Fimmtudagur 06.10.2011 - 19:53 - FB ummæli ()

Hver er „sú vinna“ Steingrímur?

Það er guðsþakkarvert hvað sú reiðibylgja virðist ætla að rísa hátt sem kviknaði af ráðningu Páls Magnússonar til Bankasýslu ríkisins.

Með fullri virðingu fyrir mannkostum Páls, þá er ráðning hans í þetta embætti skandall og ekkert nema skandall, og það af fleiri en einni ástæðu.

Hann er augljóslega ekki hæfastur í djobbið – og hvort sem honum sjálfum þykir það ljúft eða leitt, þá er fortíð hans við einka(vina)væðingu bankanna þess eðlis að þetta er nákvæmlega það starf sem hann á EKKI að gegna.

Ef við létum okkur fátt um finnast, þá þýddi það að allar okkar heitstrengingar um að við ætluðum að læra eitthvað af „góðærinu“ og síðan hruninu væru bara innantómt blaður.

Ég er mest hissa á að Páll sjálfur skuli ætla að sitja við sinn keip og taka þetta starf.

En þetta bara má ekki gerast, og ég vona að andstaðan við þetta fáránlega uppátæki Bankasýslu ríkisins muni ekki lyppast niður.

Helgi Hjörvar kvað prýðilega skýrt að orði á þingi í dag – gott hjá honum.

En í fréttum Ríkissjónvarpsins áðan var sagt að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefði beðið um skýringar Bankasýslu ríkisins á því af hverju Páll hefði verið ráðinn og þangað til sú vinna væri að baki myndi hann ekki tjá sig.

Haaaaa?

Má fjármálaráðherra ekki tjá sig um hvað sú mikilvæga stofnun, sem heyrir undir hann, tekur sér fyrir hendur?

Ég er ekki að biðja um að ráðherrar séu með puttana í öllu, fjarri því, en ég hefði nú haldið að ráðherra mætti tjá sig um annað eins og þetta, sér í lagi vegna þess að þetta hefur vakið mikla reiði í samfélaginu.

En Steingrímur ætlar ekki að tjá fyrr en Bankasýsla ríkisins hefur innt af hendi „þá vinnu“ að skýra ráðninguna.

Með leyfi, hver er „sú vinna“?

Þorsteinn Þorsteinsson er búinn að koma í Kastljósið og halda uppi vörnum fyrir ráðninguna. Ráðningarferillinn hlýtur að vera allur til á pappír. Það ætti ekki að taka nema svona klukkutíma að smala saman öllum gögnum málsins og fá í hendur Steingrími.

Hans knái aðstoðarmaður gæti jafnvel græjað þetta á bara hálftíma.

Svo er til tæki sem heitir sími, og Steingrímur gæti jafnvel hringt í Þorstein, hafi honum ekki þótt stjórnarformaður Bankasýslunnar skýra málið nógsamlega í Kastljósi.

En í staðinn á að eyða tíma í að Bankasýsla ríkisins vinni einhverja „þá vinnu“ við að skýra þennan skandal.

Hver getur „sú vinna“ verið?

Að tala við einhverja lögfræðinga um hvernig megi réttlæta þetta?

Og gefa Páli Magnússyni á meðan færi á að koma sér þægilega fyrir í embættinu?

Og svo þegar „þeirri vinnu“ er lokið eftir einhverjar vikur (!!) þá nennir enginn eða kann enginn við að hrófla við honum?

Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki hugsað svona.

Ænei, Steingrímur. Ekki fara að eyða tíma í að bíða eftir „þeirri vinnu“.

Við erum búin að fá skýringarnar, og þú vafalaust líka.

Til hvers að drepa málinu á dreif?

Nýja Ísland, manstu?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!