Miðvikudagur 08.06.2011 - 17:42 - FB ummæli ()

Hver er í stofufangelsi?

Ég ætla enn að stilla mig um að hafa mikla skoðun á réttarhöldunum gegn Geir Haarde.

Vissulega er skrýtið að sjá hann sitja þarna einan og svara til saka.

En þegar ég byrja að vorkenna Geir, þá rifjast jafnharðan upp fyrir mér spurningin sem ég varpaði fram í gær: Til hvers í ósköpunum að hafa lög um ráðherraábyrgð ef þau mega ekki gilda um algjört efnahagshrun sem orðið hefur á vakt tiltekins ráðherra?

Væri þá ekki bara betra að sleppa þá allri tilgerð þar að lútandi?

Setja bara í lög og helst stjórnarskrá: Ráðherrar bera aldrei ábyrgð á neinu.

Viljiði það?

Athugið að ég er ekki að krefjast þess að Geir Haarde verði dæmdur sekur. Það er alls ekki mitt hlutverk að segja til um það.

Þaðan af síður er ég að krefjast þess að hann verði dæmdur til refsingar.

En ég á bara óskaplega erfitt með þá tilhugsun að fólki skuli þykja eitthvað ægilega rangt við að ráðherra kunni að þurfa að standa fyrir máli sínu.

Það á að vera sjálfsagt mál.

Og mér finnst eitthvað í meira lagi kyndugt við að sjá einhverja þeirra sem rétt sluppu við ákæru tromma nú upp Geir til stuðnings – í þeirri afstöðu að hann ætti ekki að þurfa að bera neina ábyrgð.

Þar kvikna einhverjar siðferðisspurningar sem ég nenni ekki að hugsa til enda.

En þó ég ætli sem sagt ekki að hafa mikla skoðun á þessu máli í sjálfu sér, þá langar mig þó að segja tvennt.

Í fyrsta lagi: Að það skuli eiga að ganga í hús til að safna fyrir málsvörn Geirs, það hlýtur að vera einhver óvenjulega kaldrifjaður brandari.

Ég vona að ég þurfi ekki að útskýra það nánar.

Og í öðru lagi: Ég er ekki alveg sáttur við hvernig Geir hagar vörn sinni í fjölmiðlum. Af því mér er persónulega vel við Geir, eins og ég held að öllum sé, þá langar mig að ráðleggja honum að taka annan pól í hæðina, heldur en þessa vandlega hönnuðu framgöngu og framkomu sem hann hefur birt okkur síðustu daga, og ber öll merki rándýrra PR-manna.

(Og það er billegt af fjölmiðlum að ganga allir skælbrosandi innum dyr PR-mannsins þar sem þessi nýi Geir bíður … nema reyndar DV sem skrifar gagnrýnið um málið í dag.)

Alveg sérstaklega kunni ég illa við það þegar Geir fór að barma sér (ég kann ekki annað orð yfir það) yfir því í Kastljósi í gærkvöldi að hann hefði nánast setið í stofufangelsi síðan ákæran var gefin út fyrir tæpu ári síðan.

Góði Geir!

Eitt máttu vita.

Stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur setið í stofufangelsi á Stóra-Hruni undanfarin tæp þrjú ár.

Og þó nokkur hluti þjóðarinnar er ekkert á leiðinni að losna þaðan í bráð.

Mun jafnvel sitja þar töluvert lengur en þú munt vera fyrir Landsdómi.

Og ástæðurnar eru hrunið sem þú og félagar þínir og samherjar og skoðanabræður í pólitík og viðskiptum áttuð sök á.

Svo góði Geir … gættu þín á hvernig þú talar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!