Föstudagur 18.11.2011 - 21:30 - FB ummæli ()

Menningarminjar

Vésteinn Ólafsson fyrrverandi prófessor og forstöðumaður Árnastofnunar skrifar í Fréttablaðið í dag um hugmyndir um að reisa í Skálholti kirkju í stíl hinna stórmerkilegu miðaldadómkirkna sem þar stóðu forðum.

Og hann finnur þeim hugmyndum flest til foráttu.

Mér finnst svolítið yfirlæti skína í gegnum grein hans.

Yfirlæti þess sem er viss um að hann hafi höndlað hinn endanlega sannleika um hvernig meðhöndla skuli menningararf og minjar.

Ég segi þetta vegna þess að ég hef oft hugsað um það þegar ég skoða fornar minjar erlendis, hversu gaman væri ef maður fengi að sjá og skoða hin gömlu mannvirki í allri sinni dýrð, áður en tíminn vann á þeim.

Ég ímynda mér auðvitað ekki að slík endurreist mannvirki væru nákvæmlega eins og þau hin fornu, en samt væri gaman að skoða þau.

Og Vésteinn viðurkennir sjálfur að „tilgátuhús“ eins og bærinn á Stöng eigi fullan rétt á sér, og því skil ég ekki gremju hans út í endurgerða miðaldadómkirkju.

Eða af hverju slíkt uppátæki heitir allt í einu „smekkleysi og rugl“.

Ef Meyjarhofið á Akrópólis-hæð hefði verið gert úr timbri, eins og dómkirkjurnar í Skálholti, og því horfið í tímans rás, hefði þá Vésteinn Ólafsson skrifað af fyrirlitningu um hugmyndir um að endurreisa það í sem næst upprunalegri mynd?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!