Fimmtudagur 17.11.2011 - 08:39 - FB ummæli ()

Merkel og Sarkozy

Hérna er fín grein eftir Jón Orm Halldórsson um Evrópusambandið.

Ég mæli með að fólk lesi hana.

Ég var á sínum tíma eindregið á móti því að Ísland kæmi nálægt Evrópusambandinu.

Eiginlega ekki út af neinu sérstöku – bara þeim „ESB-passar-okkur-ekkert“ staðhæfingunum, sem ég held að búi að baki mestallri andstöðunni við ESB hér á landi.

Án þess að öllu öflugri rök komi til.

Fyrir nokkrum árum skipti ég um skoðun, fyrst og fremst af því ég sá ekkert annað ráð til að losna við skaðvaldinn íslensku krónuna.

Sá skaðvaldur er ábyrgur fyrir mestu lífskjaraskerðingu á seinni tímum.

Ég hef ekkert skipt um skoðun á krónunni. Við verðum að losna við hana til að öðlast hér einhvern stöðugleika.

Undanfarið hefur ESB virst í djúpum vandræðum – og er það auðvitað að vissu leyti.

Í flestöllum ESB-ríkjum hefur samt ekki orðið neitt viðlíka hrun og hér á Íslandi.

Við ættum því ekki að setja okkur á mjög háan hest.

Og þó það hljómi kannski mótsagnakennt, þá hefur velvild mín í garð Evrópusambandsins heldur aukist en hitt síðustu vikur og mánuði á því að fylgjast með sambandinu reyna að leysa vanda ofurskuldugra ríkja innan vébanda sinna.

Sú mynd sem hörðustu andstæðingar ESB hafa stundum dregið upp af sambandinu – að það sé andlitslaus vél gírugra valdapólitíkusa og pappírspésa í Brussel er bersýnilega röng.

Ríku löndin í ESB gætu fyrir löngu verið búin að varpa skuldakóngunum út í ystu myrkur, eða knésetja þau endanlega með peningalegu ofurvaldi sínu.

En ekkert slíkt gerist.

Sambandið reynir að leysa vandann í sátt og samlyndi, þannig að allir geti við unað.

Mér er eiginlega farið að þykja bara vænt um Angelu Merkel og Sarkozy þar sem þau skjótast á hvern fundinn af öðrum og reyna af öllum mætti að leysa málin í friði – án nokkurs yfirgangs eða frekju að því er séð verður.

Það gengur svona og svona – en kemst þó hægt fari.

Á sama tíma situr David Cameron í Bretlandi yfirlætisfullur á hliðarlínunni og þykist yfir þetta hafinn – þó kreppan á Bretlandi sé verri en í ESB.

Að ekki sé nú minnst á ýmsa stjórnmálamenn hér á Íslandi sem þeyta grjóti úr glerhúsi eins og þeim sé borgað fyrir það.

Nei – Angela Merkel og Sarkozy eru mitt fólk.

Hæglát, kurteis, svolítið klaufaleg stundum, engin ofurmenni og þykjast ekki vera það, en vel meinandi fólk.

Þegar að því kemur að Íslendingar greiði atkvæði um hvort við ættum ganga í klúbbinn verða verstu efnahagsvandræði ESB vafalaust að baki.

Við getum þá tekið afstöðu til aðildar óháð því hvort alþjóðlegum fjárfestum finnst Merkel og Sarkozy nógu töff þá og þá stundina eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!