Föstudagur 17.06.2011 - 09:48 - FB ummæli ()

Hinir notuðu kuflar hrunverjanna

Ég er ekki í þjóðkirkjunni.

Ég tel mig samt hafa fullt leyfi til að hafa skoðun á henni, og hvernig þar er á málum haldið.

Bæði er kirkjan á snærum ríkisins, og svo vill hún hafa kennivald yfir samfélaginu öllu – og þá fylgir því líka að hver sem er má og á að hafa skoðun á málefnum hennar, og sér í lagi á þeirri siðferðilegu forystu sem hún vill veita í samfélaginu.

Eftir hrunið – þegar við horfðum í forundran upp á stjórnmálamenn, bissnissmenn og bankamenn stökkva fram og hrópa: „Ég gerði ekkert rangt og ef ég gerði eitthvað rangt þá var það bara algjört smotterí og hverju mundi það breyta þó ég segði af mér og við eigum ekki að einblína á hið liðna heldur reyna að læra af mistökunum og byggja upp til framtíðar og ég er einmitt maðurinn til þess og auk þess gerði ég náttúrlega eiginlega ekkert af mér …“

Þegar við sem sagt horfðum upp á þetta, þá átti ég ekki von á að sama viðhorfið yrði talið jafn gott og gilt aðeins þrem árum seinna, og það hjá stofnun sem telur sig hafa sérstöku siðferðilegu hlutverki að gegna.

Og flestir þjónar þeirrar stofnunar þegðu þunnu hljóði.

Ekki alveg allir samt.

Sigríður Guðmarsdóttir hefur hvatt biskup Íslands til að segja af sér.

Og nú Örn Bárður Jónsson í þessari skeleggu grein.

Frumkvæði þeirra, og fáeinna annarra kirkjunnar þjóna, er mikilvægt og gott.

En hlutskipti hinna, sem nú sveipa sig notuðum kuflum hinna ábyrgðarlausu hrunverja, það er þeim mun dapurlegra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!