Þriðjudagur 23.08.2011 - 07:47 - FB ummæli ()

Allt upp á nýtt

Gott hjá Guðmundi Steingrímssyni að ganga úr Framsóknarflokknum og stofna nýjan flokk.

Fólk sem ekki hefur fundið hugsjónum sínum eða skoðunum farveg innan hins aldraða íslenska flokkakerfis á hiklaust að finna pólitík sinni nýjan farveg.

Það lýsir hvorki sviksemi né vingulshætti.

Allir íslensku flokkarnir ættu að klofna þvers og kruss. Þeir eru myndaðir um hugsjónir 20. aldar en eru nú margir orðnir að trénuðum valdabandalögum.

Endilega hugsa hlutina upp á nýtt!

Guðmundur kom líka prýðilega fyrir í þeim hluta Kastljóssviðtalsins í gærkvöldi sem ég sá.

Einkum fannst mér gaman að sjá hve upplitsdjarfur Guðmundur var þegar hann lýsti þeirri skoðun sinni að auðvitað eigi að fylgja aðildarumsókn að ESB eftir til enda – svo fólk geti síðan greitt atkvæði um þetta mikla hagsmunamál þegar þar að kemur.

Stuðningsmenn aðildarumsóknar hafa látið andstæðingana buga sig svolítið undanfarið, svo það hefur næstum orðið feimnismál að vilja að íslenskir kjósendur fái að vita í raun hvað stendur til boða innan ESB.

Því við fáum ekki að vita það í raun fyrr en aðildarviðræðum er lokið.

Það dugar ekki að lesa Morgunblaðið eða íslenskt blogg.

Auðvitað eiga stjórnmálamenn að kappkosta að Íslendingar nái sem bestum samningum, og þjóðin ákveði svo hvort sá samningur er henni að skapi.

Það var gott hjá Guðmundi að halda þessu fram af festu.

Vonandi getum við bráðlega lagt á hilluna fráleitar hugmyndir um að draga aðildarumsóknina til baka, leyft samninganefndinni að keppast við að ná sem bestum samningi – og farið svo að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem vægi allra Íslendinga verður jafnt.

En umfram allt – þá er bara gott hjá Guðmundi að brjóta sér leið út úr íslensku flokkakerfi.

Þar þarf að sortéra allt upp á nýtt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!