Mánudagur 29.08.2011 - 15:12 - FB ummæli ()

Oní skúffu?

Guðmundur Andri skrifar eina af sínum fínu mánudagsgreinum í Fréttablaðið í dag.

Hana er að finna hér og svo segir Eyjan svona frá henni.

Sem meðlimur í stjórnlagaráði hef ég líka áhyggjur af því að sumir þingmenn vilji helst þegja stjórnarskrárfrumvarpið okkar í hel.

Fyrst og fremst af því þeir geta ekki horfst í augu við að „fólki úti í bæ“ hafi tekist það sem þeim hefur mistekist áratugum saman.

Og það væri synd ef þeim tækist það, því þó ég segi sjálfur frá, þá eru í stjórnarskrárfrumvarpinu margar stórmerkilegar nýjungar sem munu geta mjakað samfélagi okkar til betri vegar.

Enda held ég mér sé óhætt að segja að þeim sem gagnrýna stjórnarskrárfrumvarpið hafi þrátt fyrir allt gengið illa að benda á verulega galla á því – þótt auðvitað séu menn missáttir um einstök ákvæði.

Sem fyrr hvet ég fólk eindregið til að kynna sér frumvarpið á vefsíðunni stjornlagarad.is þar sem líka má lesa ítarlega greinargerð með hverju ákvæði fyrir sig.

Það er eindregin skoðun mín að þjóðin sjálf ætti að fá greiða atkvæði um frumvarpið sem fyrst.

Því rann manni dálítið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þær fréttir bárust sem Guðmundur Andri vitnar til og virtust benda til að ætlun þingforseta væri að stinga frumvarpinu beint oní skúffu.

Einn okkar stjórnlagaráðsmanna hefur að vísu fengið hjá starfsmanni Alþingis þær upplýsingar að fréttirnar hafi kannski verið eitthvað málum blandnar. Fyrir þingforseta hafi vakað það eitt að málið fái þann tíma sem það þarf og þingheimur veitir því.

Forsætisnefnd muni væntanlega leggja frumvarpið fyrir þingið og eftir umræður fari það svo til sjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem kallar líklega til fundar við sig fulltrúa stjórnlaganefndar, fulltrúa stjórnlagaráðs og sérfræðinga. Nefndin muni ennfremur leita álits almennings eins og gert var þegar mannréttindakaflanum var breytt á sínum tíma.

Vonandi fer þetta allt vel. Ég held – burtséð frá minni eigin þátttöku í stjórnlagaráði – að þjóðin þurfi á því að halda að svo mikilvægt verkefni sem ný stjórnarskrá lendi ekki í hökkunarvél hinnar íslensku flokkapólitíkur.

Og reyndar finnst mér að flestu leyti ágætt það sem Róbert Marshall þingmaður segir á Facebook-síðu sinni um málið í dag:

„Mér líst ljómandi vel á tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hef verið að lesa mig í gegnum þær og gæti vel samþykkt tillöguna nánast eins og hún er. Við höfum hins vegar tíma til að vinna þetta enn betur. Hef lagt það til að málsmeðferðin verði rædd á einum degi í þinginu núna í september; tillögunni verði svo vísað til stjórnlaganefndar (sjömanna nefndin) sem vinni málið áfram, beri breytingar undir stjórnlagaráð (25 manna hópurinn) ef einhverjar eru, tillagan fari í þjóðaratkvæði/skoðanakönnun/netkönnun/þjóðfund, og svo verði flutt frumvarp í þinginu. Svo þarf þingrof og næsta þing þarf að samþykja frumvarpið til að það verði að nýrri stjórnarskrá sem gæti samkvæmt þessu tekið gildi sumarið 2013.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!