Miðvikudagur 15.06.2011 - 17:00 - FB ummæli ()

Hvorki fugl né fiskur

Nú eru þau tvö, biskupsmálin, sem kirkjan þarf að takast á við.

Hið nýrra snýst um Karl Sigurbjörnsson og ótrúleg viðbrögð hans þegar Guðrún Ebba steig fram.

Hvernig kona (formaður Prestafélagsins) getur komist að þeirri niðurstöðu að þau viðbrögð hafi verið svona meira og minna í lagi, það veit ég ekki og langar ekki að vita.

En hið fyrra biskupsmál snerist um Sigrúnu Pálínu og fleiri konur sem komu fram árið 1996 og sökuðu Ólaf Skúlason um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Kirkjan hrökk í vörn fyrir biskup sinn, og kirkjuráð sendi frá sér yfirlýsingu þar sem það kallaði vitnisburð kvennanna „alvarlega atlögu að æru hans og heiðri kirkjunnar þjóna“ og vottaði „biskupi Íslands og fjölskyldu hans dýpstu samúð og kærleika“, auk þess sem því var sérstaklega lýst yfir að honum væri treyst til að leiða málið til lykta „kirkju og þjóð til heilla og blessunar“!!!!

Ég hef orð séra Geir Waage fyrir því í skýrslu rannsóknarnefndar kirkjunnar að þetta hafi Karl Sigurbjörnsson skrifað, og það vantar ekki að þarna er mjög skýrt tekið til orða.

En síðan virðist Karl hafa glatað þeim hæfileika að tala skýrt.

Hann sér að minnsta kosti ekki ástæðu til að gera það þegar málið snýst um ávirðingar biskupa, bæði Ólafs Skúlasonar og hans sjálfs.

Og í skýrslunni segir hann um ofangreindan texta kirkjuráðs frá 1996 – nú þegar hefur tekist að neyða hann til að viðurkenna að þetta hafi verið mistök, því sjálfur átti hann EKKERT frumkvæði að því – en í skýrslunni segir hann sem sagt:

„Jú, þetta var bara kannski hvorki fugl né fiskur. Ég veit ekki hvað maður á að segja um það. Við vorum undir svona ákveðinni pressu þar.“

„Var bara kannski … ég veit ekki hvað maður á að segja um það … undir svona ákveðinni pressu …“

Ojá.

Jesúa frá Nasaret var undir svona ákveðinni pressu líka á sínum tíma.

En ég veit ekki hvað maður á að segja um það …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!