Mánudagur 05.09.2011 - 11:57 - FB ummæli ()

Þegar Indverjar björguðu okkur

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur farinn mikinn í fjölmiðlum undanfarna daga.

Hann skammast út í Evrópuríkið og Evrópusambandið og virðist að fullu kominn á þá skoðun Davíðs Oddsonar og Styrmis Gunnarssonar að hrunið á Íslandi stafi af því að landsmenn hafi lent í „umsátri“ vondra manna frá útlöndum.

Sem betur fer á Ísland þó góða vini sem hafa aðstoðað okkur í þessari kreppu meðan Ameríka lét okkur sigla sinn sjó og Evrópa beindi að okkur „byssum sínum“.

Þessir góðu vinir eru Kínverjar og Indverjar.

Gott að eiga góða vini – annað en hyski eins og Færeyingar, Pólverjar, Norðurlandaþjóðirnar … ekkert af þessu dóti þarna í Evrópu hefur sýnt okkur annan eins vinarhug og Kínverjar og Indverjar.

Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég heyrði forseta vorn lýsa því hve mikils virði það væri og hvað það hefði hjálpað okkur mikið í kreppunni að Kínverjar og Indverjar væru svona ósköp góðir við okkur.

Svo fór ég reyndar aðeins að klóra mér í höfðinu.

Bíddu hvernig birtist nú aftur þessi mikli vinarhug og þessi gífurlega aðstoð sem Kínverjar og Indverjar veittu okkur?

Hm, allt í einu man ég ekki hvernig þeir hafa bjargað okkur upp úr kreppunni sem vondu Evrópuþjóðirnar kölluðu yfir okkur.

Jú, vissulega gerðu Kínverjar við okkur gjaldeyrisskiptasamning, sem var ágætt, en ég held að hafi nú varla skipt neinum sköpum.

Og Indverjar man ég bara ekki til að hafi gert nokkuð skapaðan hlut.

Nema jú, þeir buðu Ólafi Ragnari Grímssyni í heimsókn.

Varla er ÞAÐ hin mikla aðstoð sem hann segir að Indverjar hafi veitt okkur í þrengingunum sem fimbulvetur Evrópuþjóðanna kallaði yfir okkur?

Það hlýtur að vera eitthvað meira, er það ekki?

Ólafur Ragnar!

Viltu skýra út hvað þú meinar?

Mig langar nefnilega líka svo að þakka Indverjum fyrir að hafa linað þjáningar okkar í stríðinu við Evrópu, en ég veit bara ekki alveg hvernig ég ætti að orða þakkirnar.

Viltu útskýra þetta aaaaaaaðeins nánar?

Þú mátt fá pláss hérna á bloggsíðunni minni fyrir skýringarnar.

Því ekki varstu bara að bulla, nei, það getur ekki verið!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!