Þriðjudagur 06.09.2011 - 08:27 - FB ummæli ()

Hækkið bílprófsaldur strax!

Í Ríkisútvarpinu rétt í þessu var sagt frá því að kappakstri tveggja ungra ökumanna í Kópavogi í gærkvöldi (sjá leiðréttingu á þessu hér að neðan!) hefði lokið með því að annar bíllinn fór út af og valt nokkrar veltur áður en hann stöðvaðist.

Bílstjórinn slasaðist ekki mikið en aðrir vegfarendur voru í mikilli hættu.

Þetta gerist rétt eftir að til stóð að reyna einhvers konar vitundarvakningu um ábyrgari akstur hjá ungum bílstjórum, eftir að hraðakstur við höfnina í Reykjavík endaði með skelfingu.

Marga hef ég séð geta þess á Facebook að sú vitundarvakning hafi ekki skilað nokkrum sköpuðum hlut.

Ungir  ökumenn – nýkomnir með bílpróf – stundi enn kappakstur af þrótti á götum og torgum.

Vælandi óhljóð í kraftmiklum bílum, það er partur af kvöldhljóðunum í sumum hverfum höfuðborgarsvæðsins.

Þið fyrirgefið, en það er kominn tími til að gera eitthvað í þessu.

Ég vil ekki eiga á hættu að ég eða mitt fólk eða bara hvaða fólk sem er lendi í lífshættu við að rekast á barnung fífl að þenja sig á götum úti.

Það verður að hækka bílprófsaldur – að minnsta kosti upp í tvítugt.

Þá er aðeins minni hætta á að þessir ungu „ökumenn“ fari sjálfum sér og öðrum að voða – þó því miður verði ekki alveg loku fyrir það skotið.

Ég fer fram á alvöru umræðu um þetta mál.

Af hverju eiga 17 ára börn að fá að setjast undir stýri á stórhættulegum tækjum, sem þau hafa hvorki líkamlegan né andlegan þroska til að stýra?

Af hverju eru 25 ára fótboltamenn betri en þeir 17 ára, þótt táningsstrákarnir séu kannski í betra líkamlegu formi?

Það er vegna þess að heilinn í 17 ára táningi er ekki fullþroskaður. Hæfileikinn til að meta hraða og fjarlægðir er ekki kominn að öllu leyti í gagnið. Táningurinn getur ekki metið eins vel og sá sem kominn yfir tvítugt hvað gerist næst hjá þrem fjórum hlaupandi keppinautum sínum á fótboltavellinum.

Sama gildir um bílstjóra. Alveg sama hvað sá 17 ára telur sig búinn að læra vel undir ökuprófið, hann hefur einfaldlega ekki nógu þroskaðan heila til að meta alltaf rétt hvað gerist á götu þar sem margir eru á ferli, bæði bílar og gangandi vegfaraendur.

Allra síst ef hann er á ofsahraða.

Þetta er ekki sagt einhverjum tilteknum táningum til hnjóðs, þetta er bara staðreynd.

Svo af hverju heimtum við að troða þeim undir stýri á barnsaldri?

Og höfum talið stórum hópi þeirra trú um að það sé spurning um manndóm þeirra að þau fari 17 ára gömul að stjórna stórhættulegum ökutækjum innan um fullt af saklausu fólki?

Af hverju?

Hvað liggur eiginlega á?!

Nei, það á að hækka bílprófsaldur um mörg ár.

Það er bara engin ástæða til að krakkar undir tvítugu séu að keyra bíla.

Þeim er einfaldlega ekki öllum treystandi.

Ef bílprófsaldur væri hækkaður mundu einhverjir kannski segja að þar með séu tiltölulega fáir ökumenn, sem ekki eru traustsins verðir, að skemma fyrir meirihlutanum sem ekki stundar ofsaakstur.

En það verður þá bara að vera svo.

Því þetta er spurning um líf eða dauða bæði fyrir hina ungu ökumenn – og aðra vegfarendur.

Við leyfum fólki ekki að ganga um vopnað á almannafæri þótt sjálfsagt væri meirihlutanum alveg treystandi til þess.

Og til að svara fyrirfram ásökunum um að þetta sé voðaleg forræðishyggja:

Nei, það er ekki forræðishyggja að vilja að fólk fái ekki bílpróf fyrr líklegt sé að það hafi raunverulegan þroska til.

Þeir sem telja að það sé stórhættuleg forræðishyggja að koma í veg fyrir að sautján ára gömul börn fái bílpróf, vilja þeir að tíu ára krakkar fái að keyra bíl?

Ég held ekki. Er það þá forræðishyggja?

– – – –

Samkvæmt nýjustu fréttum voru ökumennirnir í Kópavogi engin unglömb. Annar 25 ára og sá sem velti bíl sínum 64ja ára.

Jahérna.

Hvílík fífl!

Ég ætla samt að láta pistilinn minn standa.

Stór meirihluti þeirra sem stunda ofsaakstur á götum höfuðborgarsvæðisins er undir tvítugu og það vita allir.

En með tilliti til aldurs bílstjórans sem velti bílnum sínum, þá ætti kannski að íhuga þá tillögu að hækka bílprófsaldurinn uppí sjötugt!!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!