Laugardagur 16.07.2011 - 10:44 - FB ummæli ()

Enginn fær allt sem hann (eða hún) vill

Ég ætla að endurbirta hérna eina almenna athugasemd sem ég gerði sjálfur í umræðum við bloggfærslu mína um nýju stjórnarskrárdrögin, sem ég birti hér í nótt.

Þar hafa þegar komið fram mjög gagnlegar umræður og ábendingar og ég vona að svo verði áfram.

En þegar í athugasemd var spurt hvort þetta væri ekki bara einhver moðsuða, þá svaraði ég þessu – og finnst ástæða til að vekja á því athygli:

Enginn – og til dæmis ekki ég sjálfur – mun fá nákvæmlega þá stjórnarskrá sem hann eða hún hefði helst kosið.

Ég vona að fólk átti sig á því.

En í öllum bænum farið ekki sjálfkrafa að líta svo á að þótt í þessu plaggi séu málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða, og hitt og þetta sé ekki eins og menn hefðu helst kosið, þá sé það sjálfkrafa einhver „moðsuða“.

Yfirleitt eru sjónarmið þeirra sem hafa aðra skoðun en ég, alveg nákvæmlega jafn rétthá og mín!

Það er þess vegna bara okkar sómi að ná málamiðlun milli skoðana, en það er ekki „moðsuða“.

Þetta þýðir þó auðvitað ekki að hvaða málamiðlun sem er, sé æskileg og góð.

Fjarri því. Og á það legg ég áherslu.

En í þessu plaggi finnst mér að við höfum bæði náð góðu samkomulagi milli ólíkra sjónarmiða – og líka náð fram mjög mikilvægum umbótum sem munu bæta þjóðfélagið stórlega.

Ég vona að það sé rétt hjá mér. Ég vona líka að fólk skoði plaggið opnum huga og fari ekki að tala um óhóflegar málamiðlanir, strax og það sér eitthvað sem það er ekki 100 prósent sammála.

Enginn verður 100 prósent ánægður með þetta plagg.

Í því er til dæmis ýmislegt öðruvísi en ég hefði helst kosið.

En það getur verið gott fyrir því.

Meira að segja mjög gott.

Ég held að þetta sé í rauninni gott plagg. Og ég vona að áhugi í samfélaginu og uppbyggilegar athugasemdir hjálpi okkur þessar síðustu vikur að gera það enn betra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!