Þriðjudagur 18.10.2011 - 14:57 - FB ummæli ()

Drepið á dreif

Ýmsir hafa síðustu dægur haldið uppi vörnum fyrir ráðningu Páls Magnússonar til Bankasýslu ríkisins, eða altént gagnrýnt þá sem gagnrýnt hafa ráðninguna.

Á þeim forsendum að hvað sem öðru líði, þá hafi ráðning Páls verið „fagleg“ og að ekki megi snúa aftur til þeirra tíma þegar ráðherrar völdu æðstu embættismenn með tilliti til þess hverjir væru þeim þóknanlegir, pólitískt eða persónulega.

Að amast við Páli á þeirri forsendu að hann sé framsóknarmaður sé afturhvarf til fyrri tíma.

Þetta er, held ég, á algjörum misskilningi byggt.

Enginn hefur – svo ég viti til – amast við Páli Magnússyni á þeirri forsendu sérstaklega að hann sé framsóknarmaður. Ekki ég alla vega.

Framsóknarmenn eru söguleg staðreynd sem ekki verður hróflað við að sinni.

Menn hafa amast við Páli Magnússyni á tveimur forsendum.

Í fyrsta lagi liggur alls ekki fyrir að hann hafi borið af öðrum umsækjendum, nema síður sé. Stjórnarformaður Bankasýslunnar hefur að vísu fullyrt að Páll hafi verið „hæfastur“ en honum hefur ekki tekist að sannfæra fólk um það.

Í öðru lagi er amast við Páli vegna þess að hann var pólitískur aðstoðarmaður ráðherra sem hrintu í framkvæmd þeirri einkavæðingu bankanna sem endaði með ósköpum í hruninu 2008. Við vitum öll hvernig staðið var að þeirri einkavinavæðingu.

Það er einkennilega ósmekklegt að sá sem kom svo nærri einkavinavæðingunni skuli nú eiga að stýra þeirri Bankasýslu sem nú á að hreinsa upp sóðaskapinn eftir hina einkavinavæddu banka.

Þótt Páll Magnússon sé vafalaust góður drengur, þá verða hann og málsvarar hans að sætta sig við það viðhorf fólks.

Og mér finnst í rauninni óskiljanlegt að hann skuli ekki fatta það – og draga sig í hlé.

Ég verð eiginlega að viðurkenna að mér finnst það ekki nógu góð meðmæli með Páli Magnússyni að hann skuli ekki þekkja sinn vitjunartíma að þessu leyti.

Runólfur Ágústsson er mjög flinkur maður og til margra hluta nytsamlegur. Þegar hann var lentur í embætti umboðsmanns skuldara þótti það hins vegar sérlega illa til fundið af því hann eða einhver apparöt á hans vegum höfðu skuldað einhverjar summur á sínum tíma.

Runólfur sætti sig við að fólki fannst þetta ekki passa, dró sig í hlé og fann sér bara aðra vinnu.

Sama ætti Páll að gera.

Ef hann er svona flinkur verður hann varla í vandræðum með að finna sér starf við hæfi.

En forstjóri Bankasýslu ríkisins er ekki það starf.

Og það kemur málinu ekkert við hvort hann er framsóknarmaður eða ekki.

Fólk sem heldur því fram að gagnrýnendur amist við Páli af því hann sé framsóknarmaður er bara að drepa málinu á dreif.

Og sama gera þeir sem halda því fram að alls ekki megi gagnrýna ráðningu Páls því þar með séu menn að hindra siðvæðinguna sem felist í að ráðherrar pikki ekki út sína menn.

Mér finnst það satt að segja býsna kaldrifjaður brandari að það sé nú allt í einu vottur um siðvæðingu á Íslandi að fyrrum aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur við einkavinavæðingu bankanna skuli endilega þurfa að verða forstjóri Bankasýslu ríkisins!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!