Föstudagur 01.07.2011 - 14:29 - FB ummæli ()

Friðhelgi náttúrunnar

Stjórnlagaráð hefur lagt fram tillögur að ákvæðum um náttúru og auðlindir Íslands.

Þar segir á einum stað að náttúra Íslands sé friðhelg.

Sjálfsagt munu ýmsir misskilja þau orð, og sumir jafnvel gera sér leik að því að misskilja þau.

Og túlka þau þannig að bannað sé að nýta náttúruna, eða hreyfa við henni á nokkurn hátt.

Sú er að sjálfsögðu ekki raunin, enda er strax í næstu málsgreinum farið að tala um hvernig skuli nýta náttúruna.

Orðið „friðhelg“ þýðir að virða beri náttúruna sérstaklega, en alls ekki að bannað sé að nýta hana.

Þótt þetta verði samþykkt, þá verður eftir sem áður fullkomlega heimilt að reisa vegi, girðingastaura og jafnvel stórar vatnsaflsvirkjanir!

Orðið þýðir bara að verndun náttúrunnar skuli sett einni eða tveimur skörum hærra héðan í frá en hingað til.

En enginn þarf að vera hræddur við orðið „friðhelg“.

Í stjórnarskrá segir líka að eignarrétturinn sé friðhelgur – en samt má takmarka hann á ýmsan hátt og setja honum skorður.

Þannig er náttúran líka friðhelg – en samt má nýta hana, ef það er gert á vitrænan hátt, með verndun að leiðarljósi og sjálfbærni.

Mannréttindi eru líka friðhelg – en þau má líka takmarka á marga lund, ef nauðsyn krefur.

Svo orðin um að náttúran sé friðhelg þýðir aðeins að við ætlum að snúa við því blaði að leika megi náttúruna hvernig sem hver vill í gróðaskyni – en alls ekki að við ætlum að hætta að nýta hana.

Þó nú ekki; við lifum jú á henni, og erum hluti hennar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!