat afsökunarbeiðni til Falun Gong, þar sem við sem skömmuðumst okkar fyrir þetta bæðumst einfaldlega afsökunar á framferði stjórnvalda okkar.

Hrafn bróðir minn gekk í málið og auglýsingin varð að veruleika á rúmum sólarhring, með góðra manna hjálp. Fjöldi manns skrifaði undir, af öllum stigum, á öllum aldri, úr öllum stjórnmálaflokkum.

Mestum tíðindum sætti að Hannes Hólmsteinn Gissurarson einkavinur Davíðs skrifaði undir. Það fannst mér og finnst enn gott hjá Hannesi.

Hann fékk náttúrlega bágt fyrir hjá meistara sínum, en söm var hans gjörð.

Nú hefur Össur sem sé beðist afsökunar fyrir hönd stjórnvalda, og það var mjög gott hjá honum hvað sú afsökunarbeiðni var algjörlega fyrirvaralaus.

Gott, mjög gott.

Manni líður aðeins betur vegna þessa ömurlega máls.

Hér er auglýsingin okkar Hrafns.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!