Miðvikudagur 16.11.2011 - 18:23 - FB ummæli ()

Eitthvað hefur áunnist

Það er guðs þakkar vert hve umræða um einelti og alls konar kúgun og ofbeldi hefur aukist í samfélaginu síðustu árin.

Fyrir það má ekki síst þakka fjölmiðlum. DV hefur þar verið fremst í flokki, en ýmsir aðrir fjölmiðlar – bæði á netinu og annars staðar – hafa líka staðið sig vel.

Maður verður vissulega var við að sumum þykir stundum nóg um, þegar ný og ný eineltismál skjóta upp kollinum – en fjölmiðlar mega ekki láta það draga úr sér kjark við að upplýsa slík mál, þótt stundum sé lýjandi að horfast í augu við sannleikann.

Með því að fjalla stöðugt og einlægt um slík mál er von til þess að einhvern tíma takist kannski að útrýma því hugarfari sem gerir kúgun og einelti mögulegt.

Ég veit ekkert um málefni 13 ára drengsins á Suðurnesjum umfram það sem staðið hefur í fjölmiðlum, en ég held að fjölmiðlaumfjöllun um einelti og ofbeldi síðustu misserin hljóti að eiga sinn þátt í að þetta sorglega mál var að minnsta kosti ekki þaggað niður – eins og hætta er á að gerst hefði í eina tíð.

Því annað eins hefur því miður áreiðanlega gerst einhvern tíma áður, en enginn frétt af því nema níðingarnir og fórnarlömbin. Í mesta lagi að fólk í nágrenninu hafi hrist hausinn en ekki talið gerlegt til að gera neitt – og jafnvel ekki ástæða til.

Það eru þrátt fyrir allt ekki nema sjö ár síðan DV fjallaði um seinfæran mann sem sagður var hafa sætt einelti í sínu næsta nágrenni, sem hefði falist meðal annars í því að menn hefðu gefið honum laxerolíu sér til skemmtunar. Og annað var í þeim dúr.

Þá var blaðið skammað blóðugum skömmum fyrir að fjalla um þetta, sem alls ekkert erindi ætti á prent, og fyrir að þyrla upp moldvirði um saklausa „stríðni“.

Þótt það sé erfitt og sársaukafullt að lesa um grimmileg eineltismál, þá verðum við að hafa hugfast að umfjöllun um þau er þó að minnsta kosti til marks um að þau eru ekki lengur í felum, ekki lengur feimnismál, ekki lengur talin sjálfsögð.

Það hefur þó áunnist.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!