Sunnudagur 03.07.2011 - 15:44 - FB ummæli ()

Töff?

Þegar ég sá um Helgar-Tímann í gamla daga man ég að við skrifuðum langa forsíðugrein um Jim Morrison.

Hvernig skyldu gömlu bændurnir sem enn voru tryggustu lesendur Tímans hafa tekið henni?

Ég held svei mér þá að við Egill Helgason sem unnum saman á þessu helgarblaði höfum aldrei einu sinni hugleitt hvað lesendum kynni að þykja um það sem við vorum að gera.

En þá fannst okkur vera voða langt síðan Jim Morrison dó. Þó voru það þá ekki nema 11 ár.

Í dag eru liðin 40 ár síðan hann dó.

Á sínum tíma þótti eitthvað rómantískt við rokkstjörnurnar sem dóu ungar, en Jim Morrison var 27 ára þegar hann dó.

Ég vona að mér hafi aldrei þótt það í raun og veru.

Það er náttúrlega voðalega lítið rómantískt við að kafna í eigin ælu dauðadrukkinn.

Á unglingsárum hlustaði ég mikið á Morrison og hljómsveit hans, The Doors. Svo hafa komið löng tímabil þar sem mér hefur leiðst þessi músík – en það verður að játast að það er þarna einhver skemmtilegur neisti.

Og Morrison var eftirtektarverður söngvari og performer.

Svo var hann skáld. Hann var vissulega ekkert mjög merkilegt skáld, en hann var skáld samt, og í textum hans bregður fyrir dramatískum og sterkum frösum.

Þeir þýða ekkert alltaf neitt sérstakt, held ég, en sumir þeirra eru … ja, töff. Það er ekkert hægt að orða það öðruvísi.

Ég man ævinlega þegar ég heyrði í Doors í fyrsta sinn. Ég var að fletta plötum í Faco í Hafnarstræti, og fann þar tveggja platna safn með Doors: Weird Scenes Inside the Gold Mine.

Þetta var svona 1975, aðeins nokkrum árum eftir að Morrison dó, sem varð auðvitað banabiti hljómsveitarinnar.

En samt var platan eins og hún kæmi úr öðrum heimi.

Ég vissi að þessi hljómsveit hafði verið til, en þekkti hana að öðru leyti ekki. En af því mér fannst umslag plötunnar flott, þá keypti ég hana og fór með hana heim á Drafnarstíg og setti hana á fóninn í herberginu mínu sem var þá grænmálað og fóninn var af gerðinni Sansui og það lag sem náði mér fyrst var þetta hér:

The Wasp: Texas Radio and the Big Beat.

Svei mér ef þetta er ekki svolítið töff enn í dag.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!