Laugardagur 03.09.2011 - 10:42 - FB ummæli ()

Bleiki fíllinn

Á sínum tíma var ég alveg á móti því að Íslendingar gengju í Evrópusambandið.

Eiginlega ekki út af neinu sérstöku, heldur var skoðun mín einn vinkill af „við-höfum-ekkert-þangað-að-gera“ hugarfarinu sem líklega býr í brjósti svo margra.

Ég ber fulla virðingu fyrir því hugarfari, enda var það sem sé lengi mitt hugarfar.

Þangað til einhvern tíma á árinu 2007, ef ég man rétt.

Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að við yrðum að fá almennilega mynt.

Krónan væri í reynd óbrúkleg sem gjaldmiðill, hvort sem hún sveiflaðist upp í hæstu hæðir, eins og þá var, eða niður í neðstu myrkur, eins og síðan gerðist í hruninu.

Hún væri jú einmitt óbrúkleg vegna þessara sveiflna.

Og þegar ég fór að íhuga með sjálfum mér hvað við gætum gert til að leysa gjaldmiðilsmálið staðnæmdist ég náttúrlega við evruna.

Við hefðum vissulega gott af því að taka upp evru.

En því fylgdi vitaskuld að ganga í Evrópusambandið.

Og þegar ég fór að hugsa málið sá ég allt í einu ekki hvað var svona hættulegt við það.

Eða hvers vegna „við-hefðum-ekkert-þangað-að-gera“.

Mér sýndist nú einmitt að við hefðum margt þangað að gera. Margir góðir kostir gætu fylgt aðildinni.

Síðan hef ég verið stuðningsmaður þess að Íslendingar sæki um aðild að ESB.

Og héðan af væri afar heimskulegt að leiða ekki aðildarviðræðurnar til lykta af fullri hörku og sóma, og greiða svo atkvæði um hvort aðild hentar okkur.

Ég ítreka að ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem vilja ekki aðild að Evrópusambandinu.

Þótt fáeinir þeirra séu vissulega smákóngar sem vilja fyrst og fremst ekki hætta á að glata yfirráðum yfir sínum litlu valdaskikum, þá hafa langflestir andstæðinganna bara einlægar efasemdir um aðildina.

En það væri kjánalegt að ætla að knýja fram ákvörðun um svo veigamikla íslenska hagsmuni, eins og gætu falist í aðild að ESB, án þess að standa frammi fyrir því raunverulega vali sem felst í aðildarsamningi.

Því hvað sem hver segir, og hvernig sem við ímyndum okkur framtíðina, þá stendur eitt vandamál eftir.

Krónan.

Hún er ónýtur gjaldmiðill. Hvað sem hver segir. Það er bara svoleiðis. Hún hefur haft í för með sér gríðarlega lífskjaraskerðingu síðustu ár, og verður áfram stórhættuleg tifandi tímasprengja í samfélaginu.

Stöðugleiki næst aldrei á Íslandi meðan við þrjóskumst við að nota þessa örmynt.

Og það er alveg rétt sem Guðmundur Steingrímsson segir hér að gjaldmiðillinn er sá bleiki fíll sem blasir við okkur öllum, en við erum eiginlega hætt að tala um.

En við VERÐUM að fá nýja mynt – og evran er þá augljós kostur.

Hún er vissulega ekki upp á sitt allra besta nákvæmlega þessa mánuðina, en hún mun þó vafalítið lifa af og eflast á ný.

Eistar tóku upp evru fyrr á árinu, í miðjum þrengingum evrunnar – og eru hæstánægðir.

Við þurfum að útkljá í alvöru það mál hvort upptaka evru og þar með aðild að ESB hentar okkur.

Ef aðild hentar okkur ekki, þá segjum við bara „nei“ í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þá liggur það fyrir.

Og þá þarf ekki að eyða næstu áratugum í að rífast um ESB.

En í þessu felst að málið verður útkljáð í samningaviðræðum við Evrópusambandið í Brussel, ekki í bloggstríði á Íslandi.

Eiginlega finnst mér óskiljanlegt að einhverjir skuli nú krefjast þess að Íslendingar verði sviptir möguleikanum á að sjá svart á hvítu hvað ESB-aðild hefði í för með sér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!