Fimmtudagur 26.05.2011 - 18:07 - FB ummæli ()

Hvað finnst ykkur?

Ég sit í A-nefnd stjórnlagaráðs og við höfum verið að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Þar er vitaskuld fjallað um mörg þau grunngildi sem við höfum og viljum reisa samfélag okkar á, og þetta er því gríðarlega ábyrgðarþrungið starf.

Mannréttindakaflinn í núverandi stjórnarskrá er tiltölulega nýr og mun betri smíð en margt annað í stjórnarskránni, en hugmyndafræðin sem hann byggir á er samt hálfrar aldar gömul eða þar um bil, og því full þörf á að endurskoða ýmislegt og setja inn nýmæli annars staðar.

Ég held að okkur hafi tekist bara nokkuð vel hingað til. Ég trúi því að endurskoðun okkar sé mjög til bóta, en hún er vandlega byggð á alþjóðasáttmálum og hugmyndum sem verið hafa á kreiki um hríð, og svo erindum og ábendingum sem okkur hafa borist –

Ég hvet fólk til að fara inn á stjórnlagarad.is og kynna sér hugmyndir okkar, og senda okkur sem mest af viðbrögðum, hver sem þau kunna að vera.

Það má þetta stjórnlagaráð eiga að það er beinlínis í að fá viðbrögð og skoðanir almennings á störfum sínum, og er allt af vilja gert að taka tillit til þess. Vitanlega getum við ekki farið eftir öllu, enda yrði stjórnarskráin þá ansi löng og mótsagnakennd, en allar ábendingar eru sem sagt vel þegnar.

Nýmæli okkar í A-nefndinni felast líklega helst í greinum um umhverfis- og auðlindamál, og um félagsleg réttindi, og það væri gaman að fá sem mest af póstum þar að lútandi áður en við afgreiðum þær greinar inn í svokallað áfangaskjal í næstu viku.

Áfangaskjalið felur þó alls ekki í sér að textinn sé fráfenginn, langt frá því. En sé textinn kominn þangað er hann að minnsta kosti á leiðinni inn í þann lokatexta sem við sendum frá okkur á endanum – þótt enn geti hann tekið breytingum, og þess vegna miklum breytingum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!