Mánudagur 22.08.2011 - 09:33 - FB ummæli ()

Samkeppniseftirlit á villigötum?

Ég var að lesa um daginn grein sem Guðmundur Andri Thorsson birti í Fréttablaðinu um málarekstur samkeppnisyfirvalda gegn Forlaginu, en Samkeppniseftirlitið sektaði bókaútgáfufyrirtækið um 25 milljónir króna fyrir meint brot á samkeppnislögum.

Þessi grein kom mér á óvart því ég hafði satt að segja talið að þessi málarekstur Samkeppniseftirlitsins hefði lognast út af. En svo virðist altso ekki vera.

Forlagið hefur innan sinna vébanda JPV, Mál og menningu, Vöku Helgafell og einhver fleiri undirfyrirtæki í bókaútgáfu. (Ekki spyrja mig af hverju öll þessi undirfyrirtæki eru ekki sameinuð í eitt.)

Samkeppniseftirlitið sektaði Forlagið fyrir að gefa út svokölluð „leiðbeinandi verð“ til smásöluaðila í bóksölu og auk þess fyrir að hafa „ekki á óyggjandi hátt sýnt fram á að afslættir til endursöluaðila hafi byggt á útreikningum um kostnaðarhagræði fyrir útgáfuna“. Ekki veit ég hvað þetta síðara atriði þýðir.

Raunverulegur grundvöllur fyrir þeirri sekt sem Samkeppniseftirlitið útdeildi er hins vegar sú skoðun þess að Forlagið sé mjög markaðsráðandi aðili á íslenskum bókamarkaði, og hafi brotið gegn samkomulagi sem gert var þegar eftirlitið heimilaði árið 2008 með semingi sameiningu þeirra fyrirtækja sem nú mynda Forlagið.

Nú er Forlagið vissulega stórveldi á íslenskum bókamarkaði. Það mun þó hvergi nærri vera svo markaðsráðandi sem Samkeppniseftirlitið vill vera láta – og bókaútgáfa á Íslandi er reyndar kannski það svið í íslenskum fyrirtækjarekstri þar sem virk og hörð samkeppni er hvað mest.

Það er lítill vandi fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn. Auðvitað þurfa þeir að hafa upp á að bjóða bækur sem fólk vill lesa, en markaðurinn sjálfur stendur öllum opinn og fátt um erfiðar hindranir.

Samkeppniseftirlitið hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna, og vonandi nær það að finna fjölina sína, eins og sagt er á íþróttamáli. Það vafðist lengi fyrir því – og gerir að sumu leyti enn.

Af hverju gengur til dæmis ekkert að koma á eðlilegri samkeppni í bensínsölubransanum?

Hvaða grín er það að olíufyrirtækin þykist vera í ógurlegri samkeppni þar sem veittir eru „afslættir“ upp á 2-3 krónur af bensínlítranum þegar best lætur?

Það gera 1-2 prósent!

Í bókaútgáfu viðgengst hins vegar raunveruleg samkeppni, og á því sviði eru til dæmis veittir alvöru afslættir, jafnvel upp á tugi prósenta, lesendum til hagsbóta.

Því finnst mér eiginlega að Samkeppniseftirlitið ætti að hætta þessum málarekstri gegn Forlaginu og leyfa fyrirtækinu að setja þessar 25 milljónir í að gefa út fáeinar góðar bækur til viðbótar. Því þótt forráðamenn Forlagsins séu auðvitað ekki heilagir menn, þá mega þeir eiga að þar á bæ virðist mestallur peningur sem inn kemur fara í að gefa út fleiri og betri bækur.

Ég vil frekar fleiri bækur, en að Samkeppniseftirlitið bregði fæti fyrir fyrirtæki á markaði þar sem samkeppni ríkir í raun og veru.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!