Laugardagur 19.11.2011 - 15:18 - FB ummæli ()

Stríð athugasemdasemjaranna

Þar sem það hefur orðið fréttaefni á að minnsta kosti tveimur vefsíðum að nafnlausir skríbentar hafi villt á sér heimildir í athugasemdum á bloggsíðunni minni, þá er best ég afgreiði málið fyrir mína parta.

Í gærmorgun uppgötvaði ég mér til stórrar furðu að einhver hafði tekið þátt í umræðum um einn af bloggpistlum mínum undir mínu nafni. Þegar ég skoðaði athugasemdirnar nánar sá ég að viðkomandi hafði raunar skrifað athugasemdir undir fleiri nöfnum, og var þar bæði um full nöfn og stuttnefni að ræða.

Þetta þótti mér vitaskuld svívirða hin mesta og lokaði athugasemdakerfinu umsvifalaust, eða færði það yfir á Facebook. Með því móti er fólki illmögulegt að þykjast vera aðrir nafngreindir einstaklingar, þótt það geti að vísu eftir sem áður skrifað undir fölskum nöfnum eða dulnefni.

Ég fékk síðan tölvupóst frá viðkomandi þar sem hann kvaðst hafa gert þetta í einhvers konar sjálfsvarnarskyni, þar eð einhver enn annar hefði síðustu daga tekið upp á því að skrifa athugasemdir undir dulnefninu hans. Sagðist honum hafa líkað stórilla og gert athugasemdir við þetta. Ég hef greinilega ekki lesið athugasemdirnar nógu vel, því ég hafði ekki veitt þessum erjum hinna nafnlausu athugasemdasemjara nokkra athygli! Altént kom það í ljós þegar vefstjóri síðunnar skoðaði málið að þetta var rétt – annar aðili hafði vissulega skrifað athugasemdir undir sama dulnefni og hinn í nokkur skipti og sent frá ýmsum netföngum. Ekki hef ég minnstu hugmynd um hvað fyrir honum vakti, og langar ekki að vita það. En þó gremja þess sem „átti“ dulnefnið sé ef til vill skiljanleg, þá er þó ekkert sem afsakar að taka sér nöfn annars fólks.

Þetta er svolítið fyndið mál – minnir svolítið á hinar rússnesku babúskur, þar sem einn leynist inní öðrum, en mér finnst þó ekkert fyndið að skrifa athugasemdir undir fullu nafni einhvers annars. Því munu athugasemdir á bloggsíðunni fyrst um sinn verða bundnar við Facebook, þó ég verði að viðurkenna að helst vildi ég sleppa því. Ég er eindregið fylgjandi því að fólk skrifi undir fullu nafni, en hafi fólk ríka ástæðu til að nota dulnefni finnst mér það í rauninni allt í lagi, svo lengi sem skikkanlegrar kurteisi er gætt.

(Í þessum pistli kemur fyrir nýyrðið „athugasemdasemjari“ sem er vissulega bæði ljótt og óþjált en mér finnst þó hæfa vel. Hvet ég fólk til að hlúa að orðinu og koma því á legg.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!