Sunnudagur 04.09.2011 - 12:57 - FB ummæli ()

Martröð íbúa miðbæjarins

Ég man alltaf eftir skopteikningu sem birtist í bandarísku blaði nokkru fyrir forsetakosningakosningarnar þar haustið 1980.

Þá áttust við Jimmy Carter forseti og Ronald Reagan.

Carter þótti vera einstaklega ólánlegur á forsetastóli og þótt Reagan yrði síðar afar vinsæll þótti hann ekki sannfærandi frambjóðandi.

Mörgum Bandaríkjamönnum fannst þeir því eins og milli steins og sleggju að sitja uppi með þá tvo í framboði.

Á skopmyndinni var kjósandi að vakna í rúmi sínu og uppgötvaði að á rúmgaflinum sátu tveir stórir og ljótir gammar með hausa þeirra Reagans og Carters.

Og kjósandinn umlaði eitthvað á þessa leið: „Guð minn almáttugur, ég hélt þetta hefði verið martröð! Er engin leið að losna við þá tvo?“

Af einhverjum ástæðum datt mér þetta í hug nú þegar hugmyndir um sjúkrahússkrímslið í miðbæ Reykjavíkur eru að fara af stað aftur.

Það virðist engin leið að losna við þetta tröll, sem mun sporðreisa miðbæinn gjörsamlega.

Þetta hátæknisjúkrahús og flugvöllurinn eru þeir tveir gammar sem sitja á rúmgafli íbúa í miðbæ Reykjavíkur og engin leið virðist að losna við.

Það væri svo margt hægt að gera við þetta svæði – bæta mannlífið í borginni, en í staðinn er bara hugsað um steinsteypu, meiri steinsteypu, mislæg gatnamót og samgöngumiðstöðvar.

Ég ætla að rétt að vona að yfirvöld Reykjavíkur finni þessum ferlíkjum stað annars staðar en akkúrat í miðbænum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!