Sunnudagur 17.07.2011 - 12:48 - FB ummæli ()

Opið bréf til Ögmundar

Heill og sæll Ögmundur.

Og til lukku með nýju brúna.

Þetta var glæsileg frammistaða hjá þínum mönnum.

Og án þess að ég ætli nú að fara að leggjast í þjóðernisbelging á efri árum, þá mætti jafnvel hvíslast á um að þessi eldsnögga brúarsmíð sýndi hvers Íslendingar eru megnugir þegar þeir taka sig til.

En ekki alltaf þó.

Í áratugi höfum við beðið eftir því að sá smánarblettur sem Guðmundar- og Geirfinnsmál eru verði þvegin af íslensku samfélagi.

Því miður tókst ekki að hrinda því í framkvæmd áður en sá ódeigi baráttumaður Sævar Ciesielski féll frá.

En það er algjörlega ástæðulaust að bíða lengur.

Það væri reyndar hneyksli að bíða lengur.

Og hneyksli viljum við ekki hafa, Ögmundur.

Höfum við ekki fengið nóg af slíku?

Árið 1997 hafnaði Hæstiréttur kröfu Sævars um endurupptöku málsins.

Það var hneisa, eins og allir góðir menn hljóta að sjá sem glugga í málsskjölin.

En þá skrifaði Hrafn bróðir minn í tímaritið Mannlíf:

„Fyrir þremur öldum tók það Jón Hreggviðsson 32 ár að fá sig sýknaðan af Hæstarétti Danmerkur fyrir morð á Sigurði böðli Snorrasyni. Nú eru 23 ár síðan Geirfinnur hvarf og við höfum því enn níu ár til að sanna að kvörn réttlætisins snúist ekki hægar en á myrkustu öldum Íslandssögunnar.“

Síðan Hrafn skrifaði þetta eru liðin 14 ár.

Við erum því miður þegar búin að sýna að réttlætið tók skemmri tíma fyrir Jón Hreggviðsson á sautjándu öld en Sævar Ciesielski á okkar dögum.

Það er okkar skömm.

Bæði mín og þín skömm, Ögmundur.

En nú höfum við sýnt hvað við getum.

Lögfræðingar þínir eru varla ódeigari en vegagerðarmennirnir.

Ræstu þá út, Ögmundur, og ljúkum málinu!

Með bestu kveðju, Illugi Jökulsson

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!