Föstudagur 17.06.2011 - 14:40 - FB ummæli ()

Það er til heiti yfir það

Stundum er lífið flókið, stundum alveg óskaplega einfalt.

Stundum er erfitt að segja hvernig maður myndi bregðast við í tilteknum aðstæðum, en stundum liggur það í augum uppi.

Ég á til dæmis oftast ansi erfitt með að setja mig í spor helstu hrunverja landsins og hvernig þeir hugsa nú sinn gang, hver í sínu horn.

En í tilfelli Halldórs J. Kristjánssonar og hundrað milljónanna sem hann fékk frá Landsbankanum tíu dögum fyrir hrun, þá get ég fullyrt alveg afdráttarlaust að ég myndi skila þeim peningum.

Það er ekki af því ég þykist vera neitt betri en einhverjir aðrir, eða hafa meiri og þroskaðri sómatilfinningu.

Ég er ekki einu sinni viss um að sómatilfinningin réði endilega úrslitum um að ég myndi skila þessum 100 milljónum.

Og kannski ekki heiðarleiki heldur. Ég er alveg örugglega ekkert heiðarlegri en gengur og gerist.

Heldur væri það sektarkenndin sem vægi þyngst.

Ég myndi ekki ráða við hana.

Sektarkenndin yfir að halda peningum, sem maður á svo augljóslega ekki skilið.

Sektarkennd yfir að taka 100 milljónir frá banka sem maður hefur komið á hausinn og samfélagi sem maður hefur átt þátt í að koma á kaldan klaka.

Kannski er Halldór J. Kristjánsson ekkert endilega sammála því að hann hafi komið bankanum á hausinn, eða að hann og Landsbankinn hafi komið Íslandi á kaldan klaka.

Hann getur haft sína skoðun á því, en staðreyndir tala sínu máli.

Bankinn óx brjálæðislega hratt meðan hann var bankastjóri.

Hann hindraði ekki útrásarvíkinga í að fara með ryksugur sínar um bankann.

Og hann átti fullan þátt í vexti og viðgangi hinnar „tæru snilldar“ Sigurjóns kollega hans – þá er ég að tala um Icesave-reikningana.

Hann getur fjasað fram í rauðan dauðann um að hann beri ekki ábyrgð á neinu af þessu. Þeir geta það, þessir.

Við hans aðstæður myndi ég samt ekki ráða við sektarkenndina.

Andspænis minni hrjáðu þjóð.

Og því myndi ég skila þessum peningum.

En Halldór hefur kannski enga sektarkennd.

Þá það. Það hafa ekkert allir. Það er meira að segja til heiti yfir það þegar menn hafa engan vott af sektarkennd.

En svo mikið er alla vega ljóst að Halldór hefur þá ekki sómatilfinningu heldur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!